11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (2306)

87. mál, einkasala á saltfiski

Klemens Jónsson:

Það var út af þessum fundi, sem stjórnin átti fyrir tveim árum með nokkrum útgerðarmönnum, að jeg vildi tala nokkur orð. Ætlunin var þá að reyna að koma á föstum samtökum um sölu á fiski, svo að markaðurinn yrði engu sinni ofhlaðinn, og koma í veg fyrir, að fiski yrði dembt niður á Spán og Ítalíu í „consignaton“. Þetta ræddu útgerðarmenn og kaupmenn við stjórnina og fóru fram á það, að hún veitti þeim aðstoð sina í þessu máli. Stjórnin kvaðst myndi verða fús til þess, eftir því sem hún megnaði. Kaupmenn völdu þá nefnd úr sínum hóp til að íhuga málið, en ekki man jeg eftir því, að neitt nefndarálit hafi þó komið fram, svo að stjórnin gat ekki tekið neina endanlega afstöðu til málsins. En það eitt veit jeg, að það var sameiginlegur vilji stjórnar og útgerðarmanna, að ekkert yrði ógert látið til að koma sem bestu lagi á fisksöluna. Nú hefir fisksalan tvö undanfarin ár gengið betur en nokkru sinni áður, og svo vel, að erfitt mun að bæta hana til muna, svo að nú er afstaðan að þessu leyti alveg breytt. Þess minnist jeg ekki, að þá kæmi neitt til tals, að stjórnin tæki söluna á saltfiski í sínar hendur, og hún mun því ekki heldur hafa látið uppi neitt álit um það. En fyrir mitt leyti get jeg lýst yfir því, að jeg er algerlega mótfallinn því, að stjórnin taki í sínar hendur sölu sjávarafurðanna, álít hana best komna í höndum framleiðenda. Reyndar mun hv. flm. sjálfur varla geta gert sjer vonir um, að þetta frv. nái fram að ganga, og væri því rjettast, að hann tæki það strax aftur.