25.03.1925
Efri deild: 38. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (2259)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Sigurður Eggerz:

Jeg skal fyrst leyfa mjer að víkja örfáum orðum að nál. hv. minnihl. Hv. minnihl. segir, að hann vilji benda á, að þegar konur hafa fengið jafnrjetti við karla, þá sje ekki óeðlilegt, að þessa gæti í mentamálum. En jeg vil álíta þessa setningu með öllu óþarfa, því jeg fæ ekki betur sjeð en að kvenfólkið hafi einmitt fult jafnrjetti við karla í mentamálum. Jeg veit ekki betur en kvenfólk hafi jafnan aðgang að skólum í landinu og karlmenn. Þar af leiðir auðvitað, að kvenfólk ætti að hafa eins mikinn áhuga eins og karlmenn fyrir öðrum skólum en kvennaskólum. Kvenfólkið hefir fengið faðminn fullan af rjettindum. Og jeg verð að segja, að undir eins og jeg byrjaði að hafa afskifti af stjórnmálum, tók jeg fast í strenginn með það, að kvenfólkið ætti að hafa sömu rjettindi og karlar. Þessvegna er ekki hægt að byggja þessa kröfu, sem hjer er um að ræða, á neinu misrjetti, sem kvenþjóðin eigi nú að búa við, því það er ekki til. Það hefir líka sýnt sig, að kvenfólkið notar meir, ár frá ári, sömu skóla og karlmenn. Verður þá að gera þá kröfu til kvenþjóðarinnar, eftir að hún er búin að fá jafnrjetti við karlmenn, að hún fylgist með jafnmiklum áhuga með skólamálum landsins í heild.

Umræðurnar hjer hafa haft það snið á sjer, eins og það ætti að fara að stofna nýjan sjerskóla. En það er ekki mergur málsins. Kvenfólkið hefir haft skólann í 50 ár. Spurningin hjer er ekki um það, að útvega kvenþjóðinni nýjan skóla. Engum dettur heldur í hug að taka styrkinn af skólanum. (IHB: Nei, en það þarf að löggilda hann). Hjer er komin fram krafa, og talað fyrir henni eins og væri það í nafni allrar kvenþjóðarinnar — að hún krefðist þess, að fá þennan skóla. En hún hefir haft hann í 50 ár, og það verður ekki annað sagt með sanngirni en að hann hafi rækt skyldur sínar mjög vel. Kvenfólkið hefir líka aðgang að öllum skólum landsins. (SJ: Ætli konur hafi aðgang að bændaskólum). Jeg veit ekki betur en þær geti líka komist á þá skóla; en um það þori jeg samt ekki að fullyrða.

Af þeim ástæðum, sem jeg hefi greint, er hjer aðeins um fjárhagsatriði að ræða, og á það hefi jeg lagt áherslu í máli mínu. Og það er ekki svo undarlegt, þó að minst sje á fjárhagsatriði á þessum tímum. Jeg veit ekki betur en að hjer á þessu þingi hafi hvað eftir annað og ár eftir ár verið reynt að koma með sparnaðartill. á ýmsum sviðum. Sú stjórn, sem jeg veitti forstöðu, markaði sparnaðarstefnuna mjög skýrt. Hæstv. núverandi stjórn hefir sagst feta í sömu sporin. Hjer er að ræða um skóla, sem hefir verið styrktur, en ekki rekinn sem ríkisskóli. Ríkið þarf ekki að rjetta út hendi vegna þess, að skólanum sje ábótavant, því hann hefir reynst ákaflega vel. Í aths. frv. er auðvitað sagt að eðlilegt sje, að ríkið hafi umsjón með skólanum, þar sem það leggur fje til hans. En allir vita, að umsjón skólans er hin prýðilegasta, eins og nú er. Hjer kemur líka annað til greina. Hjer er tilfelli, þar sem hægt er að spara, með því einu, að láta það ástand halda áfram, sem hefir verið og reynst hefir vel. Frá mínu sjónarmiði er málið eingöngu fjárhagsatriði. Það má að vísu segja, að sá útgjaldamismunur, sem um ræðir í frv., sje ekki svo ýkjamikill, og það er satt. En grunur minn er sá, að þegar ríkið væri búið að taka skólann að sjer, færi að koma kröfur um ýmislegt fleira, t. d. það, að fá bygt stórt og vandað hús fyrir skólann. Og hvað kostar það? Ef það er alvara hjá þingi og stjórn, að það eigi að nota þetta góða ár sem liðið er, til þess að koma ríkissjóði í sem best horf, þá megum við ekki binda okkur neinar útgjaldabyrðar, sem ekki eru alveg nauðsynlegar. En jeg efast ekki neitt um það, að strax og skóli þessi kemur á ríkissjóðinn, verður heimtuð bygging nýs skólahúss.

Úr því að jeg er að tala um skólamál, langar mig að fara frekar út í þau, og veit jeg, að hæstv. forseti misvirðir það ekki. Það er aðeins til að benda á, hvað þingið má fara gætilega, ef það vill vera sjálfu sjer trútt í þeirri stefnu, að reyna að spara, til þess að geta komið ríkissjóði í það ástand, að hann verði fær um að taka á móti vondu árunum, þegar þau koma. Þetta síðasta ár, sem var gott, má á engan hátt villa mönnum sýn, svo að þeir fari ógætilega í framtíðinni. Jeg vil benda á, að nú sjást ýmsar líkur til, að þingið geti gleymt þessu. í hv. Nd. er frv. á ferð um það, að stofna sjerstakan latínuskóla í gömlum stíl. Hefðum við nóg af fje yfir að ráða, gæti þetta kanske verið gott og blessað. En verði frv. þetta samþ. — og jeg heyri sagt, að stjórnin muni veita málinu fylgi sitt — þá er það auðvitað, að sú ómótmælanlega krafa hlýtur að koma, að gagnfræðaskóli verði stofnaður handa Reykvíkingum. Auðvitað stór skóli. Sparnaðurinn verður ekki settur í háan sess, ef lagt verður út á þessa braut í skólamálunum. Fyrst er talað um kvennaskólann í Reykjavík, að ríkið taki hann. Þá kemur hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) með sömu kröfu um kvennaskólann á Blönduósi. Þá segir hæstv. stjórn, að þar sje öðru máli að gegna, skóli Reykjavíkur sje landsskóli, en skóli Húnvetninga hjeraðsskóli. Jeg skal ekki segja fyrir vist, hvort þessi skilgreining er rjett, þegar vel er krufið til mergjar, það sem liggur á bak við. En jeg hefi það fyrir satt, að á skólann á Blönduósi komi stúlkur víðsvegar að af öllu landinu. Þetta hefi jeg eftir hv. þm. A.-Húnv. (GÓ), sem jeg hefi aldrei reynt að ósannindum — enda þótt hann sendi mjer stundum hnútur í hv. deild. Hvað er þá orðið af skilgreiningunni milli hjeraðsskóla og landsskóla? Er það ekki beinlínis eðlileg krafa, ef kvennaskóli Reykjavíkur verður settur á ríkissjóð, að Blönduósskóli hafi sama rjett til þess? Fyrir mitt leyti get jeg ekkert gert upp á milli sunnlenskra kvenna og norðlenskra kvenna.

Að lokum tek jeg það fram, að jeg sje ekki annað en að röksemdir mínar í þessu máli fái staðist dóm allrar sanngirni, og þær eru áreiðanlega skiljanlegar og eðlilegar, frá þeirra manna sjónarmiði, sem vilja reyna að halda áfram í sparnaðaráttina. Svo enda jeg ummæli mín með því að staðhæfa, að það er engin nauðsyn að taka þennan skóla á ríkissjóð, því hann hefir reynst svo vel hingað til.