08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

1. mál, fjárlög 1926

Bernharð Stefánsson:

Jeg á brtt. á þskj. 486, í tveim liðum. Fyrri liðurinn er við 18. gr. II. í. 6. Nýr liður: Til Jakobínu Sveinsdóttur júbilljósmóður á Ytri-Reistará 500 kr. Jeg skal geta þess, að jeg hefði alls ekki flutt þessa brtt., ef ekki hefði staðið svo á, að nú er búið að taka upp í fjárlagafrv. samskonar styrk til þriggja ljósmæðra, og jeg get ekki sjeð annað en það standi alveg eins á með þessa konu og þær. Og úr því að svo lítur út, sem Alþingi ætli að fallast á að veita þeim styrk, þá er bæði rjettlátt og sanngjarnt, að þessi kona fái sama styrk og þær fá. Samkvæmt vottorðum, sem jeg hefi hjer hjá mjer, bæði frá hreppstjóra Arnarneshrepps, Stefáni Stefánssyni fyrv. alþingismanni, og eins hjeraðslækni Akureyrarhjeraðs, hefir þessi kona verið ljósmóðir í mjög víðáttumiklu og erfiðu ljósmóðurhjeraði frá því 1874 og til 1916. Og eftir því sem hjeraðslæknir Steingrímur Matthíasson vottar, hefir hún allan þennan tíma rækt starf sitt mjög vel og samviskusamlega. Og í fyrra hefir hún orðið júbilljósmóðir eins og hinar eru taldar vera. Hjeraðslæknirinn fer sem sagt mjög lofsamlegum orðum um starfsemi hennar sem ljósmóður. Nú hefir hún slitið kröftum sínum í starfinu og er farin að heilsu. Liggur því ekki annað fyrir henni en að vandamenn hennar sjái henni farborða, eða þá að hún leiti til sveitarinnar, sem flestum veitist mjög erfitt. Jeg vona því, að Alþingi, sem sjer ástæðu til að veita þeim þrem konum viðurkenningu, sem búið er að samþykkja fjárveiting til, geti ekki fundið neina ástæðu til að neita þessari konu um hið sama.

Þá er það annar liður þessarar brtt., sem jeg nefndi, við 18. gr. II. j., þar sem farið er fram á, að Eggert Stefánssyni símritara á Akureyri sjeu veittar 2500 kr., eða til vara 2000 kr., í biðlaun þar til hann fær aftur starf við landssímann. Jeg ber þessa till. fram vegna þess, að jeg lít svo á, að þessi maður hafi orðið fyrir ranglæti af ríkinu, að minsta kosti samanborið við aðra starfsmenn ríkisins. Og jeg tel því, að ríkið eigi að bæta þetta ranglæti. Jeg ætla mjer ekki að fara langt út í þetta mál að því er Eggert Stefánsson snertir og get að mestu látið mjer nægja að vísa til málaleitunar hans, sem legið hefir fyrir hinu háa Alþingi og jeg vona, að hv. þm. hafi kynt sjer. Það eru aðeins örfá atriði í sambandi við þetta, sem jeg vildi drepa á, ef ske kynni, að hv. þm. yrði þá málið ljósara, þegar þeir eiga að greiða atkvæði um það. Eggert Stefánssyni var vikið frá fulltrúastöðunni við landssímastöðina á Akureyri 8, apríl 1924 samkv. tillögum landssímastjórans, og sökin, sem honum var gefin, er „drykkjuskaparóregla“. Jeg skal nú raunar ekki neita því, að þessi maður hefir stundum drukkið áfengi, en þrátt fyrir það er þessi ráðstöfun næsta einkennileg. Í fyrsta lagi vil jeg geta þess út af þessu, að þessum manni var veitt ábyrgðarmikil staða við landssímann 1922, þegar honum var veitt stöðvarstjórastaðan á Borðeyri frá 1. sept. þ. á. Og sú staða var honum veitt samkvæmt uppástungu og tillögum landssímastjórans. Þegar landssímastjórinn leggur það til við stjórnina 1922, að þessi maður fái þetta starf, þá er landssímastjórinn búinn að reyna hann mörg ár í þjónustulandssímans og leggur þá til að veita honum þá ábyrgðarmiklu stöðu að vera stöðvarstjóri við landssímann. Eftir því sem fyrir liggur, hvetur landssímastjórinn hann beinlínis til að sækja um þetta starf og hikar ekki við að mæla með því, að honum sje veitt það. Það varð nú aldrei af því, að Eggert Stefánsson tæki við þessari stöðvarstjórastöðu á Borðeyri. Orsakirnar voru þær, að símamannafjelagið hjer í Reykjavík gerði uppistand út af þessari veitingu, hótaði verkfalli og öðru illu. Af hvaða ástæðum, skal jeg ekki segja um. Hitt er víst og áreiðanlegt, að eftir beinum tilmælum landssímastjórans og ríkisstjórnarinnar gaf Eggert þessa stöðu eftir, til þess að firra vandræðum.

Jeg lít nú svo á, að þar sem landssímastjórinn og landsstjórnin telur manninn hæfan til þess haustið 1922 að taka að sjer ábyrgðarmikla stöðu við landssímann, þá þurfi alls ekki að ræða um starf þessa manns við landssímann fram að þeim tíma, því að veitingarvaldið telur starf hans gott og gilt fram að þeim tíma. Það gæti því aðeins verið um það að ræða, að hann eftir haustið 1922 hefði gert sig óhæfan til þess að vera í þjónustu landssímans vegna þess, sem honum er gefið að sök af landssímastjóranum, er hann leggur það til við stjórnina, að honum sje vikið frá starfinu. Nú vill svo til, að mjer er fullkunnugt um það og veit, að það er sannanlegt, að einmitt frá þessum tíma, eða um það leyti að honum var veitt stöðvarstjórastaðan á Borðeyri og fult ár þar á eftir, þá var hann reglumaður. Það er áreiðanlegt og getur enginn borið á móti því, sem þekkir málavexti, að þangað til í október 1923 var ekkert að honum að finna hvað þetta snertir; hann var sem sje alger bindindismaður og neytti alls ekki víns, og jeg hefi aldrei sjeð af þeim gögnum, sem fyrir liggja í málinu, að honum hafi verið gefið að sök annað en þetta eina — drykkjuskapur. Það ætti því að vera frá því í október 1923 og þar til í byrjun apríl 1924, að maðurinn hefði gert sig svo stórkostlega brotlegan, að ástæða væri til að víkja honum úr embætti. Jeg veit nú ekki nákvæmlega um lifnaðarhætti hans þetta stutta tímabil, en jeg held, að jeg þori þó að fullyrða, að á þessum tíma hafi hann alls ekki getað talist neinn sjerstakur óreglumaður, og að það hafi að minsta kosti ekki verið neitt meiri brögð að því þetta stutta tímabil en áður en honum var veitt stöðvarstjóraembættið á Borðeyri, en lifnaðarhættir hans þá þóttu ekki, að dómi landssímastjórans, þannig, að ástæða væri til að synja honum um þá stöðu. Eins og kunnugt er, varð svo í fyrra, að bæði stöðvarstjórinn á Akureyri og þessi símritari voru settir frá sínum störfum. Það liggur ekki hjer fyrir, og skal jeg ekki út í það fara, hvað stöðvarstjóranum sjálfum hafi verið gefið að sök, er hann var settur frá starfanum, en jeg býst þó við, að hafi það verið sjerstök sök, sem á honum hvíldi, þá hafi að minsta kosti Eggert Stefánsson ekki í neinu tilliti verið sekari en hann. Nú er svo komið, að því er jeg best veit, að þessi stöðvarstjóri hefir verið tekinn aftur í þjónustu landssímans. Og nú er það í rauninni ekki annað, sem jeg fer fram á í þessari till. minni, en að gengið sje út frá því sem sjálfsögðu, að Eggert Stefánsson njóti sömu rjettinda og embættisbróðir hans, og fái því hæfilegt starf fyrir sig við landssímann, þegar það losnar, en á meðan hann hefir það ekki, á hann að fá dálítil biðlaun. Það er nú einu sinni svona með þá menn, sem búnir eru að læra ákveðið verk og hafa fengist við það árum saman, að það er ilt fyrir þá að missa stöðu sína alt í einu. Vitaskuld er slíkt ekkert þægilegt og ekki hlaupið að því að fá aðra stöðu alt í einu eða finna nýja vegi til bjargræðis. Jeg býst við því, að ef svona væri skilið við mann, sem hefði verið svo lánsamur að hafa gengið á háskóla og haft embætti á hendi, sem launað væri af ríkisfje, þá væri það kallað að fleygja honum út á klakann. Hjer er ekki um lærðan mann að ræða; hjer er einungis að ræða um óbreyttan símritara. En jeg vona samt, að þó alþýðumaður eigi hlut að máli, þá hafi Alþingi einhverjar tilfinningar fyrir því, hvað þetta er erfitt og hvaða áhrif það getur haft á mann, sem ef til vill er viðkvæmur og tilfinninganæmur, að finna það, að hann verður fyrir vantrausti og miður góðum aðbúnaði frá ríkisins hálfu. Í annan stað er hann líka tekinn frá starfi, sem hann hefir haft lífsuppeldi sitt af, og skilinn eftir án þess að nokkuð sjerstakt sje fyrir hendi handa honum.

Jeg gæti, ef jeg vildi, farið töluvert nánar út í málið og dregið ýmislegt fram, sem ef til vill væri rjett að kæmi fram.

Jeg ætla samt að sleppa því í þetta sinn, en þar sem skjöl þessu viðvíkjandi hafa legið fyrir þinginu, þá vona jeg, að menn geti litið með fullkominni sanngirni á þetta mál.

Úr því að jeg stóð upp á annað borð, þá vil jeg aðeins orða brtt. mína á þskj. 494, þar sem farið er fram á, að ríkissjóður ábyrgist fyrir Siglufjarðarkaupstað alt að 300 þús. kr. til hafnarbóta, gegn tryggingu, sem stjórnin tekur gilda.

Jeg vildi aðeins geta þess, að fyrir þá hv. þm., sem annars treysta hæstv. stjórn til þess að gera ekki neitt sjerstakt glapræði í fjármálum, fyrir þá er alveg útlátalaust að samþykkja þessa till. Tillagan er ekki á nokkurn hátt bindandi, og hæstv. stjórn verður að meta, hvort hún telur trygginguna gilda. Mín sannfæring er það, að þótt þessi ábyrgð væri veitt, gæti aldrei stafað af því nein hætta fyrir ríkissjóð. Siglufjörður á áreiðanlega nógar eignir til þess að tryggja þetta með, og það er kaupstaður, sem er í vexti og á ótal framtíðarmöguleika. Þetta getur því aldrei orðið nein hætta fyrir ríkissjóðinn, en hvort hv. þd. vill sýna þá sanngirni að leyfa þessa ábyrgð eða ekki, það verður atkvgr. að leiða í ljós.