13.03.1925
Neðri deild: 32. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (2322)

48. mál, friðun rjúpna

Björn Líndal:

Þótt mikið hafi verið talað um þetta mál, bæði nú og fyr, er þó eitt atriði, sem ekki hefir verið nefnt, sem jeg vil benda hv. þm. á. Það er, að vetur legst oft snögglega að sumstaðar á Norðurlandi með fannfergi og jarðbönnum, og hverfur rjúpan þá algerlega. Venjulega er besti rjúpnaveiðitíminn eftir miðjan október og fram til loka þess mánaðar, þegar byrjar að snjóa; en undir eins og stórhríðar koma og harðindi, flýr rjúpan þangað, sem björgulegra er fyrir hana að vera. Þessi breyting á lögunum mundi því alloft hafa þær afleiðingar, að þau hjeruð, sem helst þurfa þessara hlunninda með, útkjálkarnir og harðindasveitirnar, missa algerlega af þeim. Rjúpan verður horfin suður í góðsveitirnar, svo sem kjördæmi hv. flm., áður en okkur, sem búum við hin ystu höf, leyfist að skjóta hana. Og þótt jeg geti unt Borgfirðingum allra gæða, þá viljum við Norðlendingar þó líka gæta hagsmuna okkar, viljum fá að skjóta þá rjúpu, sem alin er upp hjá okkur.