06.04.1925
Efri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í C-deild Alþingistíðinda. (2288)

17. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Sigurður Eggerz:

Jeg verð að leiðrjetta það hjá hæstvirtum forsætisráðherra, að jeg hafi verið á móti sjerskóla fyrir kvenfólk. Jeg tók fram þegar í byrjun, að sjálfsagt væri, að kvennaskólinn hjeldi áfram og yrði styrktur af ríkissjóði. En það er annað, sem hæstv. forsrh. virðist hafa blandað saman við þetta. Jeg leit svo á, að kvenkjósendur, eða kvenþjóðin yfirleitt, ætti að fylgja með eins miklum áhuga þróun annara skóla. Konur hafa jafnt aðgang og karlar að öllum skólum, líka stýrimannaskólum og vjelstjóraskólum. Þeim er víst frjálst að gerast skipstjórar, vjelmeistarar o. s. frv. Þær hafa sömu skyldur og rjettindi sem karlmenn og verða því sem góðir borgarar þjóðfjelagsins að hugsa um alla skóla. Hvað mentaskólann snertir, þá sækja stúlkur hann talsvert nú orðið. Hæstv. forsrh. sagði, að í efri bekkjum hans væru 14 stúlkur, og þótti ekki mikið. En í neðri bekkjunum þremur eru 34 kvennemendur, og það bendir á, að kvenþjóðin sje farin að sækja þessa mentastofnun allverulega. það er ekki langt síðan, að skólinn var opnaður fyrir kvennemendum, og þó er aðsóknin orðin svona mikil. Það sýnir, að í framtíðinni verður þessi skóli engu síður notaður af konum en körlum

Hv. 6. landsk. (IHB) talaði um, að verið væri að standa á móti rjettarbótum í skólanum. Jeg sýndi glögglega, að hjer er ekki um neinar rjettarbætur að ræða. Jeg hjelt, að hæstv. forsrh. hefði fallist á það. En nú er þetta farið að snúast svo, að talið er, að hjer sje aðallega um tryggingarástæður að ræða. Jeg lít svo á, að sú besta trygging, sem hægt er að veita þessum skóla og öðrum, sje sú, að reksturinn sje í góðu lagi. Það er aðalatriðið. Og þessi skóli hefir verið vel rekinn. Þó sett sjeu lög um, að ríkið skuli taka skólann að sjer, þá er hægt að upphefja þau á næsta þingi. Á það verður að líta, að skólinn hefir verið vel styrkur af fjárveitingavaldinu og fengið fje eftir þörfum. Hjer virðist því aðeins verið að reyna að vekja upp grýlu, með því að kalla þetta tryggingarkávæði. Þá kemur spurningin um einkafyrirtæki og ríkisfyrirtæki. Hjer liggur fyrir vel rekið einkafyrirtæki. Er nauðsynlegt að breyta til? Það er búið að sýna, að strax á fyrsta stiginu yrði það dýrara. Og það veit jeg, hvernig sem aðstaða stjórnarflokksins er í þessu máli, að eitt aðalatriðið í stefnuskrá hans er einmitt að breyta ríkisrekstri í einkarekstur. Sá flokkur byggir algerlega á grundvelli einkafyrirtækjanna. Og þó er látið heita svo, að hjer sje um tryggingaratriði að ræða. Það er vitanlega hrein grýla. Það er ekkert hætt við, að skóla, sem vel er rekinn og styrks nýtur af ríkisfje, verði kastað út á gaddinn. Jeg verð að segja, að mjer fanst merkilegt, að kostnaðaratriðið, sem jeg lagði einkum áherslu á, skyldi vera skoðað sem hjegómi og það dæmt niður fyrir allar hellur. Er þá sparnaður álitinn hjegómi? Jeg veit þó ekki betur en að hæstv. núverandi stjórn hafi þennan hjegóma mjög ofarlega á stefnuskrá sinni og þykist vilja spara á öllum sviðum. Hv. 6. landsk. (IHB) þótti merkilegt, að jeg skyldi bera fyrir mig sparnað, þar sem jeg hefði aldrei neinn sparnaðarmaður verið. Þetta get jeg alls ekki fallist á. Það er einmitt jeg, sem hefi gert mestu tilraunirnar, sem hjer hafa verið gerðar, til þess að koma á sparnaði í ríkisrekstrinum. Ef samþ. hefðu verið þau frv., sem jeg bar fram, um samsteypur og niðurlagning embætta, þá hefði að því orðið verulega róttækur sparnaður. Engar sparnaðartillögur hafa verið betur rökstuddar en þær, sem jeg hefi flutt. Það er alt annað, hvað maður er kallaður og hvað maður er. Stjórnmálamaður, sem ekki á ítök í neinum blaðakosti, getur ekki vænst betra en þess, að þagað sje. Hann getur ekki búist við, að því verði á lofti haldið, sem hann gerir vel. Blöðunum hjer er svo háttað, að þau minnast aldrei á það, sem vel er gert andstæðingamegin. En jeg er sannfærður um það, að þegar það er orðið fínt, að vera ekki sparnaðarmaður, þá verð jeg kallaður sparnaðarmaður. Þannig er aðstaða blaðanna. En jeg græt það ekki neitt. Það er ekki svo að skilja.

Hæstv. forsrh. talaði um óstjórnlegt kapp hjá mjer í þessu máli og ljest ekki skilja, af hverju það kæmi. Jeg hjelt, að jeg hefði verið búinn að taka ástæður mínar greinilega fram. Þó reynt væri að leita að einhverjum eigingirnisástæðum, þá veit jeg ekki, hverjar þær ættu að vera. Setjum svo, að jeg vildi koma stjórninni frá völdum. Það væri hreinasti barnaskapur að láta sjer detta í hug, að hæstv. stjórn gerði þetta mál að fráfararatriði. Það hefði kanske þótt meiri ástæða fyrir mig að vera með frv., til þess að komast hjá öllum þeim ógnun, sem yfir mig hafa dunið frá hv. fulltrúa kvenþjóðarinnar hjer á þingi, um að kvenkjósendur mundu snúast á móti mjer við næstu kosningar. Það væri kanske ástæða til þess að heykjast við svona hótun. En það er bjargföst sannfæring mín, að jeg þurfi ekki að hræðast þetta. Jeg er þess fullviss, að atkvæðum kvenna við næstu kosningar ráða stærri mál en þetta. Jeg trúi því ekki, að þær hafi þetta mál efst á stefnuskrá sinni. (IHB: Hver segir efst?) Það dreg jeg af því, sem hv. þm. (IHB) minti á, að eftir tvö ár yrði kosið.

Jeg verð að endurtaka það, að jeg get ekki sjeð, að fjárhagsatriðið í þessu máli sje neitt smáatriði. Menn verða að athuga það, að þetta snýst ekki einungis um þennan skóla. Hjer myndast fordæmi. Það hefir þegar komið fram krafa um annan skóla, sem hæstv. forsrh. og hv. 6. landsk. skáru niður með köldu blóði. Jeg sá ekki hendur þeirra titra hið minsta. Jeg skal benda á, að líka eru konur í Norðlendingafjórðungi. Og ef þessa máls á að minnast við næstu kosningar, þá munu þær líka taka tillit til aðstöðu hv. þm. gagnvart Blönduósskólanum.

Ef kvennaskólinn verður gerður að ríkisskóla, þá kemur Blönduósskólinn strax á eftir, og síðan Flensborgarskólinn. Þá yrði þremur einkafyrirtækjum breytt í ríkisfyrirtæki. Jeg verð að segja, að mjer þykir það helst til harðvítug misbrúkun á Íhaldsflokknum, að láta hann samþ. þetta, þar sem hann virðist vilja byggja starf sitt á grundvelli einkafyrirtækjanna.

Jeg held, að jeg þurfi svo ekki meira um þetta að segja. Jeg sje ekki betur en að jeg sje búinn að rökstyðja aðstöðu mína rækilega, og sje ekki ástæðu til að gera það frekar, hvorki vegna hv. deildar og Alþingis, nje vegna kjósenda minna. En það get jeg sagt hv. 6. landsk. (IHB), að jeg mun áður en langt líður tala við hv. kjósendur mína í þessu landi, og þá skal jeg ekki draga undan framkomu mína í þessu máli. Jeg mun hiklaust skýra frá framkomu minni í hvaða máli, sem óskað verður. Um að jeg fylgi þessu máli með kappi skal jeg ekkert segja annað en það, að þegar jeg er með máli, þá er jeg allur með því. Jeg raða fram þeim rökum, sem styrkja mál mitt, og jeg fylgi því vafningalaust við hvern sem er að eiga.