11.03.1925
Neðri deild: 30. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í C-deild Alþingistíðinda. (2308)

87. mál, einkasala á saltfiski

Flm. (Jón Baldvinsson):

Tveir hv. þm. hafa lýst því yfir, að fisksalan hafi farið batnandi síðustu árin, og er það satt, að misbrestirnir á henni hafa ekki verið eins miklir og stundum áður. En þó veit jeg, að ennþá er kvartað um ólag á sölunni hjá einstökum kaupmönnum, sem talið er, að hafi spilt fyrir sölunni yfirleitt og felli fiskinn í verði. Og þó vel hafi gengið undanfarið ár, þá sannar það ekkert. Eftirspurnin hefir aðeins verið meiri en áður og meira verð á fiskinum, og aldrei er að vita, hvenær ólagið kemur aftur fyrir, svo gætilegast er að vera á verði. því er þessara hlutar vegna engin ástæða til að taka frv. aftur.

Hæstv. atvrh. vildi láta líta svo út, að þegar jafnaðarmenn kæmust til valda, þá hefðu þeir hægt um sig. En að þeir fara varlega í að bera fram sín sjerstöku stefnumál, liggur í því einu, að þeir hafa hvergi nægilegan þingmeirihl. til að koma þeim fram. Þar situr stjórnin í samkomulagi við aðra flokka, sem þó ekki fylgja henni að slíkum málum, og jafnvel hafa gert það skilyrði fyrir stuðningi sínum, að jafnaðarmenn hreyfðu þeim ekki. Ef hæstv. atvrh. getur bent á socialistastjórn, sem hefir haft óskiftan meirihluta í þingi, og samt ekki borið fram sín stefnumál þar, þá væri eitthvað vit í þessari ásökun hans, en fyr ekki. — Það er alt annað, að fara með stjórn eða fara með völdin, að minsta kosti hafa Englendingar kunnað að gera mun á því tvennu.