16.03.1925
Neðri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í C-deild Alþingistíðinda. (2372)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. minnihl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hæstv. fjrh. (JÞ) vildi koma mjer í skilning um, að hjer væri um fleira að ræða en hagsmuni, og fór í því sambandi tvíræðum orðum um mig, og mun jeg láta mjer það í ljettu rúmi liggja. Mjer er það fullkomlega ljóst, að hjer er um fleira en hagsmuni að ræða, sem sje bæði rjettindi og hagsmuni. Það er bæði vegna hagsmuna skjólstæðinga okkar og rjettinda þeirra, að við flytjum þetta frv. Ef hæstv. fjrh. (JÞ) hefði risið upp til þess að áminna mig í nafni sannleika og rjettlætis, hefði hann og ámint fleiri. En jeg hefi fulla ástæðu til að ætla, að hann hafi öllu heldur tekið til máls til að gæta einhverra hagsmuna sinna hjer í hv. deild, því að ef hann væri hjer vörður sannleika og rjettlætis, hefði hann fyrst og fremst vítt hv. 3. þm. Reykv. (JakM) fyrir að telja frv. borið fram af hræðslu við útlendinga og til að gera innlendum mönnum ilt eitt; við flm. hefðum átt að semja við útlendinga um, hvernig við gætum gert Íslendingum bölvun! Jafnvel þó að við hefðum talað við útlenda skipstjóra, væri það engin sök, því að það eru ekki hagsmunir þeirra, að farið sje illa með innlenda skipstjóra. Annars ætla jeg ekki að víkja nánar að þessu, en ofurlítið drepa á það, sem hæstv. fjrh. sagði um dómsvaldið: að með þessu tæki Alþingi það í sínar hendur.

Ef það, að setja hegningarákvæði, á að kallast dómsvald, þá hefir Alþingi dómsvald. Það er leitt, þegar ráðherrar gera sig bera að misskilningi í jafneinföldu efni og þessu og rugla saman dómsvaldi og löggjafarvaldi.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) vildi gefa í skyn, að jeg hefði ekki lesið þau lög, sem jeg er nú að gera tillögur um að breyta. En jeg get sagt honum, að það megi dæma skipstjóra í fangelsi við fyrsta brot það er bara aldrei gert. Þó hv. þm. N.-Ísf. hafi kanske lesið lögin, þá hefir hann ekki skilið þau. Við 2. brot sæta þeir 2 mánaða fangelsi, en við þetta bætir hv. þm. N.-Ísf. ákvæði um, að þá megi dæma til eins árs rjettindamissis. Jeg held, að rjettara sje, að rjettindamissir komi þegar við 1. brot og fangelsisvist eftir 2. brot.

Jeg vona, að frv. þetta verði samþ. og landhelgisgæslan aukin á þessu þingi, og má vel sætta sig við þau úrslit þessara mála.