07.04.1925
Efri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í C-deild Alþingistíðinda. (2437)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Jónas Jónsson:

Háttv. þm. Vestm. (JJós) gat þess, að mjer þætti stundum lítið í sjávarþorpin varið, en þó vildi jeg nú heimta gullgildi fyrir Vestmannaeyjar. Jeg hefi auðvitað aldrei neitað því, að mikið verðmæti, mikið gull, bærist á land í flestum kauptúnum landsins, ekki hvað síst í Vestmannaeyjum, þó að jeg hinsvegar hafi ekki sjeð ástæðu til að hefja til skýjanna hin andlegu verðmæti, sem kaupstaðamenningin hefir upp á að bjóða. Það er tvent ólíkt, enda hefi jeg aldrei blandað því saman.

Það er ofurskiljanlegt, að hv. þm. Vestm. sæki mál þetta fast, enda þótt hagnaður Vestmanneyinga af kaupunum kunni að verða mjög vafasamur, því þeir eru svo skammsýnir, margir hverjir, að halda, að kaupin muni færa þeim gull og gróða, og er engin furða, þó að hv. þm. (JJós) kunni því vel, að fá fallega fjöður í hatt sinn, til að sýna þessum háttv. kjósendum.

En jeg hefi leitt rök að því, að kaup Eyjanna muni verða Eyjaskeggjum yfirleitt til lítillar blessunar, þegar miðað er við núgildandi leigumála Eyjanna. T. d. er mjer kunnugt um, að verslunarfjelag, sem hv. þm. (JJós) er hluthafi í, hefir nú ágæta lóð á leigu með svo vægum kjörum, að enginn einstaklingur myndi láta sjer detta í hug að leigja lóð með þeim skilmálum. Hv. þm. (JJós) ætti því manna síst að þakka sjálfum sjer, hversu ósleitilega hann nú berst fyrir sölu Eyjanna.

Jeg hefi ekki sagt, að verslunarlóðirnar við höfnina væru framleigðar, enda hafa verslanirnar nóg við sínar lóðir að gera, og svo borgar sig ekki fyrir þær að hleypa keppinautum að lóðunum. En hins veit jeg dæmi, að aðrir hafa grætt stórfje á framleigu lóða í Vestmannaeyjum.

Jarðamatið frá 1875 sýnir eingöngu, að peningalega talað eru Eyjarnar miklu meira virði en bv. þm. Vestm. vildi láta selja þær, enda sagði einn helsti íhaldsmaður í hv. Nd. við mig í dag: Hversvegna gefið þið Vestmanneyingum ekki Eyjarnar? Honum þótti, sem vonlegt var, svo óhæfilega lágt það verð, sem talað hefir verið um að selja fyrir.

Það er alls ekki ósanngjarnt að bera saman lóðaverð hjer í miðbæ Reykjavíkur og í Eyjum, nema ef vera skyldi vegna þess, að landsdrottinn Eyjanna, íslenska ríkið, hefir varðveitt lóðirnar fyrir öllu braski, sem hefir óeðlilega hátt verð í för með sjer. En ef Eyjarnar verða seldar og lenda í „privatspekulation“, þá er grunur minn, að munurinn verði ekki mikill.

Það sveif á þá, hæstv. atvrh. (MG) og hv. þm. Vestm. (JJós), að jeg skyldi telja það ósvifni, sjerstaklega af hæstv. ráðh. (MG), að tala um miljónarfjórðung fyrir Vestmannaeyjar.

Við erum þrír úr fjhn., sem allir munum eftir því, að hæstv. ráðh. (MG) talaði um 250 þús. kr. (Atvrh. MG: Ekki man hv. 1. landsk. (SE) eftir því.) Jú, hann man það mjög vel líka, og hefir borið það hjer í dag. Eina ánægja hæstv. ráðh. (MG) er, að hv. þm. Vestm. (JJós) er svo góður við hann, að hafa gleymt þessu að nokkru leyti, hvort sem það minnisleysi undirmannsins verður nokkur veruleg brú til sáluhjálpar fyrir hæstv. ráðherra á sínum pólitíska dómsdegi.

Hins vil jeg unna honum, að reyna að kasta dálitlum ljóma yfir afstöðu sína í þessu máli og bæta að nokkru úr rannsóknarleysi sínu, með því að neita því nú til hálfs, sem hann hefir áður sagt.