13.03.1925
Efri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (2401)

51. mál, lokunartími sölubúða

Sigurður Eggerz:

Samskonar frv. og þetta var samþ. í hv. Nd. á síðasta þingi, en var þá felt hjer í þessari hv. þd. Nú hefir það aftur verið samþ. í hv. Nd. og er komið hingað. Jeg held, að ástæðurnar fyrir því, að frv. var felt hjer í fyrra, hafi verið þær, að menn hafi ekki verið búnir að kynna sjer það nægilega. Mjer sýnist, að þessar óskir flestra rakara þessa bæjar, um að ákveðinn sje með lögum lokunartími vinnustofa þeirra, sjeu svo sanngjarnar, að jeg skil ekki i, að hið háa Alþingi geti haft neitt á móti því, að verða við þeim. Þessvegna leyfi jeg mjer að mæla með því, að því verði nú, að lokinni umr., vísað til nefndar og síðan samþ.