13.02.1925
Neðri deild: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (2237)

15. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Forsætisráðherra (JM):

Jeg bjóst alt af við því, að háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) myndi mótmæla frumvarpi þessu, því að svo mjög ber hann kennarastjettina fyrir brjósti, og er það ekki nema eðlilegt, frá hans sjónarmiði. Skal jeg því ekkert lá það, þó að hann, frá sjónarmiði stjettar sinnar, mótmæli aukning á starfi þeirra. En jeg lít svo á, að þetta sje á engan hátt harðara en ýmsar aðrar stjettir hafa orðið að þola í seinni tíð, að minsta kosti man jeg ekki eftir mótmælum frá honum í fyrra, þegar heimtað var, að vinnutími starfsmanna í stjórnarráðinu væri lengdur upp í 8 stundir á dag, og engin tillaga kom þá um, að laun þeirra væri hækkuð um leið.

Að hjer sje verið að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, held jeg, að ekki sje rjett. Að minsta kosti verður hann vart talinn lægri en sumir starfsmenn stjórnarráðsins. Jeg verð því að halda því fast fram, að hjer sje um enga ósanngirni að ræða, þegar á alt er litið.

Þá talaði háttv. þm. (ÁÁ) mikið um, hvort hjer væri átt við lágmark eða hámark stundafjölda. En jeg get fullvissað háttv. þm. um, að hjer er átt við hámark. En vel má vera, að rjett væri að breyta orðalaginu, svo að þetta komi ótvírætt í ljós.

Jeg skyldi ekkert vera á móti því, að taka til athugunar einhverja breytingu á launakjörum lækna. Væri jeg ekkert á móti, þó að borgun til þeirra væri færð eitthvað til. í þessu gæti jeg orðið háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) samferða.

Hvað lengd kenslustundanna snertir, þá er mjer vel kunnugt um, að hver kenslustund, t. d. í Svíþjóð, er ekki talin nema 40 mín. Væri jeg því ekkert á móti því, að hver kenslustund við barnaskólana hjer væri talin 40 mínútur; teldi það miklu frekar holt fyrir skólalifið, enda ekkert talað um í frv. þessu, hve margar mínútur hver kenslustund skuli vera.

Jeg skal fúslega viðurkenna, að jeg er ekki eins kunnugur skólamálum út um heim eins og þessi háttv. þm. (ÁÁ), sem sjerstaklega hefir kynt sjer þau. En það hygg jeg, að jeg hafi ekki hjer farið með rangt mál.

Ef okkur greindi ekki á um annað en aldursuppbótina, þá gætum við komið á samkomulagi okkar í milli.

Það er eflaust rjett hjá háttv. þm., að kennarastjettin hafi ekki eins góð laun og æskilegt væri. En svo er um fleiri. Og jeg staðhæfi, að þau sjeu ekki á nokkurn hátt verri en launakjör annara stjetta, ef gerður er rjettur samanburður. Að minsta kosti hafa kennararnir mikinn tíma frí frá skólunum, og einmitt þann tíma, sem talinn er arðvænlegasti tími ársins.

Mjer þótti leitt, að háttv. þm. var með áreitni í garð sparnaðamefndarinnar, þar sem hann var að tala um, að nefndarmenn hefðu sýnt óhreinskilni og ásakar þá um miður góðar hvatir, með fleiri óviðurkvæmilegum orðum. Þetta kemur mjer því undarlegar fyrir sem þessi hv. þm. (ÁÁ) er annars ekki vanur að koma svo fram hjer. Að hinu leytinu er það kunnugt, að þessa nefnd skipa hinir mestu sómamenn og hæfileikamenn, sem enginn annar en hv. þm. (ÁÁ) efast um, að leggi það eitt til, sem þeir telja rjett, og eiga alt annað skilið fyrir starf sitt en vanþakklæti, hvað þá beinlínis árásir. Jeg verð því að vita þessi ummæli háttv. þm. V.-Ísf.

Þá vík jeg máli mínu til háttv. þm. Ísaf. (SigurjJ), sem sömuleiðis virtist vera mjög ant um kennarastjettina. Þessi háttv. þm. talaði líka um, að hjer væri ráðist á garðinn, þar sem hann væri lægstur. En við það vil jeg alls ekki kannast, því að í háttv. Ed. er líka á ferðinni frv., sem fer fram á að fjölga kenslustundum annara kennara.

Þá spurðist háttv. þm. fyrir um það, hvort þeir kennarar, sem nú þegar væri skipaðir, mundu falla undir ákvæði frv. Þar til er hv. þm. því að svara, að það er ekki einsætt. Um það gæti verið ástæða til að tala við háttv. mentmn.

Mál þetta verður vitanlega athugað í mentamálanefnd, einmitt þar sem hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) á sæti.