07.04.1925
Efri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (2421)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Frsm. meirihl. (Ingvar Pálmason):

Eins og sjest á nál. fjhn., hefir hún ekki orðið sammála um þetta frv. það er töluvert þýðingarmikið mál, því að með frv. þessu er farið fram á það, að ríkissjóður selji að líkindum þá stærstu og langverðmestu jarðeign, sem hann á enn óselda.

Með lögunum um sölu þjóðjarða, frá 1905, er gengið inn á þá braut, að ríkið selji þær jarðir, sem það hefir átt um undanfarnar aldir. Um árangurinn af þeim lögum eru mjög skiftar skoðanir, en jeg hygg þó, að meginþorri manna líti svo á, að lögin hafi ekki náð tilgangi sínum, og ekki laust við, að margir líti svo á, að margar eignir hafi verið seldar lægra verði heldur en sanngjarnt var. Þetta gefur ástæðu til þess nú, þá er um sölu Vestmannaeyja er að ræða, að athugað sje rækilega, hvernig er með söluverðið.

Eins og málið liggur nú fyrir hv. deild, skortir mikið á, að þær upplýsingar liggi fyrir, að þingmenn geti dæmt um verðmæti þessarar eignar. Það, sem meirihl. fjhn. hefir bygt á, er síðasta fasteignamat, en það getur verið varhugavert og ekki nógu tryggilegur grundvöllur til þess að byggja á, sjerstaklega þegar tillit er tekið til þess, hvað framkvæmdir allar í Vestmannaeyjum eru hraðfara. Það er því ekki að ástæðulausu, að meirihl. nefndarinnar lítur svo á, að tæplega sje gerlegt að taka nú fasta ákvörðun um þetta mál, eins og það horfir við. Eins og nál. meirihl. ber með sjer, er ætlast til þess, að útvegaðar verði nánari upplýsingar um málið áður en því verður ráðið til lykta.

Það hefir verið minst á þjóðjarðasölu yfirleitt í sambandi við þetta mál, en hjer stendur öðruvísi á en viða annarsstaðar, þar sem hjer er það bæjarfjelagið, sem er kaupandi, en annars hafa það verið einstaklingar. Jeg vil ekki leggjast í móti málinu, en hinsvegar dreg jeg það í efa, að nauðsyn þessa sje eins brýn og hv. flm. (JJós) hefir sagt. Ber hjer á það að líta, að Vestmannaeyjabær verður ekki nema að nokkru leyti notandi eignarinnar. Hitt er og verður leigt öðrum. Og þá ber á hitt að lita, hvort Vestmannaeyjakaupstaður verður betri landsdrottinn heldur en ríkissjóður. Um það efast jeg. En sem sagt vil jeg þó ekki að svo stöddu taka ákvörðun á móti sölu, og meirihl. fjhn. hefir litið svo á, að það væri ekki rjett af þinginu nú, að ákveða sölu, og byggir þar á því, að nú vantar öll gögn til þess að geta ákveðið söluverð.

Eins og jeg drap á áðan, þá er hið helsta, er fjhn. byggir álit sitt á, fasteignamatið. Það er nú rúmlega 630 þús. kr. á öllum Eyjunum. Mundi ef til vill margur segja, að þarna hefði legið nægileg gögn fyrir fjhn., en meirihluti hennar hefir ekki viljað fallast á það, því að slíkt mat getur altaf orkað tvímælis. Skal jeg þar, máli mínu til sönnunar, benda á Siglufjörð, sem vaxið hefir upp á skemri tíma en Vestmannaeyjar. Þar eru lóðir metnar á 1344 þús. kr., og virðist svo sem þar sje ekki gott samræmi í milli. Jeg skal engan dóm á það leggja, hvort lóðir í Siglufirði eru metnar of hátt, eða lóðir í Vestmannaeyjum of lágt. En sennilegt þykir mjer, að hjer sje hvorutveggja til að dreifa. Það er þó mín eigin skoðun, og tala jeg ekki þetta fyrir hönd fjhn. En jeg tel, að raunverulegt verðmæti Vestmannaeyjalóðanna sje hærra en fasteignamatið. Hjer er þó ekki á neinum föstum grundvelli að byggja, og þessvegna leggur meirihl. nefndarinnar til, að ítarlegri upplýsinga sje aflað um málið áður en föst ákvörðun sje tekin.

Hv. minnihl. (JJós) hefir fallist á, að hjer sje ekki að öllu leyti byggjandi á núverandi eftirgjaldi af lóðum í Vestmannaeyjum. Í þess stað hefir hann viljað fara þá leið, að láta nýtt mat fram fara og semja um verðið á þeim grundvelli. En jeg lít svo á, og hygg, að meirihl. fjhn. sje mjer samdóma um það, að um sölu og verð Vestmannaeyja eigi Alþingi að taka síðustu ákvörðun.

Jeg hefi þá í fáum orðum reynt að gera grein fyrir því, hvað valdið hefir, að meirihl. fjhn. leggur til, að mál þetta fái þá afgreiðslu, sem nefnd er í niðurlagi nál. á þskj. 289. Og jeg tel ekki ástæðu til, frá minni hendi, að lengja umr. frekar að þessu sinni.

Þó vil jeg, áður en jeg sest niður, skjóta því til hæstv. atvrh. (MG), að jeg lít svo á, að hann hafi ekki athugað þetta mál sem skyldi. Hann sagði við 1. umr. þessa máls, að hann væri hlyntur því að selja Vestmannaeyjar og teldi rjettast, að þær væru þá seldar allar, og nefndi í því sambandi 250 þús. kr., sem mundi vera hæfilegt verð fyrir þær. Jeg tel það illa farið, að hæstv. atvrh. (MG) skyldi ekki athuga betur þá tillögu sína. Mjer er það fyllilega ljóst, að slíkt verð getur alls ekki komið til nokkurra mála, enda leit meirihl. fjhn. svo á.

Jeg verð að líta svo á, að eins og málið liggur nú fyrir, þá sje ekki tímabært að ráða sölu Vestmannaeyja til lykta. En sem sagt, um þetta ætla jeg ekki að orðlengja frekar. Það eru fleiri, sem þurfa að tala, og vil jeg ekki tefja þá að óþörfu.

Eins og málið liggur fyrir nú, þá á það ekki að ná fram að ganga. Það er illa undirbúið og margar nauðsynlegar upplýsingar vantar. Mjer virðist meirihl. fjhn. hafa fært svo góð rök fyrir þessu í nál. sínu, og jeg reynt að bæta við það með því, er jeg hefi nú sagt, og ræð því hv. deild að ráða ekki þessu máli til lykta á þessu þingi.