11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (2300)

87. mál, einkasala á saltfiski

Atvinnumálaráðherra (MG):

Ef jeg man rjett, þá fhitti hv. 2. þm. Reykv. (JBald) frv. þetta hjer í deildinni í fyrra, og var það þá felt frá 2. umr. Nú kemur það mjer undarlega fyrir, ef hann býst við því, að frv. gangi fram, úr því að deildin er skipuð alveg sömu mönnum. Mjer skilst, að fullreynt sje um framgang þessa máls, meðan ekki verða breytingar í þinginu, og því erfitt að taka flutning svona frv. alvarlega. Það er alveg vist, að hv. flm. getur ekki búist við því, að það gangi fram.

Hv. flm. talaði um mikið ólag, sem á fisksölunni væri, en jeg efast um, að hann geti sannað, að svo sje, a. m. k. verður það ósannað mál, að hún komist í betra lag, þó að frv. gengi fram og það fyrirkomulag tekið upp, sem þar er gert ráð fyrir. Mjer skildist á ræðu hv. flm., að allir fiskframleiðendur væru frv. samþykkir, en jeg held þvert á móti, að þeir sjeu því fullkomlega andvígir og teldu sig að engu bættari, þótt frv. gengi fram.

Hv. flm. taldi, að engin áhætta fylgdi þessu fyrir ríkið. Um það býst jeg við að sjeu deildar meiningar. Hann er sjálfur fylgjandi ríkisrekstri yfirleitt, og sjer þar enga hættu, sem aðrir sjá fullkomna ófæru. Annars vil jeg benda hv. flm. á það, að þó að sá flokkur, sem hann telst til, hafi komist til valda ekki óvíða, þá veit jeg ekki til, að hann flytji nokkursstaðar slík frv. sem þetta.

Jeg geri það ekki að neinu kappsmáli, hvort frv. er vísað til nefndar eða ekki. En jeg get ekki trúað, að hv. flm. hafi borið það fram í þeim vændum, að það næði samþykki, og jeg álít, að það sje misbrúkun á tíma þingsins að bera frv. fram.