13.03.1925
Neðri deild: 32. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (2318)

48. mál, friðun rjúpna

Frsm. meirihl. (Pjetur Þórðarson):

Jeg skal strax taka það fram, að athugun þessa máls í nefndinni tók ekki langan tíma, enda er frv. lítið fyrirferðar og ofur einfalt. Fram komu aðeins stuttar, ákveðnar skýringar á skoðunum nefndarmanna. Raunar var það svo, að skoðanamunur skifti nefndinni í tvo hluti, svo sem sjá má á þskj. 75 og 137, en um það var enginn að fást. Engin kappgirni og engar óþarfar málalengingar komust að í meðferð málsins. Þetta vildi jeg, að hv. deild tæki sjer til fyrirmyndar, bæði í þessu og meðferð mála yfirleitt.

Frv. þetta er fram komið eftir óskum bænda í sveitum, og eru þeir bæði veiðieigendur og veiða sjálfir. Þessar óskir byggjast á ástæðum þeim, sem getið er í greinarg. fyrir frv. og nánar voru teknar fram af hv. flm. frv. (PO) við 1. umr. málsins, og tel jeg öldungis óþarft að endurtaka neitt af þeim röksemdum.

Nú vill meirihl. nefndarinnar taka til greina þessar skynsamlegu ástæður og óskir bænda, m. a. þó ekki væri nema vegna þess, og þó ekki væri nema aðeins vegna þess, að það styttir veiðitímann, eða rjettara sagt: lengir friðunartíma þessara veslings ofsóttu fugla. Það hlýtur að vera öllum hv. þdm. kunnugt, með hve miklum dugnaði og atorku rjúpnadráp er stundað, frekar en flest önnur starfsemi, og ber tvent til þess, fyrst og fremst hagnaðarvonin af veiðinni, því að vitanlega er þessi fuglategund mjög eftirsótt verslunarvara, og í öðru lagi vegna þess, hve mönnum þykir skemtilegt að nota skotvopn, og einkum þó að veiða með skotvopnum. Þetta hefir stundum verið kölluð drápgirni, og ekki að ástæðulausu. Menn eru hvaðanæfa boðnir og búnir til að taka þátt í þessum veiðum, og það mjög ósleitilega. Þessvegna er og verður ætíð meiri hætta á því, að of mikið verði drepið af rjúpunni og að veiðin gangi til þurðar, ef veiðitíminn er langur, heldur en hinu, að of lítið verði veitt, þó að veiðitíminn verði styttur. Meirihl. nefndarinnar lítur því svo á, að með þessu litla frv. sje stigið feti nær því markmiði, sem að sjálfsögðu á að stefna að í öllum friðunarlögum, að fyllilega sje gætt varanlegra hagsmuna — ekki skyndihagsmuna — þeirra manna, sem arðs eiga að njóta af hinu friðaða, og gætt sje mannúðar og velsæmis, ekki síst, þegar um varnarlaus dýr er að ræða.

Með þessum orðum hefi jeg þá gert nokkra grein fyrir afstöðu meirihl. gagnvart frv. þessu, og get látið vera að eyða tíma í að tala um nál. hv. minnihl. En aðeins vona jeg, að bráðlega birti yfir hjá þeim hv. þm., sem þar eiga hlut að máli og báðir eru góðir drengir og ekki svartsýnir að jafnaði — en mjer finst bera helst til mikið á dökkvu litunum í nál. þeirra.

Jeg vil svo að lokum vænta þess, að hv. deild sjái sjer fært að fylgja meirihl. að málum í þetta sinn.