24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Baldvinsson:

Það var alveg óþarfi af hv. 2. þm. Rang. (KIJ) að fara að andmœla því, sem jeg vjek að í gær um kolakaup fyrverandi landsstjórnar. Í orðum mínum fólst engin árás, heldur sagði jeg blátt áfram frá því, sem fór fram, og að jeg hefði fundið að því á síðasta Alþingi, að fyrv. atvrh. hefði ekki látið landsverslunina kaupa kolin fyrir stofnanir ríkisins. Hv. 2. þm. Rang. (KIJ) mótmælir því harðlega, að hann hafi átt skilið ákúrur fyrir kolakaupin í fyrra, og þóttist þá hafa gert fulla grein fyrir þessari stjórnarráðstöfun. Það er nú svo. Mín skoðun á þessu hefir ekki haggast neitt við þá greinargerð. Það má vera, að meiri hl. þingsins hafi gert sig ánægðan með skýringar hans, en það sannar heldur ekki neitt, að hann hafi haft rjettara fyrir sjer en jeg.

Háttv. 2. þm. Rang. (KIJ) hefir heldur ekki unnið neitt á því að fara nú að hreyfa andmælum, annað en það að gleðja hæstv. ráðh. En það færðist gleðisvipur yfir andlit þeirra, þegar hv. 2. þm. Rang. (KIJ) fór að deila á mig. Það var eins og til að draga ofurlítið athyglina frá þeim eiginlegu eldhúsdagsumrœðum. Jeg ætla því ekki að ræða meira um þetta frumhlaup hv. þm., en snúa mjer að þeim atriðum, sem jeg gerði að umtalsefni í gær, og svara hæstv. ráðh. að því leyti, sem þeir viku máli sínu til mín.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að jeg hefði farið með tómar fullyrðingar. En hafi svo verið, þá hafa þær fullyrðingar verið á rökum bygðar. Að minsta kosti varð hæstv. atvrh. að játa, ef ekki beinlínis, þá óbeinlínis, að ýmislegt, sem jeg spurði um í fyrri ræðu minni og mjer þótti athugavert, væri svo í raun og veru. Þannig var t. d. með kolakaup hans á síðastliðnu sumri. Hæstv. atvrh. (MG) upplýsti, að kolin hefðu verið boðin út og lægsta tilboði hefði verið tekið. Ennfremur skýrði hann frá því, að þau hefðu kostað kr. 63.75 smálestin. Við þetta hefi jeg ekki neitt að athuga að svo komnu. En hæstv. atvrh. varð að játa það, sem jeg sagði í gær, að kol þau, sem lögð voru upp í Hafnarfirði af þessum farmi og ætluð voru hælinu á Vífilsstöðum, hafi verið svo smá, að hælið hafi neitað að taka við þeim. Ennfremur játaði hæstv. atvrh. (MG), að þeir menn, sem falið hafi verið að meta kolin, hafi talið þau vera í smærra lagi. Já, þau hafa verið í smærra lagi. Hæstv. atvrh. sagði, að kolin hefðu átt að vera sálduð. En eftir þessu lítur svo út, sem þau hafi ekki verið það. Og í raun og veru staðfestir þessi skýrsla hæstv. atvrh. (MG) almannaróminn um þessi kol, en hann er sá, að þau hafi í rauninni verið nær algerlega ónotandi salli, og þó að hægt hafi verið að láta stofnanir ríkisins og strandferðaskip ríkisins svæla þeim upp, þá sannar það ekki hið gagnstæða, því að vitanlega urðu þessar stofnanir að taka kolin, ef hæstv. stjórn vildi svo vera láta. En jeg held því fram, að landsstjórnin hafi verið göbbuð í þessum kaupum, og hún átti að neita að taka við kolunum, þegar þau voru ekki eins góð og tilskilið var. Og sá embættismaður í stjórnarráðinu, sem þetta heyrir undir, vildi heldur ekki taka kolin. En þá er sagt, að hæstv. atvrh. (MG) hafi úrskurðað, að kolasalli þessi skyldi samt keyptur. En hvað sem hæft er í því, þá voru kolin keypt. Og því hefir verið fleygt — en það eru kannske illgjarnar tungur, sem tala það, — að ráðh. hafi úrskurðað, að kolin skyldi kaupa, af því stuðningsmaður stjórnarinnar átti í hlut.

En annars hefi jeg nú fengið þær upplýsingar í málinu, sem sanna það, að almannarómurinn hefir ekki logið neinu um þessi kolakaup, því að hæstv. atvrh. (MG) hefir orðið að játa, að mikill hluti kolanna hafi ekki verið nothæfur, að matsmennirnir hafi talið þau vera í smærra lagi, sem auðvitað þýðir það, að þau hafi verið sallasmá, og svo loks, að stjórnin hafi þó eftir nokkurt stímabrak úrskurðað, að þau skyldu keypt, þrátt fyrir alt. Og að fengnum þessum upplýsingum get jeg látið útrætt um þetta atriði.

Það kom eitthvað ónotalega við hæstv. atvrh. (MG), þegar jeg sagði, að stjórnin vildi undanþiggja gróðafjelög skatti. En það þýðir ekkert fyrir hæstv. atvrh. (MG) að vonskast út af því. Stjórnin hefir lagt fyrir þingið frv. um þetta, og hefi jeg áður gert það að umtalsefni. Og þó ekki sje þar gengið svo langt að undanþiggja þau öllum skatti, þá er það samt meiningin að koma meginhluta af stórgróða togarafjelaganna á síðasta ári undan skatti. Og það var þessi stefna stjórnarinnar, sem jeg átaldi. Hœstv. atvrh. (MG) verður að hafa það, hvort sem honum líkar það betur eða ver.

Þá kem jeg að innflutningshöftunum. Hæstv. atvrh. (MG) var stórreiður út af því, að jeg kallaði framkvæmd þeirra hneyksli. En jeg bætti raunar við, að framkvæmdin hefði orðið eins og jeg bjóst við og eins og til þessa er stofnað. Jeg lýsti því á síðasta þingi, að jeg tryði ekki á framkvæmd innflutningshaftanna, og jeg sagði það jafnframt, að lögin um innflutningshöft frá 1920 væru tilvalin fyrir kaupmannastjórn til þess að geta ívilnað sínum mönnum með innflutningsleyfum. Og það liggur í því fyrst og fremst, að allir úrskurðir liggja undir stjórnina, og hún á að ákveða, hvað skuli leyft og hvað ekki, og hvenær þetta eða hitt er leyft. Enda er víst ekki erfitt að finna þess dæmi, að handahóf hafi verið í framkvæmd laganna. Þannig veit jeg til, að vara, sem bönnuð var í maí í fyrra og fullyrt var að alls ekki mundi verða leyfð, var leyfð svo að segja hverjum sem var í júní. Veit jeg vel um þetta, því að þetta kom einmitt fram um vörutegund, er jeg sótti um innflutningsleyfi á og var neitað um, en öðrum veitt leyfi skömmu síðar. Hæstv. atvrh. sagði, að jeg hefði komið með makt og miklu veldi upp í stjórnarráð og heimtað innflutningsleyfi fyrir Alþýðubrauðgerðina fyrir meira en nokkurt annað bakarí hefði fengið. Auðvitað neita jeg því ekki, að jeg hafi sótt um leyfi. Iðnfyrirtæki það, sem jeg veiti forstöðu, þarf einmitt að halda á mörgum þeim vörutegundum, sem nú er bannaður innflutningur á. En jeg fullyrði, að jeg hafi alls ekki fengið rífari leyfi en aðrir, og mörgum umsóknum mínum hefir verið neitað, svo sem dæmið sýnir, sem jeg drap á áðan. Þeim ummælum hæstv. atvrh. (MG), að jeg hafi komið með makt og miklu veldi og þóst eiga kröfu á að fá undanþágur, ætla jeg ekki að svara. Þau sýna aðeins rakaþrot hæstv. atvrh. Annars er það engin furða, þó að hæstv. atvrh. veitist erfitt að verja framkvæmd haftanna, svo mikill misbrestur sem á þeirri framkvœmd hefir verið.

Skal jeg svo í bili snúa mjer að hæstv. fjrh. (JÞ). Hann vildi neita því, að stjórnin hefði haft nokkur áhrif á það, hvaða útsvar Reykjavíkurbær legði á þetta ár.

Það er nú fyrst og fremst vitanlegt, að stjórnin hefir sent út, eða látið senda út, umburðarbrjef til bæjarstjórna, þar sem skorað er á þær að ráðast ekki í nýjar framkvæmdir. Nú er það svo, að í bæjarstjórn Reykjavíkur var það efst á baugi á síðastliðnu hausti að byggja á þessu ári nýjan barnaskóla, sem bærinn þarfnaðist mjög. Og það þótti vel gerlegt að taka mjög há útsvör í þessu skyni, sjerstaklega hjá fiskiveiðafjelögunum, sem höfðu grætt stórfje á árinu 1924. En það er ekkert launungarmál, að bæjarstjórnin fór miklu skemra í álagningunni en hún í fyrstu ætlaði, og það ekki heldur, að það voru áhrif frá stjórninni, sjerstaklega hæstv. fjrh. (JÞ), og svo frá bönkunum, sem gerðu það að verkum, að farið var lægra í útsvarsálagningu en ella mundi hafa verið gert. En auðvitað er þetta í samræmi við þá stefnu hæstv. fjrh. (JÞ), sem fram kemur í frv. hans um skattgreiðslu togarahlutafjelaganna. Alt miðað við það að ljetta sköttum af þeim, sem hæstar tekjur hafa. En með þessu hefir Reykjavíkurbær í raun og veru verið sviftur tekjum, sviftur því að fá hæfilegan hluta af stórgróðanum á árinu 1924 til nauðsynlegra og óhjákvæmilegra framkvæmda.

Jeg vil minnast nokkrum orðum á það, sem rætt hefir verið um skipun aðstoðar manns í hagstofunni. Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að það hefði verið með fullu samkomulagi við þann mann, sem veitingu hafði fyrir því starfi, að embættið var auglýst og veitt. Jeg hefi hjer í höndum brjef þau, sem fóru í milli hæstv. fjrh. (JÞ) og þessa manns, sem hjer um ræðir. Og í svarbrjefinu mótmælir maðurinn því, að hann sje sviftur veitingunni fyrir aðstoðarmannsstarfinu, og vitnar til þess, að sjer hafi verið veitt starfið undir þeim kringumstæðum, að vitanlegt hafi verið, að hann mundi ekki setjast í það fyrst um sinn. Síðan fer hann fram á umhugsunarfrest til vors, en við það var ekki komandi. Hæstv. fjrh. (JÞ) heimtar svarið innan fárra daga. Var þetta því ósanngjarnara, sem blöð Íhaldsflokksins eru stöðugt að japla á því, að þessum manni verði af pólitískum ástæðum vikið úr starfi því, sem hann nú gegnir við landsverslunina. Og hinsvegar er verið að tala um að leggja þessa stofnun niður. En hvort svo yrði eða ekki, gat hann fyrst vitað með vorinu, eða í þinglok nú. En sem sagt, hæstv. fjrh. (JÞ) vildi engan frest veita, heldur ónýtti veitinguna og veitti starfið af nýju. Þykir mjer hæstv. fjrh. (JÞ) hafa sýnt hina mestu ósanngirni í þessu máli.

Jeg vjek að því í ræðu í gær, að hæstv. fjrh. (JÞ) hefði traðkað, eða ætlað að traðka, þjóðræðinu, með því að fresta að setja á fót búnaðarlánadeildina eða hætta við að stofna hana. Hæstv. ráðherra (JÞ) mótmælti þessu í dag, sagði, að það væri ekki rjett, stjórnin hefði framkvæmt lögin um búnaðarlánadeildina. En sú framkvæmd er að minsta kosti ekki eins og Alþingi ætlaðist til. Lögin áttu að ganga í gildi 1. júlí 1924, og seinni hluta ársins átti búnaðarlánadeildin að fá tiltekna fjárhæð úr Landsbankanum og taka til starfa. En þetta var ekki gert. Jeg veit ekki, hvort hæstv. fjrh. (JÞ) getur forsvarað sig með því, að hann hafi ætlað að koma búnaðarlánadeildinni á seinna, en hvort sem hann reynir að hanga á þeim bláþræði eða ekki, þá er það víst, að hann gekk hjer í rauninni á snið við vilja Alþingis. Þess vegna var það, að jeg sagði fyr, að ef stjórnirnar tækju þann sið upp, að virða vilja Alþingis að vettugi, þá væri það háskalegt, ef óheillatillagan um fækkun þinga yrði samþykt, því að hún leiddi ekki til annars en þess, að stjórnunum gæfist miklu meira vald og svigrúm til þess að ganga á snið við þingviljann. Að þessu leyti kom þessi till. til breytingar á stjórnarskránni umr. við, þótt hæstv. fjrh. (JÞ) teldi ekki svo vera. Með því fyrirkomulagi er lagt meira vald í hendur stjórnarinnar, og að sama skapi minka áhrif Alþingis um framkvæmdir og aðgerðir stjórnarinnar. Þetta má með fullum rökum setja í samband hvað við annað, því að víst er það, að þegar hæstv. fjrh. (JÞ) ljet búnaðarlánadeildina taka til starfa viku áður en þing kom saman, þá sýnist það aðeins gert til málamyndar og yfirklórs, og ef þing væri ekki haldið nema annaðhvert ár, þá hefði með fullum líkum og rökum mátt segja, að búnaðarlánadeildin mundi ekki hafa verið sett á stofn fyr en 7. febr. 1926, eða viku áður en þing þá kæmi saman, sem alt færi eftir því, hvernig stæði á gufuskipaferðum, því að hæstv. stjórn virðist ætla að haga því svo framvegis, að samkomudagur þingsins verði ákveðinn eftir áætlunum póstskipanna, en ekki eftir stjórnarskránni.

Þá var það annað mál, sem jeg mintist á og snerti hæstv. fjrh. (JÞ). Það var gengismálið. Raunar þarf jeg ekki nú að fara um það mörgum orðum. Við erum ekkert ósammála um það, hvernig þetta hefir gengið til, enda er það upplýst, heldur um það, hvað hefir gerst. Það er sem sje játað af hæstv. fjrh. (JÞ), að stjórnin hafi með aukinni seðlaútgáfu komið í veg fyrir, að íslensk króna hækkaði eins ört og efni stóðu til í góðærinu 1924. Þetta er vítavert, því að með þessu hefir stjórnin komið í veg fyrir, að einmitt verkalýðurinn, sá hluti þjóðarinnar, sem alla björgina hefir dregið á land, hefði þau not af þeirri verðlœkkun, sem orðið hefði, ef íslenska krónan hefði hækkað í verði eins og vera bar. Nú hefir hæstv. ráðh. (JÞ) lýst því yfir, að stjórnin hafi komið í veg fyrir hækkun krónunnar með aukinni seðlaútgáfu, seni hæstv. ráðh. (JÞ) kallar „nauðsynlegar ráðstafanir“. Að vísu hefir hæstv. ráðherra reynt að skjóta sjer bak við gengisnefndina, en í lögunum um starf þessarar nefndar er það tekið fram, að hún eigi að bera tillögur sínar undir fjármálaráðherra, og jeg á bágt með að trúa, að gengisnefndin hafi gert neitt án þess að hún hafi að minsta kosti borið það undir hæstv. fjrh. (JÞ). Ætla jeg því, að hæstv. fjrh. geti á engan hátt skotið sjer undan ábyrgðinni með því að bera gengisnefndina fyrir þessu máli.

Þá kem jeg að síðustu spurningu minni til hæstv. fjrh. (JÞ),en hún var sú, hvaða tekjuskatt Krossanesverksmiðjan hefði greitt 1924 af árstekjum sínum 1923. Það er nú upplýst í málinu, sem jeg raunar vissi ekki áður, að verksmiðjan hefir ekki fylgt þeim ákvæðum skattalaganna að telja fram tekjur sínar, heldur hefir, eins og þá hlaut að verða, undirskattanefnd viðkomandi hrepps áætlað tekjurnar og gert verksmiðjunni að greiða skatt af 125 þús. kr. Einn ræðumaður sagði í dag, að það hefði orðið að samkomulagi milli hreppsfjelagsins og verksmiðjunnar, hvaða vitsvar hún skyldi greiða. Hvað sem um það er, þá er að minsta kosti ekki trúlegt, að verksmiðjan hafi samið um tekjuskattinn. En skattgreiðslan af tekjunum kemur ekki heim við það, sem margir fullyrða, að verksmiðjan hafi átt að greiða, því að það er fullyrt af nafngreindum mönnum, og haft eftir erlendum blöðum, sem þóttust þekkja reikninga verksmiðjunnar þetta ár, að tekjur hennar hafi að minsta kosti verði 750 þús. krónur. Þetta, ásamt öðru fleira, sýnist benda á, að hjer sje ekki alt með feldu.

Það er rjett hjá hæstv. fjrh. (JÞ), að úrskurður yfirskattanefndar er fullnaðarúrskurður, og verður ekki við honum gert nema ef þetta væri tekið til skifta; þá býst jeg við, að það yrði tekið úr búinu. (Fjrh. JÞ: Því miður ekki hægt). Það voru mjög eftirtektarverð ummæli, sem hæstv. fjrh. (JÞ) hafði í þessu sambandi, sjerstaklega vegna þess, að svo mikill tími þingsins hefir nú gengið í það fyrir hæstv. stjórn að verja þennan Krossanesmann fyrir því, sem hún kallar árásir á æru hans; því var það mjög eftirtektarvert, er hæstv. fjrh. sagði, að hann hefði nú beðið undirskattanefnd Glæsibæjarhrepps að hafa sjerstakar gætur á þessu framvegis. Sýnir það, að hæstv. fjrh. telur, að athuga þurfi þennan náunga og svo kunni að vera, að hann sje ekki svo saklaus og virðast kynni eftir þær umr., sem hjer hafa fram farið, og þær ályktanir, sem hjer hafa verið feldar.

Svo get jeg látið lokið máli mínu, en áður en jeg sest niður vildi jeg örlítið víkja að því aðalmáli, sem rætt hefir verið um í dag og undanfarna daga, og hefir jafnframt verið eitt aðalumræðuefni landsmanna síðan í fyrrasumar, að hæstv. atvrh. (MG) kom að Krossanesi. Það hefir mikið verið talað um, að þessir einstaklingar, sem litu svo á, að þeir hefðu verið sviknir af Krossanesverksmiðjunni og orðið fyrir skaða í viðskiftunum, ættu rjett á að fara í skaðabótamál. Og hefir þetta verið fært fram sem aðalafsökunin fyrir því, að hæstv. stjórn hefir ekki hafist handa í málinu.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) lýsti því nú dálítið í dag, hve erfitt og kostnaðarsamt það er fyrir einstaka menn að leggja út í slík mál. Mjer hefir líka verið sagt, að maður hafi verið á Akureyri í sumar, sem hafi verið staðráðinn í að stefna verksmiðjunni, en þegar hann kom til þess eina nothæfa málaflutningsmanns, sem til er þar á staðnum, þá var þessi málaflutningsmaður þegar upptekinn sem verjandi eða fastur starfsmaður Krossanesverksmiðjunnar. En að þessir menn hafa ekki farið í mál, þótt þeir telji sig hafa fullar ástæður til, gæti líka ekki að litlu leyti stafað af því, að hæstv. stjórn, eða hæstv. atvinnumálaráðherra fyrir hennar munn — því mjer dettur nefnilega ekki í hug, að hæstv. atvrh. (MG) hafi nokkurt skref stigið nje orð talað í málinu án þess að bera sig saman við hæstv. forsrh. (JM) — er þegar búin að segja í viðtali við norðanblöðin, að hún álíti ekki, að hjer sje um sviksamlegt athæfi að ræða, og að Krossanesmaðurinn hafi yfirleitt ekki fengið meira en hann átti að fá, þrátt fyrir stóru síldarmálin. Eftir að hæstv. stjórn er búin að segja þetta opinberlega, skyldi enginn furða sig á, þó að menn hiki við að fara í mál, því að óneitanlega hlýtur þessi yfirlýsing hæstv. stjórnar að draga mikið úr þeim. Mjer finst því fullkomin ástæða til, að Alþingi skerist í málið, því að sýnilegt er, að einstaklingarnir þora ekki að reka rjettar síns.

Þetta vildi jeg benda á, því að það hefir ekki komið fyr fram í umr.

Það afsakar og mikið, að einstaklingarnir hafa ekki ráðist í kostnaðarsöm mál, að allra hugir hafa beinst að Alþingi og menn hafa ætlað, að það myndi gera ráðstafanir, sem duga myndu til að reka rjettar landsmanna, ef hann hefði verið fyrir borð borinn.