06.04.1925
Efri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í C-deild Alþingistíðinda. (2284)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

2284Frsm. meirihl. (Jónas Jónsson):

Það eru örfá orð, sem jeg þarf að víkja að hæstv. mentamálarh. (JM), út af skýringu, sem hann gaf hjer um daginn. Hann heldur því fram, að af því að konur sæki lítið samskólana, t. d. mentaskólann og háskólann, þá sje það sönnun þess, að hjer þurfi almennan kvennaskóla. Ef þetta væri hugsunarlega rjett, og ef kvenfólkið vill fá meiri mentun, yrði að stofna sjerstakan kvennaháskóla. Og yfir höfuð yrði að aðgreina alla fræðslu eftir kyni nemendanna. En mundi eigi slík breyting sem þessi á öllu fræðslufyrirkomulaginu verða nokkuð dýr Jeg hygg, að jafnvel yrði betra að fresta eitthvað þeim framkvæmdum.

Um kostnað ríkisins af kvennaskólanum sagði hæstv. ráðh. yrði hið sama, hvort heldur þar væri um einkafyrirtæki eða ríkisskóla að ræða. En þá vil jeg spyrja: hvi hefir kvennaskólinn undanfarið verið svo miklu ódýrari en aðrir skólar? Ef borinn er saman nemendafjöldi kvennaskólans og annara skóla, verður kvennaskólinn svo miklu ódýrari en ríkisskólarnir, enda er þetta hin herfilegasta villukenning hjá hæstv. mentamálarh. Jeg veit, að hæstv. mentamálarh. hefir talað þetta út í hött og sagt hjer rangt frá og villandi. Kvennaskólinn er tiltölulega góður skóli og kostar ekki nærri eins mikið og skólar, sem dýrari eru og eru þó ekki betri, og þetta stafar af því, að skólinn er einkafyrirtæki. Jeg þarf ekki að benda hæstv. mentamálarh. á, að launin við kvennaskólann eru talsvert lægri en við aðra skóla, en þau mundu hækka óðar við það, að skólinn yrði ríkisskóli. Jeg hefi þegar tekið fram, að jeg tel gott, að kvennaskólar hafi einn kennara sæmilega launaðan, svo eigi þurfi oft að skifta um þessvegna.

En það er eitt, sem jeg hefi ekki enn fengið greinilegt svar við frá hæstv. mentamálarh. — hvað stjórnin getur gert til að tryggja það, að verða eigi fyrir ókjörum af húseigendum þeim, sem kvennaskólinn er til húsa hjá? Auðvitað verður skólinn á allan hátt dýrari við það, að verða ríkisskóli. Verði frv. samþ., verður án efa krafist af stjórninni, að hún kaupi hús það, sem skólinn er í. Jeg er ekki að bera neina ósanngirni þeim á brýn, sem hjer eiga hlut að máli, enda hefi jeg ekki heyrt þeim brugið um neitt í þá átt, en þetta er algengt í daglegu lífi, og eigi síst, þegar annarsvegar eru viðskifti við ríkissjóð. Jeg álít, að heppilegra hefði verið af stjórninni, ef hún hefði látið fylgja með þessu frv. bindandi samningatilboð um húsnæði, t. d. til 12–15 ára, því að ella má vænta, að það verði að kaupa húsið, og það verður varla látið falt við minna verði en ca. 200 þús. kr. Stærð hússins er sú, en þó er þetta alt of hátt verð fyrir ríkissjóð að kaupa. Jeg tel það því hafa verið skyldu stjórnarinnar, að útvega t. d. tilboð, því að ella má vænta, að húseigandi geri ríkinu tvo kosti, að kaupa eða fara á brott úr húsinu með skólann. En í allri Rvík er ekki til annað hús nógu stórt eða sæmilega vandað til að vera skólahús. Það má vel vera, að hæstv. ráðh. (JM) hafi gert einhverja baksamninga við húseiganda, en þá tel jeg vanrækslu, að hafa ekki sýnt þá þinginu, til þess að á þeim mætti byggja við athugun þessa máls.

Mjer þykir annars leitt, að hv. þm. Snæf. (HSteins) er hjer ekki viðstaddur í svip, en hann er einn þeirra, er fyrst ætti að verða fyrir barðinu á konunum, vegna afskifta hans af þessu máli. Fyrir 2 árum síðan barðist hann móti Staðarfellsskólanum og nú hefir hann hjálpað til að drepa Blönduósskólann sem ríkisstofnun.