18.04.1925
Efri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (2406)

51. mál, lokunartími sölubúða

Sigurður Eggerz:

Þetta mál hefir verið allítarlega athugað í nefnd. Jeg bjóst nú við, að yfirvegunin leiddi til þess, að nefndin yrði óklofin, en svo hefir ekki orðið.

Jeg sje ekki annað en að þessar kröfur, sem gerðar eru, sjeu næsta sanngjarnar. Ef litið er til annara landa, t. d. Danmerkur, þá eru til alveg samskonar ákvæði þar. Þetta er því ekkert einsdæmi. Og það virðist alveg eðlilegt, að þessi stjett megi njóta hvíldar og friðar sunnudagsins. Ef það er ekki ákveðið með lögum, þá er erfitt að koma því við, og jafnan einhverjir, sem skerast úr hópnum.

Það er heldur ekki þýðingarlaust, að þessi stjett verði til þess fallin, að rækja vel sitt starf, verði t. d. hreinleg. Það er meira en prýði að því, það hefir mikla heilbrigðilega þýðingu. Það kemur þessu máli við að því leyti, að ef þessa menn má þrælka út hvenær sem er, þá fer að verða erfitt að fá góða menn til að gegna starfinu. Um leið og kröfur þeirra eru teknar til greina, þá eru þeim gefin skilyrði til þess að rækja starf sitt vel.

Jeg sje ekki neitt, sem geti staðið þessu í vegi. Þetta er auk þess ekkert annað en heimild fyrir bæjarstjórnina til að setja reglur um þetta.

Það er nú talin almenn og sjálfsögð regla, að menn eigi frí á sunnudögum. Og þetta starf er ekki svo ljett, að mönnum veiti af hvíld. Og ef lítið er á það frá guðrækilegu sjónarmiði, þá er þess að gæta, að messa byrjar kl. 11. Það útilokar þessa stjett manna frá guðsþjónustunni, frá þeim almenna rjetti borgaranna, að geta farið í guðshús.

Það er ranglátt, að taka ekki tillit til kröfu þessara manna, því að á þessu sviði hafa orðið miklar framfarir, sem okkur er sómi að.