07.03.1925
Neðri deild: 28. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (2295)

77. mál, bann á næturvinnu við fermingu skipa og báta í Reykjavík og Hafnarfirði

Ágúst Flygenring:

Jeg býst við því, að flestir sjeu sammála um það, að æskilegt væri að afnema næturvinnu, ef hægt væri að koma þessu í kring að stórskaðlausu. En þessari atvinnugrein, sjávarútgerðinni, er þannig háttað, að jeg sje ekki, að það sje fært. Þá dylst mjer heldur ekki, að hv. flm. gerir of mikið úr því heilsutjóni, sem samfara sje þessari næturvinnu, frekar en annari. Kunna Ísl. sjómenn frá því að segja, að vinna verður um nætur, og eru þeir ekki öðrum óhraustari. Þá er og þess að gæta, að venjulega er því svo fyrir komið, að unnið er í flokkum um nætur, svo menn ekki þurfi að vinna samfleytt alla nóttina.

Háttv. flm. játaði, að af frv. kynni að leiða eitthvert óbeint tjón, en jeg get fullyrt, að það mundi verða beinn fjárhagslegur skaði. Það mundi leiða af slíkri lagasetning stórt fjárhagslegt tjón, og það af þeirri ástæðu, að til þess að hægt sje að afgreiða skip, svo fljótt sem nauðsynlegt er, verður að vinna nótt og dag. Þetta veit hv; 2. þm. Reykv.

í Hafnarfirði er t. d. ekki nema ein bryggja, sem aðeins má leggja við 2–3 skipum. Þegar nú á það er litið, að þaðan ganga 12–13 togarar, og einnig hitt, að þar verður að setja á land kol öll og salt, sem oft tekur ærinn tíma, alt við þá sömu bryggju. Þá er það sýnt, að Hafnarfjörður hefir enganvegin svo stóra lendingarstaði, að viðlit sje að vinna að afgreiðslu skipa, einungis að deginum. Svo mundi og reynast í Reykjavík. það yrði til þess, að skip yrðu oft að bíða 2–3 daga, eða jafnvel lengur, og er auðsætt, hvílíkt tjón myndi af því leiða, einmitt um aflasælasta tímann.

Þá er að líta á undanþágurnar. Ef þær ættu að svara til þeirra þarfa, sem á þeim yrði, mundu þær verða svo tíðar, að lögin hefðu enga þýðingu. Meðan ekki eru til nægilegir lendingarstaðir, er ómögulegt að koma þessu við, og fiskiveiðarnar eru þannig löguð atvinnugrein, að vinnan getur aldrei orðið eins reglubundin eins og við önnur störf. Frv. mundi því ekkert gagn gera, verða dauður bókstafur, eins og helgidagalöggjöfin er orðin að miklu leyti.

Sje það svo, að verkamenn óski ekki eftir þessari vinnu, þá hlýt jeg að segja, að atvinnurekendur gera það ekki heldur, þó þeir neyðist til, og er það skiljanlegt, ef þess er gætt, að þeir þurfa að borga slíka vinnu alt að helmingi hærra verði. Það eru kringumstæðurnar, sem knýja menn til þess að haga þessu á þennan hátt, og á meðan þær breytast ekki til hins betra, virðist ekki geta verið um svona löggjöf að tala.