12.03.1925
Neðri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í C-deild Alþingistíðinda. (2359)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Pjetur Ottesen:

Jeg get tekið undir með háttvirtum framsögumanni meirihl. (JakM), að það muni ekki hafa mikla þýðingu að ræða þetta mál mikið nú, því að fátt muni komið fram í því, sem ekki kom fram á síðasta þingi. En þó má benda á, að frv. það, um þetta efni, sem jeg flutti á síðasta þingi, hefir vakið mikla eftirtekt úti um bygðir landsins og ýmislegt verið um það rætt utan þings, sem drepa mætti á. Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) hjelt því fram, sem andmælum gegn frv., á síðasta þingi, að þýðingarlaust væri að setja inn í lögin svona ströng refsiákvæði, sem ekki ættu stoð í almenningsálitinu. En þetta stafar af ókunnugleika háttv. þm. á áliti og skoðun þeirra manna á þessu máli, sem búa í þeim landshlutum, þar sem menn verða að draga fram lífið með því að stunda sjóróðra, annaðhvort á opnum bátum eða litlum vjelbátum, og geta þar af leiðandi ekki sótt aflann langt á haf út. Þessir menn eru kunnugastir athæfi togaranna, og þeir líta undantekningarlaust svo á, að slík refsiákvæði sem þessi væru mikil trygging fyrir því, að skipstjórarnir mundu frekar skirrast við að veiða í landhelgi en þeir hafa gert hingað til, þar sem þeir ættu þá allmikið á hættu sjálfir. Meðal þessara manna hafa einmitt heyrst margar raddir, sem talið hafa það mjög vanráðið af Alþingi, að hafa ekki sett slíkt ákvæði inn í lögin, og þarf í því efni ekki annað en benda á ýmsar blaðagreinar um þetta og þingmálafundarsamþyktir. Jeg held því, að óþarfi sje að óttast, að slík refsiákvæði sem eru í frv. þessu, fyndu sjerstaka linkind í almenningsálitinu, þegar þess er ennfremur gætt, að þetta er refsing fyrir brot, sem hafa mikil áhrif á bjargræðisvegi og afkomu landsmanna. Því að enginn neitar því, að það hnekkir stórkostlega efnahag og afkomu landsmanna, hversu landhelgin er fótum troðin af togurunum, og það má benda á heila hreppa, sem eru beinlínis að leggjast í auðn af þessum sökum.

Það hefir verið tekið fram, að mikil bót sje í þessu ákvæði, þó að það nái aðeins til innlendra skipstjóra, því að alkunnugt er, að innlendir skipstjórar eru mjög ásælnir í að veiða í landhelgi, og það einmitt á þeim stöðum, sem landhelgisveiðarnar eru bagalegastar landsmönnum. En hinir útlendu fylgja þeim eftir, oft og tíðum, því að þeir hafa komist að raun um, að þeir væru óhultastir í landhelginni, þegar þeir geta verið þar samtímis hinum innlendu. Þetta er ofurvel skiljanlegt, þegar þess er gætt, sem nú er orðið opinbert leyndarmál, að loftskeytatækin, sem nú eru komin á flesta innlenda togara, eru mest notuð til þess að aðvara þá um, hvenær þeim sje óhætt, varðskipsins vegna, að vera í landhelgi. Þeir, sem mest hafa orðið fyrir barðinu á yfirgangi togaranna í landhelginni, telja útlendinga á þennan hátt haga veiði sinni mjög eftir þeim innlendu.

Af þessum orsökum er því mikil trygging í þessu refsiákvæði, þó aldrei nema það nái ekki nema til íslensku skipstjóranna. Með þessu er jeg alls ekki að segja, að útlendir togaraskipstjórar hafi ekki sýnt og sýni ekki enn ásælni við landhelgina, þó þeir sjeu ekki í fylgd með íslenskum togurum. Síður en svo. En hitt er staðreynd, að þeir kosta mjög kapps um að fylgjast með íslenskum togurum að landhelgisveiðum, því á þann hátt telja þeir sig miklu öruggari fyrir því, að verða ekki handsamaðir, en sjeu þeir einir síns liðs.

Út af því, sem haldið hefir verið fram gegn þessu máli, að það væri ósanngjarnt að leggja þannig lagaða refsingu á togaraskipstjórana íslensku eina saman, þá hefir áður verið bent á það, og skal jeg þá endurtaka það, að útlendir trollaraskipstjórar verða fyrir hliðstæðri refsingu, því að þeir missa rjett til skipstjórnar um nokkurn tíma, samkvæmt ákvæðum, sem um það gilda erlendis, að minsta kosti í Englandi og þýskalandi.

Það skyldi nú engan undra, þó við háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) flytjum frv. þetta, við, sem eigum að gæta hagsmuna þeirra hjeraða, sem mest allra hjeraða hafa orðið fyrir barðinu á yfirgangi botnvörpunganna. Nei, það skal engan undra, þó við viljum koma inn í lögin ákvæði, svo hægt sje að refsa sökudólgunum, og það þannig, að þeim sje nokkur viðvörun í.

Með þessu er að mestu svarað þeim mótbárum, sem háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) hjelt fram gegn frv. þessu, og sömuleiðis háttv. 1. þm. G.-K. (ÁF). Þessir háttv. þm. töluðu ennfremur báðir um, að þetta refsiákvæði væri mjög ósanngjarnt gagnvart þeim skipstjórum, sem óviljandi væru fyrir innan landhelgislínuna. Jeg skal ekki fortaka, að það geti aðeins komið fyrir, að skipstjórar sjeu óviljandi fyrir innan landhelgislínuna, að þeir hafi vilst inn fyrir. En slík tilfelli eru svo fá, að ekki getur náð nokkurri átt að miða landhelgislöggjöfina við þau. Þegar þess er ennfremur gætt, að togaraveiðar í landhelgi stórspilla fiskiveiðunum bæði í nútíð og framtíð, þá má einskis láta ófreistað, sem að gagni má verða, til þess að vernda landhelgina, og við þessa bráðu og aðkallandi nauðsyn verður að sníða löggjöfina. En ekki hitt, þó að fyrir geti komið, að einstaka skipstjóri villist inn fyrir landhelgina og verði brotlegur af þeim sökum.

Háttv. 1. þm. G.-K. (ÁF) sagði meðal annars, að svona ströng refsiákvæði myndu draga úr því, að skipstjórar yrðu kærðir fyrir landhelgisbrot, því að þá myndu yfirmenn varðskipsins frekar sýna þeim linkind, og allra helst, ef þeir hefðu verið svo nærri linunni, að ekki væri alveg ugglaust um, hvort þeir væru sekir eða ekki. Jeg veit þess engin dæmi, að skipstjórar hafi verið dregnir fyrir lög og dóm, án þess að vissa hafi verið, að þeir hafi verið að veiðum í landhelgi. En þess veit jeg aftur mörg dæmi, að skipstjórar, sem staðnir hafa verið að veiðum í landhelgi, hafa þverneitað, hvað eftir annað, að þeir hafi komið þar. Jeg get því alls ekki ætlað það, að þeir, sem stýra varðskipunum, hafi linkind með lögbrjótunum.

Jeg vænti nú, að háttv. þm. athugi betur en á síðasta þingi nauðsyn þá, sem liggur til grundvallar fyrir frv. þessu, og sú athugun hafi aftur í för með sjer, að fleiri háttv. þingmenn en þá sannfærist um nytsemi þess, og málinu verði því trygður framgangur á þessu þingi. Á þessu sýnist mjer einmitt bóla nú. Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) var mjög á báðum áttum í fyrra í þessu máli, og flutti þá brtt., sem var hreinn fleygur í málið, en nú er hann skilyrðislaust fylgjandi minnihl. nefndarinnar. Jeg verð auðvitað að segja þessum hv. þm. það til hróss, að þegar búið var að koma fleygnum hans fyrir í fyrra, var hann málinu fylgjandi. Þetta virðist mjer því, ásamt öðru, benda til þess, að málið gangi nú fram.