16.03.1925
Neðri deild: 34. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í C-deild Alþingistíðinda. (2377)

45. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Bjarni Jónsson:

Jeg hygg, að refsingar þær, sem nú eru ákveðnar fyrir landhelgisbrot, sjeu alveg nógu harðar, bæði fyrir útlenda menn og innlenda. En jeg er sammála þeim mönnum, sem halda því fram, að ekki geti komið til mála, að þingið geri önnur refsiákvæði um íslenska þegna heldur en útlenda menn.

Hv. frsm. minnihl. (ÁÁ) kvað rjett að taka harðar á innlendum mönnum, af því að þeir væru landsins þegnar og brytu landsins lög. En þar gæti komið á móti, að þeir þættust ef til vill eiga meiri rjettindi til landhelginnar en aðkomandi menn. Um þetta má vitanlega deila.

Hinsvegar getur ekki komið til mála — þó það megi eftir núgildandi lögum — að refsa skipstjóra með fangelsisvist og þar að auki taka stórfje af útgerðinni, og láta hana þannig bera ábyrgð á skipstjóranum. Úr því farið er að refsa skipstjóranum, þá á útgerðin ekki að bera neinn halla, eftir vanalegum skilningi á því, hver sje hinn seki. Í þessum lögum er refsingin lögð á skakkan sakaraðila. En þá er líka engin ástæða til að láta hinum líka blæða.

Það myndi þykja kynlegt, ef þessi aðferð væri látin ná til daglega lífsins, ef t. d. seilst væri eftir því, að láta húsbónda vinnumanns nokkurs, er sekur gerðist, borga stórsektir, en refsa hinum seka líka með rjettindamissi og jafnvel fangelsi.

Jeg stend sem steini lostinn yfir því, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) skuli geta fylgt svona máli. Því það er bersýnilegt, að ef ástæða er til að óttast landhelgisbrot hjá innlendum skipstjórum, þá getur svo farið á hverri einustu vertíð, að nokkrir togaraskipstjórar missi rjettindi sín. Komi það fyrir í byrjun vertíðar, verður að setja skipin upp, og skipshafnirnar, sem eru skjólstæðingar hv. 2. þm. Reykv. (JBald), verða atvinnulausar. Síst hefði mátt búast við því, að þessi hv. þm. ljeði fylgi sitt frv., sem getur haft það í för með sjer, að 3–4 skipshafnir verði að ganga atvinnulausar heilar og hálfar vertíðir. Hvert eiga svo þessir atvinnulausu skipstjórar að halda? Myndu þeir ráða sig sem háseta, eða gerast verkamenn í Reykjavík? Hvernig fer þá, þegar hv. þm. ætlar að fara að breiða sina arnarvængi yfir þessa mjög seku menn? Jeg get hugsað, að þetta hafi margvísleg áhrif fyrir hv. þingmann verkamanna.

Annars hygg jeg hv. þm. annað sæmra en að búa til slík „drakónsk“ lög hjer á landi. Og það hygg jeg mála sannast, að þau muni ekki verða til annars en að sýnast.

En það er annað, sem lægi nær. Menn ættu að taka þessa úreltu hegningarlöggjöf í heild til endurskoðunar; setja nefnd milli þinga, skipaða lögfræðingum og öðrum góðum og gegnum mönnum, til að semja upp allan þann lagabálk og koma betra samræmi á refsingarákvæði fyrir brot af ýmsu tæi. Það dugar ekki að stara sig blindan á eitt brot og leggja við geysilega harða hegningu og ósambærilega við þá, sem aðrir menn fá fyrir stærri brot.

Jeg vænti þess, að menn sjeu ekki alveg frá því horfnir, að það eigi að vera siðferðislegur grundvöllur og rjettartilfinning, sem lög sjeu bygð á, en að þau sjeu ekki samin út í loftið, eða eins og þegar einhver tekur sprett í reiði út af einhverju, sem fyrir hefir komið.