07.03.1925
Efri deild: 25. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í C-deild Alþingistíðinda. (2417)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Jónas Jónsson:

Jeg hefi ekki með öllu getað sannfærst af ræðu hv. flm. (JJós). Enn er ekki fyllilega ljóst, hvort ríkissjóður muni ekki verða fyrir ærnu tapi, ef gengið verður inn á sölu þessa. Hv. flm. kom lítið inn á þetta atriði, og er jeg ekki að ásaka hann fyrir það á þessu stigi málsins. Jeg þykist vita, að um fjárhagshlið þessa máls muni síðari umr. um frv. aðallega snúast, því að það kemur okkur þm. mikið við, hvort sala þessi muni ekki baka ríkissjóði talsvert tjón, án þess þó að koma Vestmanneyingum að liði að sama skapi.

Þó vil jeg í þessu sambandi benda á það, að þegar hv. flm. leggur aðaláhersluna á, að bærinn eignist land þetta, til þess að fjárhagur hans megi batna, þá liggur í því óbein játning þess, að bærinn eigi með frv. þessu að fá meira virði en hann geldur í staðinn. Þessu var að vísu svarað þannig að hæstv. atvrh. (MG), að gera mætti ráð fyrir, að bænum yrði meira úr landinu en ríkissjóði gæti orðið. En hv. flm. á eftir að sannfæra menn um það, að ríkissjóður geti ekki eins látið gera nauðsynlegar umbætur á landi þessu eins og Vestmannaeyjabær, og hvort ekki sje heppilegra, að ríkissjóður eigi landspildu þessa áfram, án þess að okra á henni, en reyni hinsvegar að fara jafnskynsamlega með hana sem bæjarfjelagið myndi gera. Í raun og veru er spurningin í þessu máli sú, hvort landsstjórnin geti ekki farið jafnskynsamlega með lóðir þessar eins og Vestmannaeyjabær, og þó að njóta þess ágóða framvegis, sem bærinn ætlar að hafa af kaupunum.