07.04.1925
Efri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í C-deild Alþingistíðinda. (2433)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Jónas Jónsson:

Hæstv. atvrh. (MG) áfeldi okkur meirihl. nefndarinnar fyrir það, að við hefðum kastað málinu of snemma frá okkur. En við höfum fært full rök að því, hversu flókið þetta mál er, og að það getur leikið á mörgum hundruðum þúsunda fyrir landssjóð, hvernig með það er farið. Jeg held því, að hæstv. atvrh. ætti að vera okkur þakklátur fyrir, að við viljum vísa málinu í hans hendur, svo það geti orðið betur undirbúið undir næsta þing, svo að hægt sje þá að taka endanlega afstöðu um verð á þessu landi, ef til sölu kemur.

Sá bálkur af ræðu hans, sem fjallaði um það, hvað umboði jarðeignanna væri illa stýrt, sannaði ekkert annað en það, að mikið ólag er í stjórnarráðinu á eftirlitinu með þessari eign. Má segja, að slíkt sje beinlínis játað af þeim, sem til þekkja, eftir að maður hefir heyrt hv. þm. Vestm. (JJós) segja sögur um þetta frá Vestmannaeyjum og hæstv. ráðh. (MG) bera tíðindin um það úr stjórnarráðinu. Það er ilt til þess að vita, einkum þar sem það að sjálfsögðu gefur mönnum grun um, að stjórnarráðið muni þá bregðast skyldu sinni og trausti í fleiru en þessu, og jafnvel að það, eins og því er skipað, sje alls ófært að stjórna landinu. því hvernig fer um stærri málin, þegar stjórnarráðið vanrækir að gera sæmilega leigusamninga um lönd sín og lóðir í Vestmannaeyjum eða annarsstaðar? Lýsing hæstv. atvrh. getur ekki orðið tekin öðruvísi en sem ásökun á stjórnarráðið, eins og það hefir verið í langan tíma.

Þá get jeg ekki talið, að jeg hafi ennþá fengið fullnægjandi svar við fyrirspurn minni viðvíkjandi miljónarfjórðungnum. Dettur mjer nú í hug það, sem merkur kjósandi úr Skagafirði sagði um hæstv. ráðh. (MG). Hann sagðist aldrei leyfa sjer að þræta um neitt við hæstv. atvrh. (MG), sem honum væri móti skapi að viðurkenna, nema 2 eða 3 vitni væru viðstödd. Jeg hygg, að þessi maður sje kjósandi hæstv. ráðh. (MG), og þekkir hann vist vel. Þetta er stór ókostur á manni, og gæti hæstv. ráðh. í þessu efni lært mikið af stjettarbróður sínum, hæstv fjrh. (JÞ), sem kaupast við það, sem hann hefir sagt. Hæstv. atvrh. (MG) játaði, að hann hefði verið til með það að selja Eyjarnar fyrir milj. En þrátt fyrir þessa játningu er hann samt að reyna að flækja málið, og, ef unt er, að komast undan með pexi og útúrsnúningum frá orðum sínum í nefndinni. Annars sýnir þetta ekkert annað en það, að málið er illa undirbúið, svo illa, að stjórnin hefir ekki verið búin að átta sig á því, sem var að gerast, þegar hún vill láta eignir þessar fyrir fje, sem reynist rúmlega 1/3 af fasteignamati. — En ef þessi vanþekking ráðherrans (MG) eða athugaleysi hefir ekki verið ástæðan fyrir honum, þá mætti ef til vill hugsa sjer, að þarna hefði hæstv. ráðh. (MG) viljað stinga laglegri glaðningu að flokksbróður sínum, hv. þm. Vestm. (JJós), til að koma heim með, svo sem laglega fjöður í hattinum. Er eftir þessu um tvent að velja, sem skýringu á þessu fyrirbrigði, annarsvegar frámunalegt rannsóknarleysi, en hinsvegar svo frámunalegt kæruleysi, að slíks er ekki dæmi í þingsögunni.

Hæstv. atvrh. (MG) hjelt því þá líka fram, að ekki væri svo óráðlegt að selja þetta land fyrir 250 þús. kr., því andvirðið, að viðbættum vöxtum og vaxtavöxtum, yrði ekki svo lítill sjóður, þegar tímar liðu. En hv. 2. þm. S.-M. (IP) hefir aftur á móti sýnt fram á, að þetta megi líka fá með því að eiga Eyjarnar áfram, en ávaxta leigurnar. En höfuðrökvillan hjá hæstv. atvrh. liggur þó í því, að Eyjamar sjálfar hækka mjög í verði, en andvirði þeirra ávaxtast aðeins með lágum peningavöxtum. Eða halda menn, að lóðir í kaupstöðum, sem eru í framför, hækki ekki meira í verði en höfuðstóllinn af andvirði þeirra? Það má vel vera, að hæstv. atvrh. (MG) hafi ekki skilið þetta. Hann er svo vanur að spara eyririnn en kasta krónunni.

Hv. 2. þm. S.-M. (IP) hefir sýnt fram á, hver grýla kostnaðurinn við umboðið í Vestmannaeyjum sje. — Annars var ekki í gær verið að horfa í eyðslu landssjóðs, þegar verið var að auka reksturskostnað skólanna.

Viðvíkjandi verðgildi Eyjanna fyrir ríkissjóðinn, þá er víst hægt að fullyrða, að allmargir leigusamningamir eru ólöglegir, og mætti laga þá til hagsmuna fyrir ríkið. Auk þess losnar eitthvað úr ábúð á ári hverju, og þannig má breyta samningunum smátt og smátt. Þá rennur það fje til landsins, sem nú fer til braskaranna. — Frá sjónarmiði Vestmanneyinga má það ef til vill teljast sanngjarnt, að leggja þau 10 þús., sem ríkið hefir nú upp úr Eyjum, til grundvallar söluverðinu. En þegar færðar hafa verið fram fullar líkur fyrir, að hafa megi með sanngjörnum hætti margfalt meira fje upp úr þeim, svo telja má, að fasteignamatið, sem þó er nærri þrisvar sinnum hærra en áætlaða söluverðið, sje alt of lágt, þá er ekki að furða, þó mönnum blöskri að heyra hæstv. ráðh. (MG) lýsa yfir því, sem hann er sannur að, að hafa sagt í þessu efni. Og hvernig sem málið er skoðað, þá getur það aldrei talist annað en ósvífni, að leyfa sjer að selja Eyjarnar undir hinu lága fasteignamati.