06.04.1925
Efri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (2281)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Forsætisráðherra (JM):

Mál þetta er alls ekki eins einfalt og hv. 1. landsk. (SE) virðist álíta. Hann hefir áður fært ýmsar aðrar ástæður fram móti því, sem einkum ganga í þá átt, að ekki sje svo mikil þörf á sjerskóla fyrir konur (SE: Því hefi jeg aldrei mótmælt!) og samskólar gefist best yfirleitt. Hann talaði mikið um það, að konur hefðu sömu rjettindi og karlmenn, og því væri ekki ástæða fyrir þingið að styðja svona skóla. En aðalatriði fyrir stjórninni var það, að ríkið kostar nú skólann að heita má algerlega, og þá þótti rjett, að ríkið tæki við yfirumsjón með skólanum. Og í frv. er ekki farið fram á annað en það, sem þingið hefir áður í raun og veru veitt. Þingið hefir, eftir því sem jeg best veit, altaf veitt það fje, sem farið hefir verið fram á til skólans. Það er því ekki beint líklegt, að þetta verði aukinn kostnaður fyrir ríkissjóð að neinu leyti, Skólinn ætti að kosta alveg jafnmikið, hvort sem hann er einkastofnun eða ríkisskóli, og það er engin ástæða fyrir einkaskóla — fremur en ríkisskóla — að spara, ef hann þarf ekki annað en að beiðast fjár úr ríkissjóði. Það kann aðeins að vera, að í byrjun yrðu ákveðin eitthvað ríflegri laun við skólann, ef ríkið tæki hann að sjer. En það er alt og sumt. En mjer þykir fróðlegt að sjá, eftir fá ár, hvort launin verða ekki nokkuð svipuð, þó skólinn haldi áfram sem einkastofnun. Hjer er ekki um neitt annað að ræða en það, að ríkið taki við yfirumsjón við skóla, sem það í raun og veru kostar hvort sem er.

Hv. 1. landsk. (SE) hefir sagt, að kvenfólk geti notið kenslu annarsstaðar en í sjerskólum, og aðrir hafa haldið því fram, að slíkum skólum þurfi ekki að halda uppi. það er nú langt síðan, að kvenfólk fjekk rjett til þess að ganga í alla skóla. En hve margar hafa notað sjer þennan rjett, t. d. í mentaskólanum? Þegar litið er á skólaskýrsluna, sjest það, að þær hafa verið mjög fáar. Af 120 nemendum, sem voru í 3 efstu bekkjum skólans 1923–24, voru aðeins 14 stúlkur, og lítið fleiri í neðri bekkjunum. Af þessu er auðsjeð, að þótt konur hafi aðgang að samskólum, þá nota þær þá ekki mjög mikið. — Í morgun spurði jeg rektor háskólans, hve margar stúlkur væri þar, en hann sagði, að þar væri engin. Og engin er við nám erlendis. — Af þessu er auðsjeð, að konur þurfa mjög nauðsynlega sjerskóla, og það er sama, hvort hv. 1. landsk. (SE) leggur nokkra áherslu á þetta atriði eða ekki, þá gera aðrir það.

Það, sem kvennaskólinn vinnur við, að frv. þetta verði að lögum, er það, að þá er fengin trygging fyrir framhaldi hans. Nú er skólanum skamtað fjeð frá ári til árs, og hann verður á hverju ári að sækja um framhald. Og það getur altaf komið fyrir, eins og í fyrra um stúdentana, að þessi styrkur verði af tekinn. (SE: Það mundi þurfa stjórnarskráratriði, til þess að tryggja skólann, því að ríkiskóla má leggja niður). Mig langar ekkert til þess að fara að deila við hv. þm. (SE) um óþörf atriði. Og jeg verð að segja það um Flensborgarskólann, að mjer finst ekkert óeðlilegt, þótt ríkið tæki við honum. Frá mínu sjónarmiði er það því ekki kvennaskólinn einn, sem á þetta skilið, og jeg sje ekki neitt hættulegt við það, þótt ríkið tæki einnig að sjer Blönduósskólann. Hann yrði ríkinu ekki vitund dýrari fyrir því. Það er engin sönnun til fyrir því, að hann yrði dýrari sem ríkiskóli, heldur en meðan hann getur fengið þær fjárveitingar, er hann þarf. Óvissan um fjárveitingar skaðar einmitt skólann, og jeg tel óskiljanlegt, að kapp skuli lagt á það, í ekki stærra máli en þetta er, að fella það, vegna þess, að það kosti ríkið of mikið. Það hefir sýnt sig á þessu þingi, að fjeleysi er ekki til fyrirstöðu, þegar um ýmislegt annað er að ræða. Mestu sparnaðarmenn þingsins hafa sagt, að það gerði ekkert til, hvort tekjuhalli á fjárlögum yrði 1/2 milj. kr. meiri eða minni. Um alt land á nú að reisa dýrar byggingar fyrir 60, 100 til 500 þús. krónur. En þegar svona smámál kemur fyrir, þá á endilega að fella það, til þess að spara. Jeg hafði að vísu búist við því, að einhverjir myndi vera á móti þessu frv., en hitt datt mjer ekki í hug, að það mundi verða gert að stórpólitísku máli. (SE: Það var kvenfólkið, sem gerði það). Nái frv. ekki fram að ganga á þessu þingi, þá verður þó ekki langt þangað til að það nær fram að ganga, og gæti jeg hugsað mjer, að hv. 1. landsk. (SE) yrði þá ekki jafnmikið á móti því og nú.