26.03.1925
Efri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (2274)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Sigurður Eggerz:

Jeg vil aðeins slá því föstu, að þessi skóli hefir verið svo vel rekinn hingað til, að jeg get eigi sjeð neina þörf á að gera hann að ríkisskóla. Frv. þetta hefir heldur enga stefnubreytingu í för með sjer, og er því eingöngu fjárhagsatriði.

Hv. 1. þm. Rang. (EP) gaf í skyn, að konur hefðu eigi eins skarpar gáfur og karlmenn, en hinsvegar bætti ástundun þeim það upp. Jeg álít þetta vera mestu fjarstæðu. Að þær hafa sig ekki meir í frammi og hafa ekki sótt sig meira en raun hefir á orðið, stafar af því, að þær eru ennþá tæplega búnar að átta sig á rjettindum sínum, en ekki af skorti á gáfum til jafns við karla. Og jeg efa það ekki, að síðar meir muni konur taka eins góðan þátt í stjórnmálum og karlmenn, og lík mun reyndin verða á öðrum sviðum.

Annars hefir þetta mál sannfært mig um það, hve erfitt það er að koma fram sparnaði hjer á þingi. Þó að einhver vilji gera eitthvað, sem sýnilega fer í sparnaðaráttina, þá rís önnur hönd á móti, og það er hrópað, að þetta sje enginn sparnaður. Og hvernig sem um frv. þetta fer — og jeg geri ráð fyrir, að það verði samþ. — þá vil jeg ráðleggja hæstv. stjórn að breyta sem fyrst til um sparnaðarstefnuskrána, því að hana þarf áreiðanlega að orða öðruvísi.