07.04.1925
Efri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (2428)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Sigurður Eggerz:

Mjer virtist hv. þm. Vestm. (JJós) verða erfitt að hrekja ummæli mín. Hann mótmælti ekki, að sanngjarnt væri að þrefalda leiguna, og þá kemur verðið alveg heim við það, sem jeg sagði.

Þó að jeg undirbygði ræðu mína með tölum, þá gaf það ekki tilefni til að fyllast vandlætingu. Það fer hjer sem oftar, að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Jeg var búinn að sanna, að Eyjarnar má ekki selja fyrir 200 þús., en að verðið muni sjálfsagt liggja fyrir ofan fasteignamat.

Hv. þm. (JJós) þótti jeg rangfæra orð sín. Hann kvað alt verið hafa í „óreiðu“. Það er að minsta kosti eins fast að kveðið eins og jeg gerði.

Hann komst heldur ekki allskostar vel frá því, að bendla mig við „óreiðu“. Því vitanlega hefir umboðið í Vestmannaeyjum altaf heyrt undir atvinnumálaráðuneytið, og jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. (JJós) ætli ekki forsætisráðherranum að vera með nefið ofan í öllu því, sem heyrir undir hina ráðherrana. Annars er það auðvitað bæjarfógetinn í Vestmannaeyjum, sem aðallega hefir farið með umboðið. Annars má vel vera, að óreiða sje á umboðinu, og er auðvitað sjálfsagt fyrir atvinnumálaráðuneytið að athuga það, en enn hafa ekki verið færðar sannanir fyrir óreiðunni.

Hv. þm. sagði einnig, að jeg hefði verið fylgjandi sölu á Siglufjarðareyri. Það er satt. En hvar er ósamræmið? Jeg hefi ekki enn með atkvæði mínu neitað um sölu á Vestmannaeyjum. En jeg bið um upplýsingar áður en selt er. Og góður þingmaður getur maður verið fyrir kjördæmi sitt, þótt ríkissjóðnum verði dálítið hlíft. Að því er afstöðu mína til Vestmannaeyja snertir, þá hefi jeg oft og einatt stutt mál Vestmanneyinga, t. d. í björgunarskipsmálinu og mörgum fleiri málum, en sem þingmaður þjóðarinnar get jeg ekki slept úr höndum ríkissjóðsins svo stórri eign fyrir smápeninga.

Hv. þm. (JJós) gat ekki sannað, að jeg færi skakt með tölur. Jeg gat margfaldað með þremur, bæði undan og eftir að jeg tók við því starfi, er nú hefi jeg. En ef það er eitthvað annað í sambandi við þetta starf, eða skipunina í það, sem hv. þm. (JJós) vildi hafa sagt, þá komi hann líka með það. Jeg vildi gjarnan fá tækifæri til að svara því einnig hjer.

Jeg sje ekki, að neitt sje vítavert við það, þótt jeg tæki aðra afstöðu nú en 1921. Í stjórnarskránni stendur, að þingmenn eigi að fara eftir sannfæringu sinni. Hjer hefi jeg ekki breytt neitt aðstöðu minni. En ef jeg sæi eitthvað betur 1925 en 1921, þá gerði jeg það hiklaust.

Dagskráin fer fram á ítarlega rannsókn á málinu. Að henni lokinni fær þingið að segja seinasta orðið um málið.