16.03.1925
Neðri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2243)

15. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Forsætisráðherra (JM):

Þótt jeg að vísu leggi ekki sjerlega mikla áherslu á, að frv. nái fram að ganga, þá verð jeg að álíta, að það beri að samþykkja það. Það hefir inni að halda tvö fjarskyld aðalatriði.

Um breytingarnar í 1., 2., 6. og 7. gr. má segja, að þær komi mjer við, kenslumálastjórninni. Hin ákvæðin, um hver skuli borga launin, hvernig þeim skuli skift milli aðilja, ríkissjóðs og sveitar, það snertir fremur fjármálastjórnina.

Annars finst mjer undarlegt, að hv. mentmn. skyldi ekki geta fallist á 1. gr. frv. Þegar við erum búnir að fá fullkominn kennaraskóla og lengja námstíma kennaraefnanna, þá virðist undarlegt, að þeir eigi ekki að hafa forgangsrjett að barnaskólum, ekki ganga fyrir þeim, sem enga kennaramentun hafa. Með þessari breytingu er aðeins verið að tryggja rjett þeirra manna, sem stundað haf nám við kennaraskólann og lagt í mikinn kostnað, til þess að verða hæfir barnakennarar. Þessvegna get jeg ekki skilið, hversvegna nefndin getur ekki fallist á jafnsjálfsagðar breytingar. Um f.-liðinn, eða þá viðbót, virðist nefndin heldur ekki telja neitt verulegt atriði til bóta. Jeg get þá verið ánægður að standa einn uppi með þessar kröfur, og ástæðulaust að vera að ræða frekar um þær. En þó skal jeg bæta því við, að breytingarnar í 2. gr. tel jeg miklu minna atriði en þau tvö, er 1. gr. nefnir.

Um 6. gr. þarf jeg ekki að fjölyrða nú, jeg skýrði hana rækilega við 1. umr., enda virðist mjer að nefndin hafi eiginlega fallist á hana, þó mjer hinsvegar skiljist, að hún ætlist til, að frv. sje felt.

Annars sje jeg enga ástæðu til að halda langa ræðu, og býst ekki við, að deildin þurfi frekari skýringa við í þessu efni. Aðeins vil jeg taka það fram, ennþá einu sinni, að jeg get ekki fallist á, að þessi atriði, sem ekki snerta fjárhagshlið þessa máls, sjeu svo lítilfjörleg, að ekki taki því, að þeim sje gaumur gefinn.

þá er það kenslustundafjöldinn, eða spurningin um það, hvort kennarar eigi að kenna 30 stundir á viku eða 36, eins og tíðkast í nágrannalöndum. Jeg get nú raunar verið ánægður með dóm nefndarinnar, því að hún viðurkennir, að í kaupstöðum sje það engum ofætlun að kenna 6 stundir á dag, og hv. frsm. (SigurjJ) sagði, að í sveitum myndi það allvíða tíðkast, að kennarar kendu þann stundafjölda og jafnvel lengur. Enda er þetta ekki annað en það, sem víða viðgekst áður en kennararnir fengu bætt laun sín.

Nefndin viðurkennir, að engum manni sje ofætlun að kenna sex stundir á dag við barnaskóla, og þykir mjer vænt um slíka viðurkenningu. Um varnagla nefndarinnar, að með auknum stundafjölda þurfi að hækka launin, er þetta að segja: Það er sama lagið, sem altaf er verið að syngja, að kennararnir sjeu svo illa launaðir. Jeg skal að vísu játa, að launin eru ekki há, en sjeu þau borin saman við laun annara starfsmanna ríkisins, þá sjest það, að þeir eru yfirleitt ekki betur launaðir en einmitt barnakennararnir. Og þó að vitnað sje til Danmerkur, að barnakennarar sjeu þar betur launaðir, þá er aðgætandi, að tími sá, er kensla fer þar fram, er talsvert lengri en hjer. Það er nú líka svo, að þegar verið er að vitna í launakjör barnakennara, þá er altaf talað um, að fjölskyldumaðurinn geti ekki lifað af laununum einum. Með því er gefið í skyn, að einhleypi kennarinn bjargist vel, og eiginlega sjeu launin nógu há. Þessvegna fyndist mjer rjettara að veita einhverja uppbót, eða ívilnun, fátækum barnakennurum, sem mikla ómegð hafa, heldur en að hækka launin í heild, áður en hækkað er við suma aðra embættismenn þjóðarinnar, sem, þegar á alt er litið, bera miklu minna úr býtum fyrir lengri vinnu og meira starf í þágu hins opinbera. T. d. má benda á, að bera saman hæstu kennaralaun og laun presta. Kennaralaunin verða hærri. Að vísu hafa prestarnir aukaverk, sem þeir fá sjerstaka borgun fyrir. En þau gera ekki meira en vega á móti þeim hagnaði, sem kennararnir hafa af því að vera lausir frá starfi sínu 4–5 bestu mánuði ársins.

Að það sje ekki sparnaður fyrir ríkissjóð, að kendar verði 6 stundir á dag, í stað 5, get jeg ekki skilið. Jeg held því, að það sje hugsunarvilla hjá hv. frsm. (SigurjJ), þar sem hann neitaði, að það væri sparnaður. Jeg held, að engum geti dulist, að af því megi verða töluverður sparnaður.

Um launaviðbót eftir þjónustualdri gæti jeg fallist á að láta vera eins og nú er.

Hvað snertir 5. gr., sem ræðir um dýrtíðaruppbótina, er það að segja, að hún, eða samskonar ákvæði, var samþykt í þessari hv. deild í fyrra. Verði hún því ekki samþykt nú, þýðir það ekkert annað en það, að hv. deild hefir aflað sjer meiri og betri þekkingar í því atriði en hún hafði öðlast í fyrra.

Annars er ekkert undarlegt, þó að slík tillaga sem þessi komi frá mjer, því að jeg varð alveg undrandi í fyrstu, þegar öllum þessum gjöldum var dembt í einu yfir á ríkissjóð, af bæja- og sveitasjóðum. Urðu sum bæjarfjelög jafnvel hissa, þegar farið var að taka þetta af þeim og velta því yfir á ríkissjóð. Jeg var þá þm. Reykvíkinga, en þó hafði jeg orð á, að hjer mundi of langt farið. Hefir þetta fyrirkomulag haldist síðan. En mjer finst og hefir altaf fundist eðlilegast, að bæja- og sveitafjelögin borguðu dýrtíðaruppbótina í sömu hlutföllum og launin.

Annars mun óhætt að segja, að ríkissjóður hjer greiði meira til barnafræðslunnar en venja er til, að ríkissjóðir annara ríkja geri, því jeg held mjer sje óhætt að fullyrða, að erlendis sje barnafræðslan mest borin uppi af bæja- og sveitasjóðum.

Jeg sje alls ekki, að háttv. mentmn. hafi fært fram nein gild rök gegn frv. þessu. Og jeg vil minna á, í þessu sambandi, að í fyrra var í þessari hv. deild samþykt krafa um, að starfstími skrifstofumanna í stjórnarráðinu væri lengdur úr 5 tímum upp í 6. Móti þessu heyrðist varla nokkur rödd. Við þessari kröfu varð stjórnarráðið, án þess að bæta nokkuð laun mannanna. Eru þau þó að mun lægri en laun kennara. Ef nú ekki þykir fært að bæta 1 stund á dag við starfstíma kennaranna, án þess að bæta laun þeirra, býst jeg við, að örðugt verði fyrir stjórnina að halda áfram með hinn lengda starfstíma stjórnarráðsskrifaranna, án þess að bæta laun þeirra, því að þetta tvent er alveg sambærilegt. Verði þessu frv. ekki sint, mun aftur styttur starfstíminn í stjórnarráðinu.