25.03.1925
Efri deild: 38. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (2260)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Sigurður Jónsson:

Það væri líklega ekki að furða, þó að mönnum dytti í hug, að jeg, sem er elstur þingmanna í þessari hv. deild, væri orðinn nokkuð gleyminn; og máske er það tilfellið í sumum atriðum. En nú virðist mjer, að hv. deildarmenn sjeu talsvert gleymnir um sum meginatriði þessa máls. Það hefir enginn minst á það, að það eru til lög fyrir því, að stofna húsmæðraskóla á Norðurlandi, í grend við Akureyri. Þetta er bygt á því, að konur þurfi sjermentunar við, til þess að verða húsmæður, eins og karlmenn þurfa sjermentunar til þess að verða bændur. Þessi lög eru ekki margra ára. Og það var Pjetur sál. Jónsson frá Gautlöndum, sem flutti frv. og rjeð mestu um afdrif þess, en þau voru, að frv. náði samþykki, og tilskilið var, hvar skólinn skyldi vera. Nú skilst mjer, að menn gefi þessu ekki gaum hjer í hv. deild. Hjer er talað um, að það megi gera kvennaskólann á Blönduósi að húsmæðraskóla. Og það er verið að tala um, að kvennaskólinn í Reykjavík sje líka húsmæðraskóli. En altaf hefir það vakað fyrir mönnum, að þessi sjerstaki húsmæðraskóli á Norðurlandi eigi að vera í sveit. Eins ætti húsmæðraskóli Sunnlendinga að vera í sveit, en ekki í Reykjavík.

Ef maður lítur á frv. þetta, þá er ómögulegt að sjá, að verið sje að hugsa um húsmæðraskóla, og kann jeg ekki við, að það skuli þó vera látið í veðri vaka. Það stendur í frv., að skólinn sje miðaður við 4 ára nám. Auk þess sje hússtórnardeild. Við vitum af ræðu hv. frsm. minnihl. (IHB), að þessi deild er til og starfar í tveimur námsskeiðum á ári. Það er þá kanske ekki nema mjög lítill hluti af kenslu skólans, sem lýtur að húsmæðrafræðslu.

En hvað sem um þennan skóla er og verður, þá vil jeg vona það, að hv. deild gleymi ekki loforði þingsins og ákvæðum þess um húsmæðraskóla á Norðurlandi.

Það er svo að sjá í nál. minnihl., að aðalástæðan til þess, að þessi skóli verði gerður að ríkisskóla, það sje aldur hans. Jeg sje ekki, að það atriði út af fyrir sig hafi mikið að segja, þegar tímarnir hafa breyst. Nú horfir öðruvísi við, þar sem kvenþjóðin hefir fengið jafnrjetti til allra skóla og embætta, og það ekki fyrir mjög mikla eftirgangsmuni, heldur fyrir stuðning þingsins. Jeg hefi ætíð hneigst mjög að því, að hugsa um mentamál. Kvenrjettindi hefi jeg stutt eftir megni. Þessvegna vil jeg líka fá húsmæðraskóla, eins og karlmenn hafa bændaskóla. Það er jafnrjetti. En eftir því sem hjer er farið fram á, ættu að vera tveir gagnfræðaskólar í Reykjavík, annar fyrir karla, en hinn fyrir konur. Það er svo langt frá, að jeg hafi á móti gagnfræðaskólum. En það getur stundum orðið of mikið af því góða. Það er ekki til neins að halda því fram, að kvennaskóli Reykjavíkur sje húsmæðraskóli. Hann er það ekki, og á ekki að vera það eftir frv., heldur almennur kvennaskóli, eða öllu heldur gagnfræðaskóli. Hætt þykir mjer og við, að erfitt gangi að gera Blönduósskólann að húsmæðraskóla fyrir Norðurland og bregðast því loforði, að stofnsettur verði húsmæðraskóli í grend við Akureyri.

Umræður eru orðnar nokkuð langar, og get jeg látið hjer við sitja. En eins og málið liggur fyrir, get jeg ómögulega fylgt því.