11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í C-deild Alþingistíðinda. (2307)

87. mál, einkasala á saltfiski

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer hefir láðst að geta um þennan fund, sem útgerðarmenn áttu með stjórninni fyrir tveim árum. En bæði er það, að jeg var ekkert við það mál riðinn þá, og svo hefir hv. 2. þm. Rang. (KIJ) gefið upplýsingar um það, sem þá gerðist, svo jeg get slept því að fara frekar út í það efni.

Út af því, sem hv. flm. sagði um þjóðnýtinguna yfirleitt, vil jeg taka fram eitt atriði. Hann hjelt því fram, að socialistar bæri líka fram sín stefnumál, þar sem þeir hefðu stjórnina á hendi, og tók þar til dæmis, að í Englandi hefðu socialistar borið fram frv. um þjóðnýtingu náma. En það gera þeir aðeins, þegar þeir eru í minnihl., það sýnir reynslan alstaðar. Og þegar jafnaðarmannastjórnin enska tók við, þá var það eitt hennar fyrsta verk að lýsa yfir því, að hún myndi ekki framfylgja ríkisrekstri. Og hvað þjóðnýtingu námanna í Englandi viðvikur, þá báru jafnaðarmenn fram frv. um hana, þegar þeir fóru ekki með stjórnina. Þegar hv. þm. (JBald) veit ekki annað eins og þetta, þá held jeg ekki, að hann ætti að viðhafa stór orð um þekkingarleysi annara í því, sem erlendis skeður.