16.03.1925
Neðri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (2365)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. meirihl. (Jakob Möller):

Við hv. þm. Borgf. (PO) þýðir ekkert að deila í þessu máli. Hjá honum er alt klipt og skorið og hið sama upp aftur og aftur. Hefi jeg enga von um að geta sannfært hann. Aftur á móti er jeg ekki alveg vonlaus um hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Þó skeikaði honum, þegar honum finst kenna ósamræmis í röksemdaleiðslu minni gegn frv., þar sem jeg held því fram, að það komi ekki að tilætluðum notum, en muni þó e. t. v. verða til þess að draga úr landhelgisgæslunni. Jeg hefi góða von um, að hv. þm. (ÁÁ) fái skilið, að það er þýðingarmikið atriði og alls ekki hættulaust, ef svo færi. Ef eftirlit með landhelgisveiðum sljóvgast vegna svo ósanngjarns ákvæðis, sem ekki nýtur samúðar almennings, þá leiðir ekki aðeins af því, að sjeð verður í gegnum fingur við lögbrjótana, heldur líka, að öll löggæslan „demoraliserast“, og þeir, sem eiga hana yfir höfði sjer, hætta alveg að bera nokkra virðingu fyrir henni. Svo að ef það er rjett, að með svo ósanngjörnu ákvæði verði skotið yfir markið, þannig, að landhelgisgæslan verði lakari, þá er ver farið en heima setið. En jeg get fullvissað hv. þm. (ÁÁ) um það, að mjer er mjög illa við, ef þessi yrði afleiðingin af frv. Og jeg er sannfærður um, að svo myndi fara, að eftirlitið yrði yfirleitt slælegra, ef slík refsiákvæði væru sett í lögin. Og að öðru leyti hefi jeg enga trú á því, að þau geri gagn, ekki einu sinni gagnvart skipstjórunum. Og hvað heildina snertir, gerir það svo sáralítið, þó að jafnvel væri hægt að bægja íslenskum togurum frá landhelginni, þeir eru svo fjarska lítill hluti af öllum þeim sæg, er veiðar stunda hjer við land. Sannfæring mín er í örfáum orðum þessi: Í fyrsta lagi er þessi lagasetning ranglát. Og í öðru lagi held jeg, að hún komi að engu gagni, heldur geri þvert á móti ógagn og ógagn eitt.

Jeg vil enn á ný taka það fram, sem jeg hefi bæði sagt nú og í fyrra, að ef hv. minnihl. nefndarinnar og hv. flm. vilja fara aðra leið, þá, að herða á refsingunum, þannig, að þær gangi jafnt yfir alla, þá skal jeg fylgja þeim, og það jafnvel svo langt sem þeir kunna að vilja fara, t. d. það, að gera skipin upptæk, ef fiskað er inni á fjörðum og flóum og veiðarfæri manna eyðilögð. Hví vilja þeir ekki fara þá leið? Jeg skora á þá að skýra frá því, hversvegna þeir endilega vilja níðast á íslenskum skipstjórum einum, og það þótt það hafi engin áhrif á landhelgisveiðarnar í heild? Er það af því, að þeir óttast að herða á refsiákvæðunum gagnvart útlendingunum? Þá væri skiljanlegt, að þeir leggja íslensku skipstjórana í einelti. þá væri það skiljanlegt. En ekki vex samúð mín með þeim við það.