18.04.1925
Efri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (2409)

51. mál, lokunartími sölubúða

Frsm. minnihl. (Jónas Jónsson):

Jeg vil aðeins benda hv. frsm. meirihl. (EP) á það, að hann hefir enn ekki gefið neina skýringu á því, hversvegna hann vill ekki trúa bæjarstjórn Reykjavíkur fyrir minnihluta rakaranna. En þetta er stórt atriði, og furða, að samkoma, sem er bær um að jafna 17000 þús. kr. niður á bæjarbúa, skuli ekki vera fær um að gæta hagsmuna bæjarbúa og vernda þá eftir því, sem henni er heimilað.

Þá hjelt hv. frsm. meirihl. (EP) því fram, að við tækjum ekki tillit til þarfa viðskiftamannanna. En hvað hefir verið gert við viðskiftamenn kaupmannanna ? Það hefir verið lokað öllum búðum á helgidögum, nema lyfjabúðum, og þannig hefir þjóðfjelagið viðurkent, að ekki bæri að versla á helgidögum, nema eftir því sem þörf sjúklinga krefur. Þá hefi jeg ennfremur rökstutt það, að menn geti komist af án þess að raka sig á sunnudögum hjá rökurum. Og þó því hafi verið haldið fram, að sumir menn væru svo fákænir, að þeir kynnu ekki að raka sig, þá vil jeg síst láta lögleiða helgidagsbrot vegna þeirra. Slíkir klaufar eiga sannarlega skilið að ganga órakaðir.

Þá tók hv. þm. (EP) það illa upp fyrir mjer, að jeg skyldi hafa nefnt dæmið um allsherjarsnúninginn. En jeg þóttist hafa einmitt gert honum greiða með því að nefna þetta, og sannarlega er mönnum gert ljettara fyrir að snúast, ef einhver þyrfti slíks með, ef fordæmi væri tilnefnt.

Þá er mjög leiðinlegt, um svo háttsettan starfsmann í kristinni kirkju, að hann skuli jafnvel ekki vera sterkur í skilningi sínum á boðorðunum. Hann heldur því fram, að ekki geri til, þó að rakarar vinni á sunnudögum, því þeir geti samt sem áður haldið daginn helgan í hjarta sínu. En hversvegna fremur að banna mönnum þá aðra vinnu, svo sem að slá og raka, og þó mun ekki síður að gera það á sunnudögum í sóknum hv. þm. (EP). Væri ekki eins auðvelt að hugsa um heilaga hluti við slátt austur í Safarmýri, eins og við rakstur og klippingu suður í Reykjavík? Nei! Sannleikurinn er sá, að það er búið fyrir löngu að skera úr því með venjunni, að vinna hindri menn frá helgidagahaldi.

Jeg verð því ennþá að halda fram því sama, sem jeg tók fram áðan, að presturinn hefir leiðst hjer út á braut, sem brýtur þvert í bág við embættisstöðu hans, af einskærri meðaumkun með þessum miður hæfu rökurum. Hann leyfir þeim að brjóta hvíldardagshelgina og neyðir betur færari rakarana til að gera það sama. M. ö. o. hafa þingstörfin orðið ofan á í viðskiftunum við prestsstörfin.