11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (2304)

87. mál, einkasala á saltfiski

Flm. (Jón Baldvinsson):

Hv. þm. Ak. (BL) taldi það sönnun þess, að ekki væri mikið ólag á fisksölunni, að íslenskur fiskur væri hæstur á markaðinurn. En þetta sannar nauðalítið. Það er veðráttan íslenska og fleira, sem gerir það að verkum, að okkar saltfiskur er betri vara en samskonar vara hjá öðrum þjóðum. — Annars er það alkunna, og enda játað af öllum, að ýmsir gallar og þeir ekki allir jafnsmávægilegir, hafa verið á fiskversluninni hingað til. Þetta er beinlínis viðurkent í skýrslu sendimanns íslenska ríkisins á Spáni í fyrra, þess manns, sem mjer skilst, að nú eigi að senda aftur til Spánar, svo að eigi verður annað sjeð en menn beri það traust til hans, að mark sje takandi á því, sem hann segir. Og það, sem að minsta kosti hefir nú þegar á unnist í þessu máli, er það, að hæstv. atvrh. hefir fengist til að lesa frv. En áður var hann fyrirfram sannfærður um, að hann væri því andvígur. Hann hefir þá líka sjeð, að ekki var til þess ætlast, að allur vandinn af frv. þessu yrði lagður á hans breiðu herðar, en í ræðu minni áðan hafði jeg gengið út frá því, að hann hefði lesið frv., en ekki treyst sjer til að velja mennina, sem fara ættu með þetta.

Hæstv. atvrh. telur mig bera á flokksbræður mína erlendis, þar sem þeir eru í stjórn, að þá bresti hugrekki til að bera fram sín stefnumál. Þetta er herfilegur misskilningur. Og ef hæstv. atvrh. væri ofurlítið betur að sjer í pólitík annara þjóða, þá myndi hann t. d. vita, að í Englandi hafa ensku jafnaðarmennirnir borið fram frv. um þjóðnýting náma, og slík dæmi mætti mörg nefna annarsstaðar frá. Það er því algerlega óþarft af hæstv. atvrh. að lofa mig fyrir hugrekkið, sem jeg hafi fram yfir flokksbræður mína erlendis.