07.03.1925
Efri deild: 25. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í C-deild Alþingistíðinda. (2414)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg stend ekki upp til að mótmæla þessu frv. Jeg álít það ekkert undarlegt, að það er fram komið, því að jeg get tekið undir flest af því, sem hv. flm. (JJós) sagði um þetta frv. Og það er að minsta kosti svo, að mjer virðist sjálfsagt, að þetta mál sje athugað rækilega í nefnd; en af því að jeg einmitt geri ráð fyrir, að þetta mál fari til nefndar, vildi jeg benda á nokkur atriði, sem jeg teldi rjettara, að höfð væri á annan veg en gert er í þessu frv.

Fyrst vildi jeg benda á, að það er ekkert undantekið af lóðum á því svæði, sem hjer á að selja. En jeg tel, að það væri hyggilegra, að undanskilja t. d. prestssetur. (JJós: Það er heldur ekki með). Það gæti líka verið ástæða til að ætla sýslumanni eða bæjarfógeta þar einhvern stað. Annars verð jeg að segja það, að mjer finst eðlilegast, ef Vestmannaeyjar verða seldar, að þá verði þær allar seldar, því að fyr eða síðar kemur að því, að bygt verður bæði utan og innan hinnar ráðgerðu merkjalínu milli lands og bæjar, og þegar svo er komið, tel jeg eðlilegast, að sömu eða samskonar skilmálar sjeu um leigu, en fyrir því er engin trygging, nema eigandinn sje hinn sami. Jeg man heldur ekki nema kanske sjeu einstaka lóðir fyrir innan merkjalínuna, er sje eign einstakra manna. Þetta þarf að athuga.

Verðið þykir mjer svona í lægsta lagi, tuttugu sinnum það, sem lóðirnar gefa af sjer; geri jeg ráð fyrir, að verðið sje ákveðið eftir því, sem þær gefa af sjer árið 1925. Um borgunarskilmála hefi jeg ekkert að athuga eða vaxtakjör, mjer finst það hvorttveggja mjög sanngjarnt.

Annars vildi jeg segja það, viðvíkjandi þessum lóðum í Vestmannaeyjum, að það er vandaverk, og hefir sýnt sig, að það er erfitt fyrir stjórnina, að hafa eftirlit með þeim, þar sem hún verður alveg að reiða sig á bæjarfógetann í þessu efni. Og jeg held, að þessu myndi betur stjórnað, ef það væri bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum, sem sjálf ætti að ráða í þessu máli. Auk þess sje jeg, að það væri miklu meiri styrkur fyrir bæinn að eiga lóðirnar, heldur en það er fyrir ríkissjóð.

Annars hefir það verið venja, að selja lóðir eftir mati, þótt það geti verið eðlilegt að miða verðið aðeins við eftirgjaldið. En væru allar Eyjar seldar, kemur fleira til, og þyrfti þá sennilega eitthvert mat, hvort sem það þá yrði framkvæmt hjer á þingi eða í Vestmannaeyjum. En jeg verð að segja það, að mjer er illa við tvískiftingu á Eyjunum, og vildi því heldur, að Vestmannaeyjabær keypti alt.