16.02.1925
Neðri deild: 8. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2327)

39. mál, vegalög Suðurlandsvegur

Flm. (Þorleifur Jónsson):

Jeg skal geta þess nú þegar, að jeg hefi leyft mjer að bera fram frv. þetta samkvæmt óskum sýslumannsins í Skaftafellssýslum fyrir hönd sýslunefndanna þar Breyting sú, sem farið er fram á undir staflið a á þskj. 39, er í rauninni einungis uppfylling á vegalögunum. par hefir fallið niður að tilnefna Öræfi og Breiðamerkursand, og er þó ekki um alllítinn vegarspotta hjer að ræða. Þar sem telja má víst, að orð þessi hafi fallið niður aðeins fyrir vangá, þegar frv. var samið, þykist jeg mega vænta þess, að þessi brtt. mín mæti engri mótspyrnu.

Undir staflið b er það lagt til, að hjer eftir verði ákveðið, að þjóðvegurinn um Nesin skuli liggja um Höfn í Hornafirði, og er það aðalbreytingin, sem frv. þetta felur í sjer. Það er öllum auðskilið mál, sem þarna þekkja nokkuð til, að þjóðvegurinn á að liggja um Höfn. par er kauptún sýslunnar, og þangað eiga því allir erindi, enda er umferðin mest þangað. Lengd vegar þess, sem hjer er um að ræða og sýslan hefir hingað til kostað, er einir 5 km., svo að ekki þarf frv. þetta þessvegna að vaxa mönnum svo mjög í augum.

Nú eru alveg sjerstakar ástæður, sem ekki voru fyrir hendi í fyrra, fyrir því, að rjettmætt er og sjálfsagt, að vegur þessi verði tekinn í tölu þjóðvega. Síðan í fyrra hefir aðalpóstafgreiðslustöðin þar um slóðir verið flutt til Hafnar, og mætast þar nú tveir landpóstar, sem sje Eskifjarðarpósturinn og Prestbakkapósturinn. Vegur þessi er því ekki aðeins í þjóðleið, heldur og póstleið, og þar sem allir aðalvegir landsins verða hjer eftir, samkv. vegalögunum, kostaðir af ríkissjóði, þá er ranglátt að neita um upptöku þessa vegar í tölu þjóðvega. Og þó að vegur þessi sje að eins álma út úr aðalþjóðveginum, þá er svo ástatt um ýmsa aðra vegi víðsvegar um land, sem nú eru teknir í tölu þjóðvega. Svo er t. d. um Hvammstanga-, Eskifjarðar- og Eyrarbakkavegina. Þeir eru álmur úr aðalþjóðvegunum, sem lagðar eru til kauptúna þessara, og því hliðstæðir þessum Hafnarvegi. Er því ekki nema rjettmætt, að vegur þessi verði einnig kostaður af ríkissjóði og tekinn í þjóðvegatölu.

Þegar vegalagafrv. var hjer á ferðinni í fyrra, þá flutti jeg við það brtt. sama efnis sem þessi till. er. En þá mun hv. samgmn. hafa tekið það í sig, að aftra því, að nokkur brtt. næði samþykki, vegna þess að hún óttaðist, að það yrði frv. að falli. því var það, að þessi brtt. mín og aðrar brtt., sem fram komu, náðu ekki samþykki hjer í þessari hv. deild, hversu sanngjarnar sem þær annars voru. En nú þarf þessi ótti ekki lengur að aftra mönnum frá að greiða frv. mínu atkv. Vegalögin halda gildi sínu að öðru leyti, þó að þetta þing kunni að gera á þeim einhverjar smábreytingar. Enda sje jeg, að einn hv. samgöngumálanefndarmaður flytur nú frv. um breytingu á vegalögunum, sem fer í svipaða átt og þetta frv. mitt.

Jeg býst við því, að frv. þetta fái góðan byr, bæði í hv. samgmn. og einnig hjá öðrum hv. þdm. Frv. þetta er það snemma fram komið, að hv. þm. hafa nægan tíma fyrir sjer að bæta úr misfellum þeim, sem kunna að hafa verið á vegalögunum, eins og þau voru afgreidd síðastliðið ár.

Sýslan hefir þegar á fyrri árum varið miklu fje til lagningar, viðhalds og endurbyggingar á þessum vegarkafla. Og eins og jeg hefi tekið fram áður, eru margir hliðstæðir vegarkaflar þegar teknir í vegalögin, færðir af sýslusjóðum yfir á landssjóð. Svo ætti einnig að gera við þennan vegarspotta. Annars væri ekkert rjettlæti ráðandi. Jeg ætla svo ekki að orðlengja frekar um þetta að sinni, en býst við, að þetta mál og önnur slík, sem fyrir liggja, verði látin fara til hv. samgmn. Vildi jeg mælast til, að hv. nefnd líti með mildi á þetta og taki því vel.