12.03.1925
Neðri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (2356)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. minnihl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Háttv. þingdeild er þetta mál fullkunnugt frá síðasta þingi, og mun þó ekki, að því er virðist, vanþörf á að fara enn um það nokkrum orðum.

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) taldi, að okkur hefði átt að nægja að svifta menn skipstjórnarrjetti á togurum einum, og getum við fallist á það. Munum við flm. frv. flytja slíka brtt. við næstu umræðu. En hvað snertir brtt. hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), þá erum við algerlega mótfallnir tillögu hans um að sleppa mönnum við rjettindamissi við fyrsta brot. Till. þessa hv. þm., einkum viðvíkjandi fyrsta broti, ríða algerlega í bág við anda og stefnu frv. og miða að því einu, að gera að engu það gagn, sem að frv. má verða. Ef rjettindamissirinn kemur ekki þegar við fyrsta brot, þá hverfur það aðhald, sem frv. á að verða, að mestu, því að þá þurfa ekki aðrir neitt að óttast en hinir fáu, sem einu sinni hafa orðið uppvísir að landhelgisbroti og hlotið hegning fyrir.

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) lagði mikla áherslu á, að hegningin væri of hörð, vegna þess, að skipstjóri kynni óvart að hafa slæðst inn fyrir landhelgislínuna, en það mun afar sjaldgæft, að slíkt hendi menn óviljandi, þó að það geti komið fyrir, t. d. í þoku eða dimmviðri, en þá er hinsvegar einnig örðugra fyrir strandvarnarskipin að klófesta þá, sem þetta hefði hent, og mun það tilviljun. ein, ef þeir yrðu teknir í landhelgi af þessum ástæðum. Það mun og afarsjaldgæft, að lög sjeu brotin óvart eða óviljandi. Og ætti að fara að setja það í lög, að aðeins megi hegna þeim einum, sem sannanlega brjóta lögin að yfirlögðu ráði, mundi það draga mjög úr gagni og áhrifum þessa frv. Reynslan hefir sýnt það um þessa brotlegu skipstjóra, að þeir eru oft undarlega minnissljóir og vita furðulítið, þegar um veiðar í landhelgi er að ræða.

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) benti á það, að það væri ilt að missa á brott til útlanda reynda og góða skipstjóra. Það eru ekkert fremur góðir en illir, sem fyrir þessu mundu verða, en þessi röksemd hans dugir því aðeins, að þeir skipstjórar sjeu einir taldir góðir, sem mest brjóta lögin. Þá gæti vel verið, að frv. okkar yrði til þess að fæla á brott góðu skipstjórana, ef þeir eru góðir, sem fiska mest ólöglega. Hann endurtók það, sem oft hefir áður verið sagt í þessu máli, að það væri aðeins eitt, sem hægt væri að gera í þessu efni, og það væri að auka strandgæsluna. En þetta er rangt. Það er fleira, sem þarf með, til að koma í veg fyrir lögbrotin. Hegningin þarf að vera þar með. Það er löggæslan og hegningin í sameiningu, sem varna lögbrotunum. Löggæslan er aðeins einn þátturinn í landhelgisgirðingunni. Hún þarf að vera þríþætt: sektirnar, hegning skipstjóranna og landhelgisgæslan. Það er einmitt þetta góða við frv., að það felur í sjer hegningu á sjálfa sökudólgana, en hana hefir tilfinnanlega vantað í landhelgislöggjöfina. Til þessa hefir aðalhegningin lent á útgerðarmönnunum, og þó það að vísu sje rjettmætt, vegna þeirra hagsmuna, er útgerðin hefir af lögbrotunum, þá mælir öll sanngirni með því, að nokkur hegning lendi og á þeim, sem fremja brotið. Þetta ákvæði, að rjettindamissirinn sje æfilangur við þriðja brot, er rjettmætt. Maður, sem þrisvar sinnum er staðinn að broti, er eflaust búinn að traðka lögunum svo oft, að hann á það fyllilega skilið að verða sviftur öllum rjetti til að fara með botnvörpuskip. Það er að vísu satt, að það er leitt að geta ekki hegnt erlendum skipstjórum á sama hátt. En til þess höfum vjer ekki vald, og því er ekki rjettmætt að halda því fram, að við sjeum með þessu að ofsækja innlenda skipstjóra; íslenskt löggjafarvald nær ekki í þessu efni til þeirra erlendu. En við álitum hinsvegar, að sök hinna innlendu lögbrjóta sje stærri og meiri en þeirra erlendu. Bæði er það, að innlendu skipin hafa að jafnaði betri tæki, t. d. hafa loftskeytatækin nokkur áhrif á landhelgisveiðar, og auk þess betri aðstöðu vegna þess, að þau hafa stöðugra og betra samband við land. Þá vegur það og mikið, að af innlendum skipstjórum má krefjast meiri samúðar og meiri skilnings á högum manna á landi, sem verða fyrir tjóni af ólöglegum veiðum, en af erlendum mönnum. Það er einmitt af þessum ástæðum, að meiri samúðar ætti að mega vænta af innlendum mönnum með þeim, sem landhelgisveiðarnar gera mest tjón, að við berum hiklaust fram þetta frv., þó að það hafi í för með sjer nokkru harðari hegningarákvæði fyrir innlenda skipstjóra en hægt er að beita gagnvart hinum útlendu.