20.02.1925
Neðri deild: 12. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (2383)

51. mál, lokunartími sölubúða

Flm. (Jakob Möller):

Jeg þarf ekki að vera margorður um þetta frv. Eins og getið er um í greinargerðinni og hv. þdm. muna, þá var það afgreitt frá þessari hv. deild í fyrra, eins og það liggur hjer fyrir, þó að ekki næði það fullnaðarsamþykki þingsins þá. Jeg get aðeins bent á það, að í rauninni er það alveg af sömu ástæðu, sem farið er fram á slíka heimild til samþykta um lokunartíma þeirra stofnana, er hjer um ræðir, og um samþykt um lokunartíma sölubúða. Í rauninni er munurinn enginn á þessu, því að lokunartíminn er fyrst og fremst ákveðinn vegna starfsfólksins, til þess að því sje ekki ofþyngt með vinnu, en alls ekki vegna starfseminnar, sem rekin er. Jeg hefi heyrt því hreyft til andmæla, að t. d. á rakarastofunum, mörgum hverjum, þá vinni aðeins sjálfir eigendurnir, og hjer sje farið fram á að hindra þá í að færa sjer í nyt starfstíma sinn. En alveg sama máli er að gegna um ýmsar verslanir, þar sem kaupmaðurinn afgreiðir og vinnur að öllu sjálfur. En þær eru ekki þar fyrir undanskildar ákvæðunum um lokunartíma sölubúða.

Jeg vænti þess, að frv. fái að ganga jafnhljóðalaust í gegnum þessa hv. þd. nú eins og í fyrra, og jeg sje ekki ástæðu til að leggja til, að því verði vísað til nefndar, því að það var þá rækilega athugað í nefnd og afgreitt síðan með miklum meirihl. atkv. í þessari deild.