07.04.1925
Efri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í C-deild Alþingistíðinda. (2436)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Sigurður Eggerz:

Hæstv. atvrh. (MG) spurði, hvernig fara ætti að, ef rökstudda dagskráin yrði ekki samþykt, hvernig stjórnin ætti þá að rannsaka málið. Verði dagskráin feld, þýðir það væntanlega ekki annað en það, að hv. deild telur enga ástæðu til rannsóknar.

60 ára útreikninginn veit jeg ekki, hvort jeg hefi skilið, en ef setja hefir átt á vexti andvirði Eyjanna, eða 250 þúsund kr., þá verður það auðvitað mikil upphæð eftir 60 ár. En þá er einnig að athuga það, að leigurnar mundu einnig verða stór upphæð eftir það tímabil, ef þær væru settar á vöxtu, auk þess, sem verðmæti eignarinnar hefði stigið á þessu tímabili.

Ummæli hæstv. atvrh. (MG) í nefndinni, um Eyjasöluna, skildi jeg þannig, að honum þætti 250 þús. kr. ekki ósennilegt verð, en jeg hefi ekki á neinn hátt viljað halda honum föstum á þessum tölum, því að hann getur ekki hafa athugað málið nógu rækilega.

Aðalatriði þessa máls er þetta: Á að selja Vestmannaeyjar fyrir sannvirði eða ekki? Jeg geri ráð fyrir, að við, fulltrúar þjóðarinnar, viljum heimta sannvirði fyrir Eyjarnar, ef til sölu kemur, og þessvegna er óhjákvæmilegt að láta rannsaka, hvað sannvirði þeirra er.

Hv. þm. Vestm. (JJós) taldi sanngjarnt að þrefalda núgildandi eftirgjald Eyjanna, og á þeim grundvelli reiknaði jeg verðmæti þeirra 600 þús. kr., þegar leigumálarnir væru komnir í sæmilegt horf. Og við verðum að gæta þess, að enda þótt núgildandi leigusamningar eigi enn að vera í gildi um 20–50 ára skeið, þá er sá tími ekki langur í lífi heillar þjóðar. Þessvegna er enganvegin ósanngjarnt að miða verð Eyjanna við þrefalda hækkun eftirgjaldsins, ef sú hækkun er sanngjörn á annað borð.

Meirihl. nefndarinnar hefir ljóslega sannað, að 200 þús. kr. söluverðið, sem stungið var upp á í frv., er fjarstæða, enda er hv. flm., þm. Vestm., nú fallinn frá þeirri tillögu og vill láta dómkvadda menn meta söluverðið, enda skuli Eyjarnar seldar fyrir það verð.

Jeg verð að taka undir með hv. frsm. meirihl. (IP), að ekki getur annað komið til mála en að Alþingi taki endanlega ákvörðun um sölu Eyjanna og samþykki söluverðið.

Hæstv. atvrh. (MG) hneykslaðist mjög á því, að meirihl. fjhn. skyldi ekki taka endanlega ákvörðun um, hvort hann yfirleitt vildi selja Eyjarnar fyrir. það verð, sem honum líkaði. Vel má vera, að meirihl. hefði getað tekið slíka ákvörðun, en verðið hlýtur þó altaf að hafa mikil áhrif á afstöðu manna til þessa máls. Svo hátt gæti t. d. orðið metið, að ástæðulaust væri að hleypa Vestmanneyingum í þær skuldir, sem af kaupunum stöfuðu.

Yfirleitt er máli þessu þannig varið, að því meira sem um það er hugsað, því minni furða er á því, að menn skuli vilja fá það betur rannsakað, áður en endanleg ákvörðun er tekin um sölu Eyjanna.