07.04.1925
Efri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (2422)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Frsm. minnihl. (Jóhann Jósefsson):

Hv. frsm. meirihl. (IP) hefir nú reifað ástæður meirihl. fjhn. Og ástæðan fyrir því, að meirihl. nefndarinnar vill vísa málinu til stjórnarinnar — eins og gert hefir verið á svipaðan hátt áður í þessari hv. deild — er sú, að fullnægjandi upplýsingar liggi ekki fyrir hendi um verðmæti Eyjanna.

Hann sagði, hv. frsm. meirihl. (IP), að mál þetta yrði að athugast grandgæfilega áður en ákvörðun yrði tekin um það, hvort selja eigi Vestmannaeyjum lóðirnar, sem kaupstaðurinn stendur á, eða ekki. Þessu neitar víst enginn, enda hefi jeg aldrei gert ráð fyrir, að hrapað yrði að sölu lóðanna athugunarlaust. En hitt finst mörgum ekki nema rjett og sanngjarnt — og það fleirum en Vestmanneyingum — að kaupstaðurinn eigi land það, er hann stendur á, og ráði því sjálfur.

Jeg skal viðurkenna, að það sje ef til vill ekki rjett, að Alþingi ákveði lóðaverðið, enda höfum við minnihl.mennirnir borið fram brtt. í nál. á þskj. 271, þess efnis, að söluverðið ákveðist eftir mati þriggja dómkvaddra og óvilhallra manna, sem búsettir eru utan Vestmannaeyja. Það má vel vera, að brtt. sje ekki nógu ákveðin, en við töldum, að rjettara væri að taka það fram, til þess að tryggja betur, að engin óánægja rísi út af sölunni, að það yrðu að vera menn búsettir utan Vestmannaeyja, sem kvaddir væru í matsnefndina. Virðist mjer þetta síst óeðlilegt frá sjónarmiði þeirra manna, sem finna alt því til foráttu, að mál þetta lúkist á þann hátt, er Vestmannaeyingar óska.

Hv. frsm. meirihl. (IP) drap lítilsháttar á fasteignamat Eyjanna, og brá þá svo við, að alt skalf og nötraði. undir fótum hans, þegar þangað kom. Hann sagði, að fasteignamatið væri ekki nægilega tryggur grundvöllur til þess að byggja á því lóðaverðið. Jeg get vel trúað, að honum finnist enginn grundvöllur nægilega traustur til þess að byggja á í þessu máli. Því að hann hefir sýnt sig mjög andvígan málinu og hirðir ekki um nein rök, sem fram eru borin af þeim, sem máli þessu fylgja. Og nú skal jeg fræða hann um það, að samkvæmt dómi þeirra manna, sem til þekkja í Vestmannaeyjum og víðar á landinu, þá er það álit þeirra, að lóðir Vestmannaeyja sjeu tiltölulega hærra metnar en annarsstaðar á landinu og þoli fyllilega samanburð við Siglufjörð, er hann taldi hærra metinn. Siglufjarðarkaupstaður hefir meira landrými, en fasteignamat hans þó lægra en Vestmannaeyjalóðanna.

Hv. frsm. meirihl. (IP) kannaðist við, að hjer væri um annað að ræða en þjóðjarðasölu í venjulegri merkingu. Á þetta benti jeg líka við 1. umr. þessa máls, að slíkt væri alls ekki sambærilegt. Einstakir menn, sem kaupa þjóðjarðir, fá ótakmarkaðan eignarrjett yfir jörðinni og geta selt hana aftur eða ráðstafað á annan hátt, án íhlutunar þess opinbera, en bæjarfjelag Vestmannaeyja má samkv. frv. ekki selja lóðirnar aftur.

Eiginlega vildi hv. frsm. meirihl. (IP) láta skína í gegn, að hann væri ekki mótfallinn frv., þó að hann hinsvegar sýndi það bæði í orði og æði, að hann vildi koma því fyrir kattarnef, eða kanske eigi að skilja framkomu hans sem svo, að hún sje öll gerð gegn betri vitund hans?

Jeg viðurkenni, að fasteignamatið sje ekki nógu trygt, þessvegna er líka brtt. okkar minnihl., sem jeg nefndi áðan, borin fram. Við viljum, að öll gögn í málinu komi fram og matsmennirnir kynni sjer þau vel og rækilega og velji svo á milli. Reglan um þjóðjarðasölu er sú, að kynna sjer, hvort leigan hefir verið sanngjörn eða ekki og á hvora hliðina hefir hallast. Sama ætlumst við til, að gert verði í þessu máli, og ættu þá að koma fram þessar mörgu upplýsingar, er hv. frsm. meirihl. (IP) segir að vanti nú.

Hv. frsm. meirihl. lauk ræðu sinni með því að vanda um við hæstv. atvrh. (MG) fyrir það, sem hann hefði lagt til þessara mála. Það er rjett, að hæstv. atvrh. hefir látið það álit í ljós, að hann gæti fallist á að selja bæjarfjelaginu í Vestmannaeyjum lóðirnar, en talið, að upphæðin, sem nefnd hefir verið — 250 þús. kr. — mundi ef til vill of lág. Annars er ekki mitt að svara fyrir hæstv. atvrh. Hann mun gera það sjálfur.

Jeg hefi heldur ekki haldið því fram, að þetta verð, 250 þús. kr., væri það mesta, sem selja ætti fyrir, en hinsvegar væri ekki úr vegi að reikna, hvað sú upphæð væri lengi að tvöfaldast með því að leggja vextina við höfuðstólinn.

Í nál. á þskj. 289 vitnar meirihl. nefndarinnar í það, að hún hafi fengið upplýsingar um, að lóðargjöldin í Vestmannaeyjum hafi 5-faldast nú á síðustu árum, og telur þessvegna ekki hægt að byggja á gömlu leigunum um verðmæti Eyjanna.

Það er rjett, að síðasta ár hafa lóðargjöldin 5-faldast á nokkrum húsalóðum undir ný hús. Jeg hefi kynt mjer þetta mál og komist að þeirri niðurstöðu, að hjer sje aðeins um dutlunga stjórnarráðsins að ræða, sem stafar af þekkingarleysi þess og hirðuleysi um þetta mál, og sýnir, hvernig stjórnarráðið hefir altaf misskilið það. Einn góðan veðurdag er svo rokið í að 5-falda lóðagjöldin, þar sem því varð við komið. Og að þessu hafa menn þeir, er hyggja þurftu, svo orðið að ganga, til þess að geta fengið byggingu fyrir lóðunum.

Jeg er ekki að segja, að það hafi verið ósanngjarnt að hækka lóðagjöldin eitthvað, t. d. að þrefalda þau, en hitt nær engri átt, að 5-falda þau svona alt í einu. Það, sem meirihl. byggir á í þessu efni, sannar því ekkert um verðmæti Eyjanna. Jeg veit ekki, hvort meirihl. ætlast til, að stjórnarráðið útvegi þessi plögg og leggi þau fyrir þingið, til þess að vinna úr þeim. Hver ætti að útvega skrá yfir allar bygðar lóðir í Vestmannaeyjum, og hver veit svo um, hvort ábúð stendur lengur eða skemur? Nei, þessi rannsókn meirihl. er ekkert annað en fyrirsláttur, og haldið fram eingöngu til þess að eyða málinu að þessu sinni.

þau rök, sem minnihl. hefir borið fram í nál. sínu, eru þau einu hyggilegu og ættu að nægja öllum þeim, sem á annað borð eru ekki alveg steinblindir í málinu.

Það er ekki margbrotið mál að skilja, að hjer er um ungan kaupstað að ræða, sem vill eiga land sitt sjálfur, eins og margbúið er að taka fram. Það fyrirkomulag er líka, af öllum þeim, er besta hafa þekkinguna á þessum málum, talið hið hollasta hverju bæjarfjelagi. Og eins og hæstv. atvrh. (MG) drap á, við 1. umr. þessa máls, þá er hjer um mikið fjárhagsmál að ræða fyrir Vestmannaeyjakaupstað, en útlátalítið fyrir ríkið að sinna þessum óskum bæjarfjelagsins.