18.02.1925
Neðri deild: 10. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (2351)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Flm. (Pjetur Ottesen):

Jeg sje ekki ástæðu til að fara nú á þessu stigi að innleiða umræður um þetta mál. Eins og menn muna, var mikið rætt um það á síðasta þingi. Jeg get því látið mjer nægja að vísa til þeirra ástæðna, sem þá voru bornar fram með málinu. Aðeins vil jeg benda á það, að sú eina breyting, sem gerð hefir verið á frv. frá því í fyrra, er sú, að ákvæðið um rjettindamissi nái eingöngu til skipstjóra á fiskiskipum. Er með þessu ekki neitt brotið í bág við stefnu nje tilgang frv., en raddir hafa heyrst, að frv. myndi talið aðgengilegra, ef þessi breyting yrði á því gerð.

Jeg skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en vil óska þess, að frv. verði, að lokinni umr., vísað til sjútvn.