18.04.1925
Efri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (2408)

51. mál, lokunartími sölubúða

Frsm. meirihl. (Eggert Pálsson):

Jeg býst við, að ekki hafi það mikla þýðingu, að ræða þetta mál mikið meira. Bæði andmælendur og fylgjendur frv. hafa látið skoðun sína skýrt í ljós, og býst jeg við, að báðum aðiljum gangi gott eitt til, og þess er varla að vænta, að frekari ræður hafi mikil áhrif í þá átt, að breyta sannfæringu þeirra í þessu máli.

Annars er það eftirtektarvert, að mestur hlutinn af umræðunum hefir snúist um hagsmuni og hugsunarhátt rakaranna, en ekki kringumstæður viðskiftamannanna, rjett eins og þeim komi málið ekkert við. En til þeirra verður engu síður að hafa tillit en sjálfra rakaranna. Og ef málið er skoðað frá þeirri hlið, þá verður því ekki neitað, að þeim er gert erfitt fyrir, ef frv. þetta yrði að lögum. Fyrir mörgum er svo ástatt á þessum tímum, að þeir hafa hvorki áhöld nje ástæður til að raka sig sjálfir, og þurfa því að snúa sjer til rakaranna, ef þeir á annað borð vilja við það eiga. En sje rakarabúðunum lokað einmitt á þeim tímum, sem þeir helst mega missa til að skreppa þar inn, þá eru þeim gerð talsverð óþægindi með því, eða óþarfur kostnaður.

Þá hefir hv. frsm. minnihl. (JJ) snúið máli sínu nú, eins og vitanlega oft endranær, að alveg óskyldu efni, sem sje dósentsembætti dr. Alexanders Jóhannessonar, og fæ jeg ekki skilið, hvernig þeim manni verður blandað inn í þessar umræður. Mjer er að minsta kosti ekki kunnugt um, að hann hafi nokkurntíma stundað rakaraiðn. Ennfremur lagði hv. þm. (JJ) enn að nýju mikla áherslu á, að með þessu væri framið helgidagsbrot. En jeg verð að segja það eitt, að þá hefir hv. þm. (JJ) aldrei skilið anda og kjarna þessa boðorðs um helgihaldið, ef hann heldur, að því verði fullnægt með svona frv. Helgun hvíldardagsins byggist á því, sem býr innra með manninum, ekki því ytra. Rakari, sem er við iðn sína á sunnudegi, gæti í hjarta sínu haldið hvíldardaginn heilagan, engu síður en hinn, sem ekkert vinnur, og vitanlega miklu fremur en sá rakari, sem situr með óhind yfir því, að löggjöfin hefir að þarflausu gripið fram fyrir hendur hans. Og hvað kirkjugöngum viðvíkur, þá getur vitanlega hver rakari, sem vill, farið í kirkju, lokað hjá sjer, en hinn, sem ekki langar að hlýða messu, gerir það ekki að heldur, þó að rakarastofu hans verði með lögum lokað.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar nú, og læt að svo búnu afskiftalaust, hvort hv. þm. þykjast hafa ástæðu til að breyta afstöðu sinni til þessa máls frá í fyrra eða ekki.