09.03.1925
Neðri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í C-deild Alþingistíðinda. (2391)

51. mál, lokunartími sölubúða

Bjarni Jónsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með brtt. við þetta frv. Það er í sjálfu sjer eins og önnur frv. af þessu tæi, óþarft og á vitlausum grundvelli bygt, því að löggjöfin á ekki að skifta sjer af þessu. Engir menn eru ver farnir en þeir, sem bæjarstjórn á að ráða fyrir, hvernig skuli haga sjer, og það má þykja öfugt á þessum tímum, þegar mest er talað um atvinnuleysi manna, að gefa út lög, sem hindra þá í að leita sjer atvinnu. Undarlegt má það heita, að einmitt á sunnudögum, þegar menn þurfa helst að vera skafnir, skuli rakarabúðir vera lokaðar. Sá, sem selur, er aldrei til fyrir mann, ekki á þeim tíma, sem manni sjálfum er hentugastur. Slík þrælalög bera á sjer erfðamark frá þeim tíma, er enginn var frjáls orða sinna eða gerða. En það má heita lítt samandi afkomendum þeirra manna, sem hingað fluttu norður í haf, til þess að fá að vera í friði. Lakast er þó, þegar bæjarstjórnin vill hola hjer inn 2–3 mönnum, sem lifa á því að selja sælgæti. Þeirra atvinna er öll eftir venjulegan lokunartíma sölubúða, og eru þeir því þannig sviftir atvinnu sinni með lögum. Er þing komið saman til að eyðileggja atvinnu 2–3 manna hjer í Reykjavík? Jeg held það sje langt fyrir neðan okkur þingmenn, að reyna að taka atvinnu af þessum fáu mönnum.