09.03.1925
Neðri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (2394)

51. mál, lokunartími sölubúða

Bjarni Jónsson:

„Mikil er trú þín, kona“, má segja við hv. 2. og 3. þm. Reykv. (JBald og JakM). Þeir halda, að þeir hafi vit fyrir hverjum kaupmanni, og vitna til þess, sem reynslan hafi sýnt. En við í fjvn. höfum ekki tíma til að fara í búð fyr en eftir klukkan 7 á kvöldin til að fá okkur vindil eða annað, sem við þurfum að fá. Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hlær. En hvenær er lokað brauðbúð hans? Því er henni ekki lokað klukkan 7 ? Það mundi minka kostnaðinn við Alþýðubrauðgerðina. Menn eru svo kærleiksfullir, að þeir bera hag annara kaupmanna fyrir brjósti, en gá ekki að sinni eigin verslun.

En því eru engin lög um, að vinnukona megi ekki gera neitt eftir klukkan 7, eða að húsmóðirin megi ekki bæta bót eða spinna á rokk? Það er þó nákvæmlega það sama.

En svo er hitt, að vilja endilega ná í þessa örfáu menn, sem versla með sælgæti, og reyna að eyðileggja alla atvinnu þeirra, því að það er einmitt kunnugt, að þessir menn selja aðallega eftir kl. 7, eða þegar öðrum búðum hefir verið lokað.

Svo verður þetta óhagur öllum almenningi og kaupendum gerð margskonar óþægindi með því. Menn verða að hlaupa frá störfum sínum, kanske þegar verst gegnir, til þess að kaupa það, sem vantar í svipinn, vegna þess að kaupmanninum er bannað að versla eftir kl. 7.

Hví er þá ekki bændum bannað að selja sauð eða hest eftir kl. 7 á kvöldin? Það virðist liggja beint við, að banna með lögum öll viðskifti manna í milli eftir ákveðinn tíma á kvöldin.

Jeg ætla ekki að fara að karpa um það við sessunaut minn, hv. 3. þm. Reykv. (JakM), hvor okkar er frjálslyndari, og mjer hefir aldrei komið til hugar að fara í neina lúsaleit í því efni. Hitt er vitanlegt, að jeg hefi borið fram frv. um mannanöfn. Það hefi jeg gert til þess að bjarga íslenskri tungu og verja hana fyrir erlendri sníkjumenningu. Í því er ekkert ófrelsi, þó að stuðlað sje að því, að börn okkar beri falleg og þjóðleg nöfn, en erlendu skrípin hverfi úr sögunni. Og þó að hv. 3. þm. Reykv. (JakM) finnist, að nærri sjer sje höggvið með því að fordæma þetta ættarnafn, sem hann ber og þykir eflaust vænt um, þá er ekki verið að meina honum að bera nafnið, á meðan hann lifir, aðeins nær þetta til barnabarna hans. Það eru þau, sem samkvæmt frv. mínu eiga að bera íslensk nöfn. Jeg neita því algerlega, að jeg vilji hefta persónufrelsi manna, heldur hefi jeg jafnan skipað mjer þar í sveit og til varnar, þegar ráðist hefir verið á athafnafrelsið.

Hvað viðvíkur lokunartíma sölubúða, þá er það ófrelsi, að vera að skipa því með lögum, hvað þær eru lengi opnar. Engum getur komið til hugar að banna húsbóndanum sjálfum að standa í búðinni sinni og afgreiða fram eftir kvöldinu. Hafi búðarfólki verið misboðið með of langri búðarstöðu, þá hefði verið rjettara að skipa með lögum, hvað langan tíma fólkið skyldi vinna, borga því þá aukaborgun, eða fá nýtt fólk til þess að leysa hitt af hólmi. Með þessu ætti að setja undir lekann, en ekki að banna eiganda búðarinnar að hafa hana opna nema ákveðinn tíma.

Annars virðist mjer óþarfi að vera að deila um þetta. Þetta er skerðing á persónufrelsi manna, og ekki aðeins seljenda, heldur og kaupenda. Mjer finst t. d. óþarfi að skrifa upp hjá mjer á hverjum morgni, hvað það sje, sem mig muni vanta. Hitt hefir verið venjan, að senda í búðirnar jafnóðum og eitthvað vantaði í svipinn, og sennilegast, að því haldi áfram, því að það þarf enginn mjer að segja, að þessi lög verði betur haldin en önnur þau, er skerða athafnafrelsi manna. Og verður þá alt, sem með þessu vinst, aðeins það, að kenna mönnum að fara á bak við þau og fjölga lögbrotunum í landinu.