24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

1. mál, fjárlög 1926

Forsætisráðherra (JM):

Það var eitt atriði í ræðu háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), sem í fljótu bragði sýnist ekki ástæðulaust að koma fram með í eldhúsdagsumræðum, en það er um innflutning erlendu verkamannanna á síðastliðnu sumri til Krossanesverksmiðjunnar. En ef nánara er að gáð, þá er nú þetta ekkert aðfinsluvert. Það voru nefnilega engin lög til að banna þetta. Þingsályktun sú, er hv. þm. (ÁÁ) talaði um, var bygð á rangri forsendu. En háttv. þm. taldi sök stjórnarinnar samt í þessu efni þrefalda: 1. að hafa ekki tekið við þál. um þetta efni; 2. að hafa ekki gefið út reglugerð um þetta, og 3. að hafa ekki enn komið fram með frv. eða sett lög, sem tækju yfir allan rjett erlendra manna til að reka hjer atvinnu.

Viðvíkjandi fyrsta atriðinu er það að segja, að jeg á bágt með að sjá nokkra sök í því efni hjá mjer eða minni stjórn. Þessi þáltill. var hjer á ferðinni áður en jeg tók við stjórn, og á því fyrv. stjórn líklega fremur sök í þessu efni, ef nokkur er, í öðru lagi get jeg ekki sjeð sök hjá mjer eða tekið við ásökun fyrir það, að hafa ekki gefið út reglugerð, sem hefði verið gersamlega ólögleg. Jeg skil ekki, hvers vegna háttv. þm. notar þetta sem ásökunarefni á stjórnina, nema að því leyti, að það sýnir, hversu lítið er til að brigsla stjórninni um. Þá er þriðja ásökunin eftir — að hafa ekki komið með frv. um takmörkun á rjettindum erlendra manna til atvinnurekstrar hjer á landi. Jeg hafði áður tekið fram, að þetta væri mjög erfitt mál viðfangs. Háttv. þm. verða að hafa sínar skoðanir um það, hvað þeir álíta rjett eða sanngjarnt í þessu máli, eða hvort þeir álíta rangt að hafa ekki komið fram með umfangsmikið og vandasamt frv. um þetta efni, auk annara starfa, þar á meðal allumfangsmikilla löggjafarstarfa annara. Jeg álít ósanngjarnt mjög að gera þessa kröfu, svo að jeg þarf ekki að ræða það frekar nú.

Háttv. þm. klykti svo út með Krossanesmálinu. Jeg hefi talað svo mikið um það áður, þegar það var til umr. sjerstaklega, svo að jeg sje ekki ástæðu til að svara þessu frekara, eða endurtaka það, sem jeg sagði þá. Jeg gæti ekki svarað öðru en því, sem jeg hefi þegar sagt.

Um árásirnar á hv. þm. Dala. (BJ) skal jeg segja það, að jeg hygg það sje einsdæmi í allri þingsögu, að ráðist er að einstökum manni á þingmannsbekk á eldhúsdegi, í stað þess að beina árásunum að stjórninni.

Annars voru ummæli háttv. þm. (ÁÁ) um Krossanesmálið í raun og veru ekkert annað en líkræða yfir hinni makalausu till. hv. þm. Str. (TrÞ) um það mál og gefa ekki tilefni til frekari andsvara, enda að langmestu leyti hið sama, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hafði áður sagt, og hefir honum verið fyllilega svarað.

Hv. þm. (ÁÁ) virtist vilja heimta það af dómsmálaráðherra, að hann væri á þönum út um alt land, til að líta eftir því, hvar brot væru framin, og fyrirskipa rjettarrannsókn út af þeim.

Jeg þekki ekki, að dómsmálaráðherra fyrirskipi sakamálsrannsókn nema í fáum tilfellum. Slíkt getur að vísu komið fyrir, en það er örsjaldan, eins og jeg hefi áður skýrt frá.

Hv. þm. (ÁÁ) kom með það dæmi, að maður væri myrtur. Heldur hann virkilega í alvöru, að dómsmálaráðherra eigi eða þurfi að fara af stað og fyrirskipa rannsókn, þegar maður er myrtur? Eða heldur hann, að lögreglustjórar sjeu yfirleitt vanir því, að spyrja dómsmálaráðuneytið, hvort þeir eigi að hefja rannsókn út af slíkum glæpum ? Meðan jeg var bæjarfógeti hjer í Reykjavík kom það einu sinni fyrir, að maður var myrtur í bænum. Mjer kom satt að segja alls ekki til hugar að spyrja dómsmálaráðuneytið, hvort jeg ætti að rannsaka málið. Það tók jeg vitanlega upp hjá sjálfum mjer. Og svona er því yfirleitt varið. Það eru viðkomandi embættismenn, sem rannsaka þau mál, sem fyrir koma í þeirra umdæmi.

Eitt atriði nefndi hv. þm. enn, sem enginn hafði áður haft þrek til að nefna, enda er það svo fjarri öllu lagi. Hann sagði, að stjórninni hefði borið skylda til að láta rannsaka Krossanesmálið sjerstaklega, vegna hinna háværu ummæla um það í blöðunum. Heldur hv. þm. (ÁÁ), að dómsmálaráðherra eða rannsóknardómari eigi að hlaupa eftir hverjum goluþyt í blöðum landsins, eins og þau eru úr garði gerð? Nei, það er ekki vert að lengja umr. mikið með því að tala um slíka hluti.

Jeg hefi margsagt, að það verður ekki hrakið, að þar sem enginn þeirra manna, sem talið er að beðið hafi tjón vegna þess að mælikerin í Krossanesi væru of stór, hefir kært eða beðið um rannsókn, þá er það í raun og veru sönnun þess, að sjálfir viðskiftamennirnir hafi ekki álitið framkvæmdarstjóra verksmiðjunnar sekan.

Mjer finst undarlegt, að menn skuli aftur vera farnir að tala um þáltill. Framsóknarflokksins, og vil jeg ekki endurtaka oftar það, sem jeg hefi sagt um það mál. Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði, að stjórnin hefði getað trygt sjer, að ekki yrði á hana hallað í rannsókninni samkv. þál. Jeg verð að taka undir með hv. þm. Dala. (BJ), að þar sem nákvæm skýrsla hafði verið gefin um málið, var engin ástæða til rannsóknar að þessu leyti. Hið einasta, sem nokkurt vit var í, var till. hv. þm. Dala. (BJ) í málinu.

Á hinn bóginn skil jeg það vel, að þar sem þessi till. hv. þm. Dala. hitti naglann á höfuðið, hefir hún komið stjórnarandstæðingum illa. Þess vegna eru þeir svo reiðir. Till. sló sem sje öll vopn úr höndum þeirra.

Þeir áttu að vísu bágt með að hafa á móti því, að mál þetta yrði rannsakað eftir landslögum og málavöxtum, eins og önnur mál, en þó gerðu þeir það nú samt. Og nú sjá þeir sennilega eftir öllu saman, sjá eftir að hafa farið svo óskynsamlega að ráði sínu.

Fundarsamþyktin úr Vestmannaeyjum, sem hv. þm. (ÁÁ) vitnaði í, sýnist mjer hvorki gera til nje frá í þessu sambandi.

Eftir að þetta Krossanesmál hefir nú verið rætt hjer í hv. deild við 4 daga eldhúsdagsumræður, — því að till háttv. þm. Str. (TrÞ) var ekkert annað en inngangur að eldhúsdagsumr., — þá á að byrja á nýjan leik með því að flytja samskonar till., aðeins fella úr, að rannsóknarnefndin skuli skipuð samkv. 35. gr. stjórnarskrárinnar.

Jeg verð að furða mig á því, hversu brjóstheill háttv. þm. (ÁÁ) er, að geta mælst til annars eins og þessa.

Nú hefir þingið setið á rökstólum hátt á annan mánuð og fjárlagaumræður varla byrjaðar. Auk þess bíða mýmörg stórmál afgreiðslu. Mjer virðist hv. þm. (ÁÁ) því vera furðanlega hugdjarfur, ef hann ætlar sjer enn að verja 3 dögum til þess að ræða Krossanesmálið.

Að vísu er ekki hægt að fyrirbyggja, að slík till. komi fram, en jeg sje ekki, hvert erindi hún á.

Hv. þm. (ÁÁ) kvað rangt að bera það á ýmsa hv. þm., að þek væru að tosa ærunni af útlendum manni með því að vilja fá Krossanesmálið rannsakað. Jeg skal ekkert um þetta atriði segja út af fyrir sig, og það er í sjálfu sjer rjett hjá honum, að það sje í rauninni ekki á valdi manna að sverta æru náunga síns. En hinsvegar er því svo varið, og framhjá því má ekki ganga, að okkar löggjöf gerir ráð fyrir og byggir á því, að hægt sje að meiða æru manna með orðum og athöfnum, hvort sem þetta er í raun og veru rjett eða ekki.

Mjer hefir aldrei til hugar komið að neita því, að dómsmálaráðherra eigi að standa þinginu reikningsskap gerða sinna, og hinu ekki heldur, að það geti verið gott fyrir landsstjórnina að eiga andstæðinga í þinginu, sjerstaklega ef þeir vildu nota þessa umr. til þess að koma með skynsamlegar aðfinslur við gerðir stjórnarinnar, eða að minsta kosti takmarka sig við að tala um athafnir hennar, eins og siður hefir verið á eldhúsdaginn.

En að nota þessa umr. til að ræða allskonar þingmál, er alveg nýr siður, eins og hæstv. fjrh. (JÞ) tók fram, og ekki til neins annars en tefja tíma þingsins með fánýtu hjali.

Því auðvitað geta hv. þm. tekið alt það fram, sem þeir þurfa að segja um hvert einstakt mál, þegar það verður til umr. hjer í hv. deild.

Hv. þm. (ÁÁ) talaði um, að jeg hefði gert þáltill. um Krossanesmálið að fráfararefni, ef samþ. yrði.

Þetta er ekki allskostar rjett með farið. Hitt er rjettara, að með till. fylgdu þær hótanir, að ef hún yrði ekki samþ., þá mundi koma vantraustsyfirlýsing. (TrÞ: Þetta er misskilningur). Nei, þetta er enginn misskilningur, og ef hv. þm. (TrÞ) heldur það, þá hefir hann misskilið sjálfan sig.

Hann sagði, að ef hv. deild samþ. ekki þáltill. hans, þá skyldi það rannsakað á annan hátt, hverjir hv. þm. væru stjórninni fylgjandi og hverjir ekki.

Jeg fæ ekki sjeð, hvernig það hefði mátt rannsaka á annan hátt en þann, að bera fram vantraust í einhverju formi. En ef þessi orð hv. þm. (TrÞ) verða ekki prentuð í ræðu hans, þá hefir hann bara strikað þau út.

Enda hefir sú skoðun komið í ljós hjá þeim hv. þm. Framsóknarflokksins, sem hafa talað um þetta mál, að þeir hafi búist við, að upp úr þáltill. um Krossanesmálið kæmi tækifæri til vantraustsyfirlýsingar, en ef það tækist ekki, þá skyldi reynt á annan hátt. Og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) er í fullu samræmi við þennan hugsunarhátt, þegar hann nú mælist til þess, að stjórnin geri sem flest frv. sín að fráfararefni, verði þau ekki samþykt.

Annars virðist mjer það meira en lítið undarlegt, ef hv. þm. (ÁÁ) dettur í hug, að jeg muni svara því nú, hvort stjórnin ætli að fara frá, ef nokkur einstök frv., sem síðar verða til umr. í háttv. deild, verða ekki samþykt.

Vitanlega mun stjórnin segja til í hvert skifti, hversu mikla áherslu hún leggur á framgang hinna einstöku mála, en hv. þm. (ÁÁ) getur ómögulega vonast eftir að fá allsherjaryfirlýsingar í þessu efni að sinni.

Hjer virðist mjer hv. þm. (ÁÁ) vera að leika skrípaleik langt fyrir utan allar þingreglur, auk þess, sem hann og aðrir hv. þm. hafa ráðist á einstaka þingmenn í umr. þessum, sem aldrei hefir þekst áður. Og síðan kvartar hv. þm. (ÁÁ) yfir því, að eitthvað óvirðulegt hafi staðið um hann í blöðunum. Hvað mætti jeg segja, ef það gefur tilefni til ásökunar á hendur stjórninni, að blað, sem stendur henni nærri, hefir kallað hann prestlegan í framkomu, eða eitthvað þess háttar? Nei, þetta er svo sem alt saman á sömu bókina lært.

Þá skal jeg segja örfá orð um það, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði um löggæslu í landinu og virðingu manna fyrir landslögum.

Jeg býst við, að hæstv. forseti leyfi háttv. þm. að taka enn á ný til máli, ef hann finnur ástæðu til þess eftir þessa rœðu mína.

HV. þm. (JakM) vildi halda því fram, að Krossanesmálið væri þannig vaxið, að það eitt, að ekki var fyrirskipuð sakamálsrannsókn í því áður en nokkur hafði kært, væri nóg til að drepa virðingu manna fyrir lögum og rjetti í landinu. Jeg fæ engan veginn skilið, að mál þetta geti á nokkurn hátt haft slíkar verkanir, jafnvel þó að það gæti haft einhverja fjárhagslega þýðingu fyrir nokkra menn, sem heldur er ekki víst.

Um virðingu manna fyrir landslögum yfirleitt skal jeg ekki dæma í þetta sinn. Því er oft haldið fram, að hún sje minni nú en áður, en um það verður, að mínu viti, ekkert fullyrt.

Mikið hefir verið talað um, að síðan bannlögin, sem væru skerðing á persónulegu frelsi einstaklinga, voru sett, hafi virðing manna fyrir landslögum yfirleitt farið þverrandi, eins og altaf hljóti að verða þegar lög eru sett, sem fari í bág við rjettarmeðvitund þjóðarinnar. Jeg fyrir mitt leyti held, að þetta sje ekki rjett, heldur sje þessu haldið fram eingöngu af þeim mönnum, sem vilja fá bannlögin afnumin, og í því skyni einu, að fá lögin afnumin.

Hinsvegar segja bannmenn, að eftirlitsleysi með bannlögunum spilli virðingu manna fyrir landslögum, Hverju á að trúa? Jeg held, að hvorugur hafi rjett fyrir sjer. Og svo mun þessu yfirleitt varið. Þegar menn slá því fram, að þetta eða hitt spilli virðingu landsmanna fyrir lögum og rjetti, þá eru slíkt oftast fullyrðingar, sem hafa við lítil eða engin rök að styðjast.

Alla daga hlýtur að vera einhver misbrestur á því, að allir beri tilhlýðilega virðingu fyrir landslögum, en að ástandið sje yfirleitt lakara í því efni en vil er að búast, held jeg að ekki sje rjett.

Annars er það rjett hjá hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að oft er ekki síður ástæða til að ásaka landsstjórn fyrir aðgerðaleysi hennar en fyrir aðgerðir á einhverju sviði.

Það er þung sök á hvaða stjórn sem er, ef hún gerir sig seka í of miklu aðgerðaleysi.

Hinsvegar virtist mjer hv. þm. (JakM) komast í mótsögn við sjálfan sig, þegar hann líkti núverandi stjórn við Bergþóru í sambandi við aðgerðaleysi hennar.

Ef jeg man rjett, þá segir sagan, að þessi kona hafi einmitt verið hinn umsvifa- og athafnamesti kvenskörungur, og getur stjórnin því verið ánægð með samlíkinguna að því leyti. Ekki man jeg til, að nokkurntíma hafi verið sagt um þennan kvenskörung, að hún hafi stritast við að sitja, en hv. þm. (JakM) man þetta náttúrlega alt betur en jeg.

Það er alveg rjett, að þegar menn eru settir til að gegna embættum, þar sem þarf að framkvæma margvísleg og áríðandi störf, þá er ilt að verða sakaður um aðgerðaleysi. Hjer veit jeg, að háttv. þm. (JakM) getur frómt úr flokki talað, þar sem hann gegnir mjög veglegu embætti. Hann hefir verið skipaður til að hafa eftirlit með lánsstofnunum í landinu, bönkum og sparisjóðum, og þá fyrst og fremst bönkunum.

Það er sagt; að hann hafi ekki ennþá komið til eftirlits í hvorugum bankanum hjer í Reykjavík, hvorki Landsbankanum nje Íslandsbanka. Sje þetta satt, þá er svo sem von að hv. þm. (JakM) tali djarft um aðgerðaleysi annara manna.