13.02.1925
Neðri deild: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (2236)

15. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Sigurjón Jónsson:

Af því jeg býst við, að hæstv. forsrh. taki aftur til máls, vildi jeg nota tækifærið áður og beina til hans dálítilli fyrirspurn.

Annars get jeg fallist á margt af því, sem hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) tók fram í ræðu sinni, og viðurkenni, að með þessu frv. er ráðist á garðinn, þar sem hann er lægstur. En hv. þm. V.-Ísf. ræddi svo ítarlega um þessi tvö atriði, sem mestu máli skifta, að jeg sje ekki ástæðu til að bæta þar fleira við, á þessu stigi málsins.

En það, sem jeg vildi spyrjast fyrir um, er þetta:

Samkv. frv. þessu eiga lögin að ganga í gildi 1. jan. 1926. Hvernig fer þá um kennarana, sem ráðnir eru eftir lögunum frá 1919? Verður hægt að beita þessum lögum við þá kennara, sem ráðnir eru áður með ákveðnum launum og samkvæmt eldri lögum, þar sem aðeins er krafist 30 stunda kenslu á viku?

Jeg veit ekki, hvernig hægt er að rjúfa þá samninga, sem gerðir eru lögum samkvæmt í þessu efni. í frv. er ekkert á það minst. Ef til vill er þetta hægt með bráðabirgðaákvæði í lögunum, eða þá, að segja öllum kennurum upp, sem skipaðir hafa verið samkvæmt eldri lögum, ef það væri hægt.

Það er um þetta atriði, sem mig langar til að fræðast, og vænti, að hæstv. forsrh. gefi mjer greið svör í þessu efni.