18.04.1925
Efri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (2403)

51. mál, lokunartími sölubúða

Frsm. meirihl. (Eggert Pálsson):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, klofnaði nefndin um þetta mál, en samt sem áður geri jeg þó ráð fyrir, að það þurfi ekki að verða stór hvellur út af þessu, því að hjer er ekki um neitt sjerlega stórt mál að ræða. (SE: En það er sanngirnismál.) Mjer er þetta að minsta kosti ekkert kappsmál.

Á síðasta þingi lá þetta mál hjer fyrir og var þá felt í þessari deild. Þá var mjer í einu af dagblöðunum, Alþýðublaðinu, brugðið um það, að hafa barist ákaft og af kappi miklu á móti þessu máli, en jeg veit ekki til, að jeg ætti meiri þátt í því að fella þetta frv. þá en þeir aðrir 10 þdm., sem þá greiddu atkv. á móti því. Jeg leit svo á þá, að málið væri mjög svo þýðingarlítið á allan hátt. En svo er oft, er skoðanir verða skiftar um eitthvert mál, að sumir sjá ýmislegt mikilsvert við það. Hvað snertir okkur, sem sæti eigum í allshn., þá getur þetta mál hvorki verið kappsmál nje hagsmunamál. Í dagblaðinu, sem jeg nefndi áðan, var því slegið fram, að rakari sá, sem jeg ætti viðskifti við, hefði haft áhrif á skoðanir mínar í þessu máli. En nú vill svo til, að jeg á aldrei nein viðskifti við rakara, jeg raka mig sem sje ætíð sjálfur, og jeg ræð öðrum hv. þm. að gera hið sama, svo að ekki verði með nokkrum rökum hægt að brigsla þeim um, að rakararnir hafi áhrif á skoðanir þeirra í landsmálum.

Auk rakarabúðanna eru það nokkrar sælgætis- (konfekt)-sölubúðir, sem þetta frv. tekur til, og gætu sælgætissalarnir beðið eitthvert tjón af því, ef frv. þetta yrði samþykt. Sælgætistegundir þessar eru mestmegnis seldar síðari hluta dags eða á kvöldin, og kaupir það einna helst fólk, sem er úti á síðkvöldum að skemta sjer. En þó að það skuli fúslega viðurkent, að hjer sje alls eigi um neinar nauðsynjar að ræða og að ekkert væri í sjálfu sjer á móti því, ef hægt væri að takmarka eitthvað þessa verslun, með það fyrir augum, að venja fólkið á sparsemi, þá held jeg þó, að það verði samt allerfitt að lögbjóða sparnaðinn. Jeg held, að þessháttar löggjöf mundi ekki ná tilgangi sínum. Því að viljinn til að spara, samfara sparnaðarþörfinni, verður að koma innan að, frá fólkinu sjálfu. Þó að eitthvert bann eða takmarkanir yrðu settar í lög, mundu eyðslusamir menn ávalt gera eitt af tvennu, annaðhvort fara í kringum lögin eða finna sjer eitthvað annað til, til að eyða fje sínu. Þó að búðum þessum yrði nú lokað, mundu engin vandkvæði verða á því, að ná sjer í þessi sætindi, fyrir þá, sem á annað borð langar til þess. Því þá væri innan handar að fara í brauðsölubúðirnar, sem standa opnar og óðar mundu taka til að selja þessar vörur. Yrðu lögin þá aðeins til þess, að hagnaðurinn af sölu þessari flyttist yfir til annara en nú hafa hann.

Að því er rakara snertir, þá er það bersýnilegt, að sumir þeirra gætu og haft óhag af, ef frv. yrði samþ., því þess ber að gæta, að hjer er um tvo flokka rakara að ræða. Annarsvegar eru þeir, sem reka þessa atvinnu í stórum stíl, halda marga menn og geta því afkastað allmiklu á skömmum tíma og hafa því allgóðan arð af þessari atvinnu, þrátt fyrir styttan vinnutíma. En hinsvegar eru aftur á móti nokkrir, sem þannig er ástatt fyrir, að þeim veitir ekki af, sjer til lífsviðurværis, að hafa sem lengstan vinnutímann, þar sem þeir vinna einir og halda enga menn sjer til aðstoðar. Það er því ekki rjettlátt, ef þessum mönnum verður gert erfiðara fyrir að reka þessa atvinnu, svo þeir ef til vill yrðu að hætta, eða ganga öðrum rökurum á hönd, til að geta haft ofan af fyrir sjer.

Það, sem ræður mestu um mitt atkvæði í þessu máli, er þó enganvegin hagsmunir rakaranna, heldur miklu fremur almennings. Öllum almenningi kemur og hlýtur að koma það betur, að rakarastofum sje ekki mjög snemma lokað. Það er t. d. oft fjöldi aðkomumanna hjer í bænum, sem hafa orðið að nota allan annan tíma dagsins til að sinna ýmsum viðskiftum, meðan algengar sölubúðir er opnar, og hafa því ekki tíma til að finna rakarann fyr en eftir lokunartíma verslananna. Þessir menn verða oft fegnir að geta skroppið inn til rakara seint á kvöldin. Sama gegnir og um alla algenga verkamenn, þeir yrðu annaðhvort að hlaupa frá nauðsynlegri vinnu, sem þeir mega illa við að missa af, eða þá verða af því, að hafa not af rökurunum. Það virðist því ljóst, að þó svo færi, að frv. þetta yrði samþ., þá mundu slík lög aldrei verða annað en pappírslög ein. Það yrði óðar farið alla vega í kringum og á bak við þau, eða þau yrðu hreint og beint brotin að meira eða minna leyti. Rakararnir mundu t. d. taka sem flesta inn í afgreiðslustofurnar áður en þeim skyldi loka, og afgreiða mennina svo eftir hentugleikum, löngu eftir lokunartíma. Svona lítur meirihl. nefndarinnar á þetta mál, og jeg býst við, að svo muni fleirum fara en okkur, að verða þessarar skoðunar. Frv. þetta var felt hjer í fyrra með 10: 4 atkv., og því þætti mjer undarlega við bregða, ef það nú næði samþykki deildarinnar, án þess nokkur ný rök hefðu fram komið frv. til stuðnings. Að vísu stendur í greinargerð þessa frv., að það hafi verið felt hjer í deild í fyrra umhugsunarlaust eða umhugsunarlítið. En jeg fyrir mitt leyti mótmæli því algerlega, að jeg hafi þá greitt atkv. hugsunarlaust, þótt málið gengi ekki til nefndar. Og jeg ímynda mjer, að fáir þm. vilji gefa sjer þann vitnisburð, að þeir hafi greitt atkv. umhugsunarlaust, hvort heldur um þetta mál eður annað.