06.04.1925
Efri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (2287)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Guðmundur Ólafsson:

Jeg skal ekki vera margorður. Jeg get vel verið með brtt. hv. 1. þm. Eyf. (EÁ), því að hann leggur til, að skólinn hjer komist í sama horf og Blönduósskólinn. Upp úr hinu legg jeg minna. En eftir upplýsingum hv. 6. landsk. (IHB) má síst fella skriftina niður úr þessum skóla, vegna uppvaxandi kvenkynslóðar hjer í bænum. Um hjúkrunarnámið undanfarið skal jeg segja það, að jeg hefi aldrei heyrt talað um neina stúlku, sem gengið hefir á skólann og neitt kunni til slíks.

Hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) vildi sanna, að Reykjavíkurskólinn væri landsskóli, en Blönduósskólinn hjeraðsskóli. Þetta er víst úrskurður hans sem valdsmanns, en allar forsendur vantar fyrir honum, og munu því engir geta sjeð, að hann sje rjettur. Jeg hefi t. d. sannað hið gagnstæða. Jeg geri því lítið úr svona fullyrðingum. Hann sagði ennfremur, að á bak við Blönduósskólann stæðu tvö sýslufjelög, en á bak við kvennaskólann ekkert. Þetta er vitleysa, sem jeg legg ekkert upp úr. Helmingur stúlknanna á Reykjavíkurskólanum eru úr Rvík, en helmingur stúlknanna á hinum skólanum er ekki úr Húnavatnssýslu. Jeg hefi mótmælt því með rökum, að kvennaskólinn hjer sje fremur landskóli en Blönduósskólinn. Enda er líka hingað til alveg sama snið á fjárveitingum til þessara stofnana, fje veitt til beggja skólanna, gegn ákveðnu tillagi annarsstaðar að.

Jeg held, að hv. 6. landsk. (IHB) hafi ekki farið varlegar í þessum ummælum sínum en jeg, er jeg bar fram brtt. mína um Blönduósskólann og fjekk það svar, að jeg vissi ekki, hver væri vilji kjósenda minna í þessu máli.

Þá vil jeg minnast á orð hv. 6. landsk. (IHB) um það, hvílík áhrif konur mundu hafa við næstu kosningar. þetta átti að skoðast sem hótun. En jeg er ekki hræddur við þessa hótun, og tel ekki líklegt, að konum fjölgi á þingi eftir þær kosningar. Þá taldi þm. það verk mundi hefna sín, að leggjast á móti kvennaskólanum. Jeg hefði verið með frv., ef ekki hefði verið beitt herfilegri ósanngirni í garð eins rjettmætrar kröfu annars skóla. Háttv. 6. landsk. og hæstv. forsrh. mega því þakka það sínum aðgerðum í málinu, ef frv. fellur nú. Ef jeg er háður hreppapólitík, þá er hv. þm. (IHB) eins háður bæjarpólitík. Og ef jeg og skoðanabræður mínir verða baksárir eftir framkomu sína í þessu máli, þá mun hv. 6. landsk. að minsta kosti klæja á bakinu af sömu ástæðum.

Hæstv. forsrh. vildi sanna, að þetta yrði ekki dýrara, með því að skólinn fengi alt, sem hann beiddi um, og Blönduósskólinn einnig. En þegar jeg bar fram tillögu mína, þá treystist hann ekki að fylgja, sakir kostnaðar. Hitt, að það var brtt. en ekki frv., er aðeins fáránleg viðbára. Er það af því, að Blönduósskólinn á hús yfir sig, að hæstv. forsrh. blæddi kostnaðurinn í augum, eða af því hann er tveim árum yngri? Það verður gaman að sjá, hvort hæstv. forsrh. verður með, ef frv. kemur fram í Nd.

Þá var hann margorður um kapp mitt á að fella frv. Jeg er búinn að færa rök fyrir mínu áliti og skammast mín ekkert fyrir. En mjer finst það varla sitja á hæstv. forsrh., að fetta fingur út í það kapp, eftir kapp hans að fella brtt. mína um Blönduósskólann, af þessari mikilsverður ástæðu, að það var ekki frv.

Jeg held, að það hafi ráðið meira, hver stóð á bak við brtt. og hver á bak við kvennaskólafrv., úr því hann fór að gera upp á milli skólanna.