07.04.1925
Efri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í C-deild Alþingistíðinda. (2438)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. 5. landsk. (JJ) var spakari nú en í dag, er hann talaði, enda var jeg venju fremur harðorður við hann. Skal jeg minnast þess framvegis, að ekki tjóar að taka á honum með silkiglófum, ef maður vill halda honum dálítið í skefjum.

Þó fór hann enn með rangt mál, þegar hann sagði, að mjer hafi gengið illa vitnaleiðslan.

Upprunalega sagði hann, að jeg hafi boðið Eyjarnar fyrir 250 þús. kr., en nú hafa tveir hv. þm. úr fjhn. (SE og JJós) borið með mjer, eins og rjett er, að jeg hafi sagt, að renna myndu á mig tvær grímur, ef boðnar væru fyrir Eyjarnar 250 þús. kr. með 6% ársvöxtum.

Hv. 2. þm. G.-K. (BK) hefir ekki tekið til máls, en jeg þykist vita, að hann muni líka rjett þessi orð min.

það fer svo fjarri því, að hv. þm. Vestm. (JJós) hafi vitnað á móti mjer um þetta atriði, en hinsvegar hefir hann af góðum og gildum ástæðum verið mjög þungorður í garð hv. 5. landsk. (JJ), og sitja þau ummæli á honum, þar til hann hrindir þeim, sem honum mun veitast fullerfitt.

Það er engin ný bóla, að hv. 5. landsk. (JJ) vitni í hitt og þetta, sem honum hefir verið sagt! í dag hefir t. d. einhver sagt honum, að nær væri að gefa Vestmannaeyjar en selja þær fyrir það verð, sem í frv. getur. (JJ: það var íhaldsmaður). Það er undarlegt, að hv. þm. (JJ) skuli aldrei detta í hug að vitna eitthvað í sjálfan sig, og er engu líkara en að hann hafi ekki betri trú en aðrir á þeim heimildum.

Annars get jeg ímyndað mjer, að þessi íhaldsmaður hafi bara verið að hæðast að hv. þm. (JJ), ef ummælin eru rjett höfð eftir, en hann tekið þau sem alvöru í hjartans einfeldni.

Umrædd þreföldun á verði Vestmannaeyja kemur fyrst fram, þegar allir núgildandi leigusamningar eru útrunnir, en það verður ekki fyr en eftir mannsaldur eða meira, og verðum við þá sennilega allir komnir undir græna torfu. Og ef við eigum nú að reikna með öllum aðstæðum, sem þá verða, eins og hv. 5. landsk. (JJ) vill reyna, þá komumst við út í botnlausar öfgar, eins og eðlilegt er.

Jeg vildi aðeins reyna að skýra fyrir hv. þm., að ef við legðum á vöxtu, þó ekki væri nema mismuninn á 1/4 milj. og höfuðstól eftir núgildandi eftirgjaldi Eyja, þá yrði sú upphæð orðin 800,000 kr. að þeim tíma liðnum. En þetta hefir hv. 5. landsk. (JJ) ekki getað skilið, og get jeg ekki að því gert. (JJ: Þetta er nú ekki svo djúpviturt.) Nei, það er alveg rjett; þetta er ofureinfalt mál. En þeim mun leiðinlegra er, að hv. þm. (JJ) skuli bresta skilning á því.