13.03.1925
Neðri deild: 32. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (2324)

48. mál, friðun rjúpna

Frsm. minnihl. (Árni Jónsson):

Það er með samviskunnar mótmælum, að jeg tek aftur til máls. Hv. þm. Borgf. (PO) hneykslaðist á því, að jeg taldi þetta hjegómamál. Jeg breyti ekki sannfæringu minni, frekar en hann sinni, því að það, sem fram hefir komið í þessu máli, sannar, að það skiftir engu, hvort þessi tími er hálfum mánuði lengri eða skemri, því að hvað munar í rauninni um þennan útflutning, samanborið við þær 80 miljónir, sem út var flutt fyrir síðastliðið ár? (PO: Kornið fyllir mælirinn.) En það er ekki hjegómamál, að mönnum sje gert mishátt undir höfði, en það er það, sem þessar sveitir, sem hafa mesta framleiðslu af rjúpunni, verða fyrir, Eyjafjarðarsýsla og Múlasýslur báðar. Það er ekki hægt að senda þaðan, nema með þessum ferðum á haustin.

Hvað viðvíkur sendiferð minni um markaðsleit, þá er það misskilningur, ef hv. þm. (PO) heldur, að jeg hafi verið að grenslast eftir markaði á rjúpum. Aðalerindi mitt var að koma á innflutningi á lifandi sauðfje til Englands — og það tókst mjer. Ef senda ætti sjerfræðing í rjúpnamálum til þess að greiða fyrir markaði, vildi jeg skjóta því til hæstv. stjórnar, að senda hv. þm. Borgf. (PO). Slík sendiför gæti vonandi orðið til þess, að hv. deildarmenn kæmust hjá hrókaræðum hans í þessu máli þing eftir þing. Honum væri ekkert óholt að „safna í sarpinn“ ennþá meiri þekkingu og skilningi heldur en hann hefir enn sýnt í málinu.