12.03.1925
Neðri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í C-deild Alþingistíðinda. (2357)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jón Auðunn Jónsson:

Háttv. flm. frv. hafa nú lýst því yfir, að þeir geti ekki sætt sig við brtt. mínar, vegna þess, að þær geri frv. þeirra að engu. Jeg sje nú ekki, að svo sje. Það mun ekki eiga sjer stað, að mönnum sje hegnt jafnharðlega fyrir fyrsta brot, sem þá hefir hent í lögreglumálum, og því er þétta ákvæði frv., að svifta menn skipstjórnarrjetti við fyrsta brot, einstakt í lögreglumálalöggjöfinni. Það er ekki rjett, að engin hegning sje ákveðin við fyrsta brot gagnvart skipstjórunum í gildandi lögum. Jafnvel fangelsishegning getur komið til mála eftir gildandi lögum. Við fyrsta broti vil jeg ekki láta liggja aðra hegningu en þá, sem nú er.

Foringinn á strandvarnarskipinu hjer sagði mjer í fyrra, að það kæmi oft fyrir, að menn vissu ekki, hvort þeir væru 100 föðmum fyrir innan landhelgislínuna eða utan. Þegar menn hafa haft langa útivist, leitað víða miða og ekki sjeð land dögum saman vegna dimmviðris, er það eigi ávalt á færi skipstjórans að vita með vissu, hvar hann er. Jeg álít því þessa hegningu of harða, og það er betra, að dómur sje of vægur en að saklaus maður fái þunga refsingu. Hitt er rjett, að þyngja hegningu fyrir ítrekað brot, en jeg kann illa við það, að hegning fyrir lögregluafbrot sje æfilöng. 5 ára rjettindamissir ætti að vera næg hegning. Það er mjög sjaldgæft, að skipstjórar fái togara aftur eftir 5 ár. Þekki jeg engin dæmi þess, að það hafi komið fyrir. Á Englandi kemur t. d. aldrei fyrir, að maður, sem hefir mist rjettindin eða verið í landi í 2 ár samfleytt, fái skip aftur. Það er engin efi á því, að strandgæslan er besta vörnin gegn lögbrotum. Sást það t. d. best á Vestfjörðum í fyrra, eftir að varðbáturinn „Enok“ tók til starfa, þó sú vörn væri mjög ófullkomin. Þessvegna álít jeg, að frv. þetta komi að litlu gagni, en vænti þess, að hjer á þessu þingi, verði betur ráðið fram úr þessu máli, svo að slík lagasetning sem þessi verði alóþörf En þar á jeg við, að fest verði kaup á eða smiði hafin á nýju landhelgisgæsluskipi. Jeg hefi ekki á móti því, að menn, sem staðnir eru að ítrekuðum brotum, missi rjettindi sín, en hitt tel jeg órjettlátt, að maður, sein brýtur óvart eða sannanlega er saklaus, verði látinn sæta rjettindamissi, þó að hann hittist innan landhelgi. Þeir, sem ekki geta aðhylst brtt. mínar, gæta ekki hófs, og þá er þess von, að mál þeirra fái daufar undirtektir hv. þdm.