12.03.1925
Neðri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (2358)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Ágúst Flygeriring:

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) er búinn að taka flest það fram, sem við höfum á móti þessu frv., en jeg vil skjóta því til háttv. flm., að íhuga, hvaða áhrif frv. gæti haft á strandvarnirnar. Það stendur svo á, að fjöldi brotlegra togara, eða jafnvel flestir, eru teknir af varðskipinu svo nærri landhelgislínunni, að yfirmönnum varðskipsins næstum blöskrar að þurfa að draga skipin fyrir lög og dóm, vegna þess, að þeir eru stundum ekki vissir um, nema ónákvæm athugun gæti orsakað, að menn yrðu þannig ranglega ákærðir, og ef þeir vissu, að slíkur rjettindamissir lægi ávalt við, ef menn yrðu dæmdir fyrir ólöglegar veiðar, ætli þá gæti ekki stundum átt sjer stað, að það væri freisting fyrir liðsforingjana að láta togarana sleppa. Strandvarnarskipsforingjar eru eins gerðir og aðrir menn, þeir geta alið mannlegar tilfinningar í brjósti.

En svo er annað, sem flutningsmenn ekki hafa tekið í reikninginn: skipstjórinn íslenski missir rjettindi til skipstjórnar, eftir að hafa verið staðinn að ólöglegum veiðum, en hann missir ekki rjett til þess að vera áfram á skipinu sem háseti, stýrimaður eða auk hinnar lögskráðu skipshafnar sjer til skemtunar — máske sem fiskilóss.

Á þennan hátt gætu skipstjórarnir því eftir sem áður haft fulla stjórn yfir skipunum, þó að þeir hafi orðið brotlegir gegn landhelgislögunum, og því að nafninu til verið sviftir skipstjórarjettindum. Eins og háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) tók fram, sje jeg ekki, að hægt verði að ráða bót á landhelgisbrotum á annan hátt en með bættri landhelgisgæslu.

Ef jeg væri viss um, að hegning sú, sem frv. þetta fer fram á, kæmi þar niður, sem helst skyldi, væri ekki langt frá mjer að fylgja frv. En þar sem í því er fólgið hið mesta misrjetti milli innlendra og útlendra skipstjóra, sje jeg ekki, að það hafi neina tilætlaða þýðingu og get því ekki fylgt því; sje yfir höfuð ekki, að bætt verði úr landhelgisvarnarmálinu með því að setja harðari refsiákvæði gagnvart innlendum skipstjórum en útlendum.