07.04.1925
Efri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í C-deild Alþingistíðinda. (2431)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Eggert Pálsson:

Það er eitt atriði, sem hefir dregist inn í þessar umræður, sem orsakar það, að jeg kveð mjer hljóðs. það er þjóðjarðasalan yfir höfuð að tala, hvort hún er rjett hugsuð og skynsamleg eða ekki. Jeg segi fyrir mitt leyti, að jeg hefi altaf fylgt þeirri stefnu, að rjettara væri að selja þessar þjóðjarðir alment, heldur en að ríkissjóður ætti þær. Hefir það vakað fyrir mjer, að með því að ábúandinn eignaðist jörðina, mundi hann frekar bæta hana, heldur en ef ríkið ætti. Jeg hefi þóst veita því eftirtekt, að einmitt þegar maðurinn hefir verið orðinn eigandi að jörðinni sjálfur, þá hefir það leitt til þess, að hann hefir farið að bæta hana, sem hann hafði ekki gert áður. Vitanlega er einnig sú leið til, að ríkissjóður, sem talað er um að sje svo góður landsdrottinn, leggi fram mestan hluta afgjaldsins til umbóta. Þá geta jarðirnar batnað, en þá skerðast um leið tekjurnar, sem ríkissjóður hefir af þessari eign sinni, svo að það verður tvíeggjað sverð. Þegar litið er á það fjárlagafrv., sem hjer liggur fyrir, sjer maður, að það eru yfir höfuð að tala sáralitlar tekjur, sem ríkissjóður hefir af þessum eignum sínum. Í fjárlögunum er eftirgjald eftir jarðeignir ríkissjóðs aðeins talið 33000 kr., þar með talin lóðargjöld í kaupstöðum landsins, Vestm.eyjum og máske fleirum. Og þegar maður heyrir það á aðra hlið, að lóðir ríkissjóðs í Vestmannaeyjum sjeu milj. kr. virði, þá dylst engum, að það eru æðilitlar tekjur, sem ríkissjóður hefir af þessum jarðeignum sínum. Á seinni árum hefir ríkissjóður selt nokkuð af þeim jörðum, sem hann hefir átt, og hefir það gengið í ræktunarsjóðinn; hve mikill hluti af jarðeignum hans það hefir verið, get jeg ekki sagt með vissu, en jeg ímynda mjer þó, að það, sem selt hefir verið af jarðeignum, síðan ræktunarsjóður fór að taka við því, sje ekki meira en helmingur á móts við það, sem ríkissjóður á eftir. En maður sjer þó, að vextirnir af ræktunarsjóði, sem er andvirði seldra þjóðjarða, eru samkvæmt fjárlagafrv. 25 þús. kr. Og sje þessi ágiskun mín nærri lagi, þá sjer maður það, að vextirnir, sem ríkissjóður hefir af því, sem selt hefir verið, eru talsvert meiri en af þeim þjóðjörðum, sem eftir eru.

Viðvíkjandi þessu sjerstaka frv., sem hjer liggur fyrir, verða menn að gæta þess, að hjer stendur alt öðruvísi á en með þjóðjarðasöluna yfir höfuð að tala. Þegar þjóðjarðir hafa verið seldar, hafa þær oftast verið seldar í hendur einstakra manna, og það verður maður að viðurkenna, að sje frá einni hlið varhugaverðara, heldur en ef bæjarfjelagi er selt. Því að Alþingi hlýtur að meta það mikils, að afkoma öll fyrir þessum bæjarfjelögum sje sem allra best, þar eð hvert slíkt bæjarfjelag er svo mikill hluti af þjóðfjelaginu í heild sinni, en hver einstaklingur aftur á móti ekki nema örlítið brot. En þegar litið er á þessi bæjarfjelög, sem svo er ástatt fyrir eins og Vestmannaeyjum, þá dylst það ekki, að það er illa fyrir komið og mjög óheppilegt, að slíkir kaupstaðir skuli ekki eiga sig sjálfir. Við rekum okkur á það margsinnis, að við erum í talsvert miklum vanda staddir fyrir þetta. Nú liggur t. d. fyrir þessari hv. deild eitt frv., sem jeg býst við að geti skoðast sem vandamál. Það er frv. um að leggja skatt á lóðir á Siglufirði. Þessar lóðir eru eign ríkisins. Jeg skal taka það fram, að mjer finst það mjög eðlilegt, að þetta frv. komi frá Siglfirðingum; það er eðlilegt, að þeir vilji á einhvern hátt standast kostnaðinn af því að verja landið með því að byggja hafnargarða o. fl. Nú er ekki heimilt að taka gjald af þessum lóðum. En þeir vilja ná slíku gjaldi af landinu, svo sem venja er til annarsstaðar, og það er í rauninni mjög eðlilegt. En hinsvegar dylst engum, að það er dálítið óviðkunnanlegt, að kaupstaðir geti farið að leggja skatt á eignir ríkissjóðs. Jeg skal ekkert um það segja, hvernig þessu frv. muni reiða af. En hitt þykist jeg viss um, að ef þessi braut verður farin þarna, þá hljóti að koma að því sama hvað Vestmannaeyjar snertir. Vestmanneyingar yrðu þá líka að fá leyfi til að skattleggja hjá sjer lóðir, sem eru eign ríkissjóðsins. Þetta fyrirkomulag finst mjer að öllu leyti óviðunandi, og þessvegna er jeg fyllilega fylgjandi því, að selja Vestmanneyingum nægilegar lóðir fyrir sinn kaupstað, og það því fremur sem jeg hefi fylgt þjóðjarðasölustefnunni áður. Mjer virðist sem ekkert sjerlegt geti verið í húfi, hvað ríkissjóð snertir, þótt þessi sala væri heimiluð, og hinsvegar, að með því mundi mega losna við margvísleg óþægindi á báðar hliðar.

Það hefir verið tekið fram, að hjer væri um svo mikið fjármagn að ræða — kanske um miljón króna — en það er nokkuð út í loftið talað. það er ekki hægt, þegar lóðirnar eru fyrirfram bundnar um margra ára skeið, að umhverfa þeim skyndilega í peninga. það verður að taka tillit til þeirra samninga, sem gerðir hafa verið. Hvort sem ríkið eða Vestmannaeyjabær ætti lóðirnar, þá yrði eigandinn að vera bundinn við þá samninga, sem gerðir eru. Og þessvegna er ekki hægt að gera ráð fyrir, að þessi eign sje eins mikils virði eins og ef engin bönd hvíldu á henni. En hitt er rjett, að þess verður æfinlega að gæta, að selja þessar eignir sem fylstu verði. Jeg get játað það, að því er snertir einstöku jarðir ríkissjóðs, sem seldar hafa verið, að þess hefir ekki verið gætt nógsamlega, að verðleggja þær nógu hátt. En til slíks ætti ekki að koma, að því er snertir sölu á þessari fasteign. Jeg býst við, að dómkvaddir menn, alveg óviðkomandi Vestmanneyingum sjálfum, verði kvaddir til. Og þá gæti maður vænst þess, að það mat yrði ekki hlutfallslega jafnlágt og á mörgum jörðum, sem seldar hafa verið, heldur þvert á móti fullkomið verð, sem bærinn gæfi fyrir lóðirnar og ríkissjóður biði engan skaða, hvorki í nútíð nje framtíð. Og svo verður í sambandi við þetta að gá að því, sem mjer virðist, að ekki hafi verið veitt nægileg athygli, að þetta mat er þó ekki annað en undirbúningsathöfn, þannig, að ef mat þessara manna virðist vera heldur lágt — en það getur maður treyst stjórninni til að meta og sjá — þá hefir hún það algerlega í sinni hendi, hvort selt er eða ekki, þar sem hjer er ekki nema um heimildarlög að ræða.