06.04.1925
Efri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (2280)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Sigurður Eggerz:

Jeg skal fyrst minnast lítilsháttar á þær brtt., sem fram hafa komið. Að því er snertir till. á þskj. 250, um það, að kensla í hjúkrun, teikning og skrift, falli burt, þá greiði jeg atkv. á móti henni. Jeg tel heppilegt, að konur læri hjúkrun í skólanum. Það getur reynst mjög heppilegt fyrir þær, að kunna nokkuð í þeirri grein. Og jeg get sagt það sama um teikning og skrift. Að því er snertir aldurstakmarkið, þá finn jeg heldur ekki ástæðu til þess að hreyfa við því. Ennfremur er jeg á móti brtt á þskj. 244, um að stytta skólann, gera hann að þriggja ára skóla. Jeg vil halda skólanum, hvað þetta atriði snertir, eins og hann er nú. — Jeg þarf svo ekki að lýsa frekar afstöðu minni til brtt. Hún er í fullu samræmi við alt, sem jeg hefi sagt hjer áður um þetta mál.

Jeg neyðist til þess, eins og hv. 6. landsk. (IHB), að rifja upp í aðaldráttunum það, sem jeg hefi sagt um málið áður. Aðalatriðið er í mínum augum þetta, að með því stjfrv., sem hjer liggur fyrir, er ekki á nokkurn hátt breytt um kenslu í kvennaskólanum. Með öðrum orðum: hvort sem skólinn verður gerður að ríkisskóla eftir frv. eða ekki, þá nýtur kvenþjóðin algerlega sömu kenslu. Þegar þessu hefir verið slegið föstu, þá getur frv. þetta með engu móti kallast mál kvenþjóðarinnar, því það verður að líta svo á, að konur hafi jafna ánægju af því að njóta kenslu í einkaskóla og ríkiskóla, að öðru jöfnu. Þetta, sem jeg nú sagði, er þungamiðjan í þessu máli það er þungamiðja þessa máls, að með frv. sínu er hæstv. stjórn ekki að fara fram á það, að kvenþjóðin fái að njóta betri kenslu. Hjer er engri nýrri námsgrein bætt við og engu breytt. Jeg sje heldur ekki neina þörf á því, að gera þessa breytingu í viðurkenningarskyni við skólann, því hann hefir fengið næga viðurkenningu í því, að ríkið veitir honum stöðugt hærri og hærri styrk. Allar röksemdafærslur í nafni kvenþjóðarinnar til stuðnings þessu máli hrynja því til grunna. Hjer er ekki annað gert en að færa skólanum allálitlega afmælisgjöf á 50 ára afmæli hans. Stjórnin færir honum hjer mjög „flotta“ afmælisgjöf — of flotta“, þegar þess er gætt, að hún kemur frá stjórn, sem hefir hinn fylsta sparnað á stefnuskrá sinni.

Sem sagt, jeg hefi sýnt með föstum rökum, sem ekki verður á móti mælt, að kvenþjóðin nýtur engu betri kenslu í skólanum, þó hann verði gerður að ríkisskóla. Þessvegna legg jeg ekki neitt upp úr hótun háttv. 6. landsk. (IHB). Jeg hefi að vísu ekki heyrt öllu ákveðnari hótun um pólitíska hefnd. Hv. þm. (IHB) kvaðst hafa fengið brjef um það frá konum fjær og nær, að það mundi verða tekið nákvæmlega eftir því, hvernig atkvæði fjellu hjer um þetta mál. Það lítur þá svo út, eftir ummælum hv. 6. landsk. (IHB) — ef hún annars hefir rjett til þess að tala þannig í nafni kvenþjóðarinnar — þá lítur svo út, segi jeg, að næstu kosningar eigi að snúast um það, hvort kvennaskólinn eigi að verða ríkisskóli eða ekki.

Ef hv. 6. landsk. (IHB) hefði umboð frá konum þessa lands til þess að lýsa yfir öðru eins, þá verð jeg að segja, að það væri sorgleg niðurstaða af rjettindum kvenna. Jeg hefi skoðað það frá byrjun minna afskifta af þjóðmálum skyldu mína, að styðja rjettindi kvenna. Þegar málstaður þeirra stóð höllum fæti, þá gerði jeg það, sem jeg gat, til þess að stuðla að því, að þær fengju fullkomið jafnrjetti við karlmenn. Og jeg trúi því enn, að jeg hafi þá unnið að þörfu máli. En það verð jeg þó að segja, að ef það á að verða niðurstaðan, að kvenþjóðin, eftir að hafa notið þessara rjettinda nokkur ár, ætlar nú að láta næstu kosningar snúast um það, hvort þessi skóli eigi að vera ríkisskóli eða ekki, þá líta þær sannarlega ofsmáum augum á stjórnmálin. — Jeg álít nú, að hv. 6. landsk. (IHB) hafi ekki rjett til þess að tala svona, ekki rjett til þess að draga stjórnmálavit kvenþjóðarinnar niður í duftið. Það fær mig enginn til þess að trúa því, að konur liti svo lágt og smásálarlega á þjóðmálin. Jeg greiði atkv. á móti frv. vegna þessi að það tryggir ekki konum neitt betri kenslu, en bakar hinsvegar ríkissjóði aukin útgjöld. Og jeg skil ekki annað en að kvenkjósendur hljóti að líta sömu augum á fjárhagsmál ríkisins og karlkjósendur, ef þær ætla að taka alvarlegan þátt í stjórnmálunum. Það er því sannfæring mín, að hv. 6. landsk. (IHB) muni ekki hafa ráðgast við nema fáa kvenkjósendur um þetta. Og ætti að leggja málið undir álit kvenna alment, þá mundu ekki fást mörg atkvæði með því að láta næstu kosningar snúast um það. (IHB: Meðal annars, sagði jeg!) Hv. þm. sagði, að eftir 2 ár færi fram atkvgr. um þetta mál. (IHB: Meðal annars!) Jeg segi fyrir mig, að þó að jeg sje á móti þessu máli af fjárhagslegum ástæðum, þá gæti mjer aldrei dottið í hug, að það gæti nokkurntíma haft minstu þýðingu fyrir stórpólitík þessa lands. Jeg get ekki ímyndað mjer, að nokkur stjórn ljeti það hafa nokkur áhrif á sig, hvort slíkt frv. fjelli eða ekki. Með þessu vildi jeg sýna, hvílíkur hjegómi þetta mál er í raun og veru. Það nálgast beina óhæfu, að vilja gera það að stórpólitísku þjóðarmáli, hvort hv. 6. landsk. (IHB) veitir forstöðu ríkisskóla eða einkaskóla.